23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (2377)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hjelt, að fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. (MJ) ætti að verða fyrsta volduga árásin á stjórnina. Með þetta fyrir augum bjóst jeg við, að hjer yrði að minsta. kosti nokkur skemtun og að upp mundu standa 3–4 stjórnarandstæðingar og láta til sín taka. Jeg skal játa, að jeg hefi haft á röngu að standa. Ræður hv. 1. þm. Reykv. hafa ekki verið annað en það, sem við guðfræðingarnir erum vanir að kalla „gudeligt snak“, og enginn hefir staðið upp hv. þm. til hjálpar. En það er gaman fyrir stjórnina, að fyrsta áhlaupið skyldi vera svona elskulegt.

Hv. þm. vjek að því, að jeg hefði sagt, að jeg teldi mjer skylt að inna af hendi störf mín við Búnaðarfjelagið, til þess að geta betur staðið í stöðu minni sem atvmrh. Það, sem hv. þm. hafði að athuga við þetta, var það, að nauðsynlegt væri að hafa tvö stig dóma, undirdóm og yfirdóm, í þessu tilfelli Búnaðarfjelag Íslands og atvinnumálaráðuneytið. Þetta tvent er alls ekki sambærilegt, eins og jeg skal nú sýna fram á. Dómarar eiga að kveða upp dóm um það, sem búið er að framkvæma, en Búnaðarfjelag Íslands hefir á hendi framkvæmdir þess, sem atvinnumálaráðuneytið segir að gera skuli. Þetta er tvent ólíkt. Búnaðarfje lagið er nokkurskonar undirdeild atvinnumálaráðuneytisins. Að því leyti vil jeg feta í fótspor ýmsra manna úr sögunni, sem vildu vera með nefið niðri í öllu. Nú er það svo, að störf, sem snerta landbúnaðinn, eru þau störf, sem jeg hefi haft mestan hug á hingað til og álít þýðingarmestu störf atvinnumálaráðuneytisins nú og helsta verkefni þessarar kynslóðar. Þess vegna tel jeg mjer bæði ljúft og skylt að fylgjast með þessum störfum og taka þátt í þeim, að svo miklu leyti sem jeg get.

Þá vjek hv. þm. að starfi mínu í gengisnefnd. Í því sambandi kom ýmislegt fram hjá hv. þm., sem mjer þykir rjett að fara nokkrum orðum um. Hv. þm. sagði, að það stappaði nærri því að vera ósæmilegt, að atvmrh. ætti sæti í gengisnefnd, en rjett í sömu andránni sagði hann, að hann gæti svo sem trúað því, að nefndin gerði ekkert. Mer finst ekki vera auðvelt að samrýma þetta. Hv. þm. sagði, að jeg ætti að vera fulltrúi allra atvinnuvega í nefndinni, en hinsvegar gætu hagsmunir hinna ýmsu atvinnuvega rekist á. Nei, allir heilbrigðir atvinnuvegir eiga sömu hagsmuna að gæta um verðgildi peninganna. Allir krefjast þeir fasts verðgildis krónunnar. Þess vegna er sá maður, sem að því vinnur, að vinna nauðsynlegt starf fyrir alla atvinnuvegi landsins. Jeg skal gjarnan geta þess — og jeg þykist viss um, að jeg segi ekkert, sem jeg má ekki segja — að jeg og flokksbróðir hv. þm. í gengisnefndinni, sem er líka fulltrúi fyrir atvinnuvegina, áttum tal um þetta, og okkur kom saman um, að við hefðum með framkomu okkar þar unnið fyrir okkar kaupi betur en oft á sjer stað á landi hjer, þar sem við með áhrifum okkar gátum komið í veg fyrir, að unnið yrði enn meira óhappaverk en gert var, þegar peningarnir hækkuðu síðast. Jeg leyfi mjer því að vísa á bug ummælum hv. þm. um, að starf gengisnefndarinnar hafi verið lítilfjörlegt. Þó að ekki hafi verið þar mikið um fundarhöld upp á síðkastið, þá er þó starf hennar hið merkasta, og jeg tel mjer bæði ljúft og skylt að taka þátt í því með lífi og sál.

Loks gat hv. þm. þess, að jeg hefði talið nauðsynlegt, að gengisnefndin hjeldi áfram að starfa, en hann teldi rjett, að bankaráð Landsbankans tæki starf hennar að sjer. Mjer kemur ekki á óvart að heyra þetta frá hv. þm. En jeg get sagt, að þá teldi jeg, að hinir íslensku atvinnuvegir væru í hættu staddir, ef þeir ættu að eiga það undir þeim meiri hluta, sem nú er í bankaráði Landsbankans, hver grundvöllur atvinnuveganna skuli vera næsta ár. Tilvera gengisnefndarinnar, eins og hún er skipuð, er einmitt eitt af því, sem á að gefa íslenskum atvinnurekendum hina mestu tryggingu í framtíðinni.

Jeg þykist fyrst í ræðu minni hafa gert grein fyrir afstöðu minni til Búnaðarfjelags Íslands, en jeg vil þó geta þess, að þó að það sje annað, að Búnaðarfjelagið óski eftir skrifstofustjóra atvinnumálaráðuneytisins en ráðherranum, þá hefir mjer borist bein ósk um það frá ýmsum úr búnaðarþingi, að jeg yrði áfram í stjórn fjelagsins.

Um starf mitt í Íslandsbankaráði hefir hv. þm. ekkert sagt, enda er það eitt af mínum skyldustörfum samkvæmt lögum landsins. En jeg vil ekki alveg mótmæla því, að það gæti orðið óþægilegt fyrir forsrh. að eiga sæti í Grænlandsnefndinni. Það atriði skal jeg mjög gjarnan taka til athugunar, en jeg er ekki reiðubúinn til að gefa hv. þm. ákveðið svar um það nú. Jeg mun athuga málið í samráði við mína meðnefndarmenn, þar á meðal hv. 1. þm. Reykv.