14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jörundur Brynjólfsson:

* Jeg þarf ekki miklu að svara hv. 2. þm. Reykv., því að hv. þm. Borgf. hefir nú rekið ofan í hann svo eftirminnilega allar þær staðleysur, sem hann hefir haldið fram. Að vísu var hv. 2. þm. Reykv. kveðinn niður strax við 2. umr. málsins, svo að flest alt, sem nú hefir verið sagt, er aðeins endurtekning á því, sem sagt var þá. Það er búið að margbenda honum á, að það sje á engan hátt útilokað, að veikin geti borist með þessum vörutegundum, sem um er að ræða. Þó þverskallast háttv. 2. þm. Reykv. við og segir, að hjer geti ekki verið um neina sýkingarhættu að ræða. Ef hann væri nú eins heill í máli þessu eins og hann vill vera láta, þykir mjer undarlegt, hvernig hann rökstyður mál sitt. Aðalrök hans eru þau, að okkur stafi engin hætta af þessu, af því að veikin sje ekki ennþá komin til landsins. En aðstaða okkar er nokkuð með öðrum hætti en er hjá öðrum þjóðum, og því ætti okkur að vera auðveldara að verjast veikinni. Hann (HjV) staðhæfir bæði nú og við 2. umr. þessa máls, að slíkt bann eigi sjer ekki stað annarsstaðar.

Jeg hefi ekki haft aðstöðu til þess að afla mjer nógu góðra upplýsinga um það, hvað Norðmenn hafa gert í þessu efni, en jeg treysti Hannesi Jónssyni dýralækni fyllilega til þess að hafa bygt rit sitt á bestu gögnum, og hann segir þar, að Norðmenn hafi bannað innflutning á nokkrum þessara vara. Hann segir á bls. 181: „Það er því skiljanlegt, að hraðvaxnar jarðarafurðir eins og rófur, kartöflur, kál og annað grænmeti, hey og hálmur geti valdið smitun. Gengu Norðmenn langt í því, eftir að gin- og klaufaveikin fluttist til þeirra, að banna innflutning á þessum afurðum“. (HjV: Ekki kartöflum). Dýralæknirinn segir það þó, og jeg hefi enga ástæðu til þess að efast um það, og það getur meira að segja vel verið, að Norðmenn banni fleiri vörur, þótt við vitum ekki af því.

Samkv. því, sem fyrir liggur í þessu máli, verð jeg að segja það, að mjer finst hv. 2. þm. Reykv. tala af helst til lítilli alvöru um þetta mál. Hann sagði, að ef menn vissu, að þeir greiddu atkv. um það, hvort gin- og klaufaveikin bærist til landsins, þá mundi enginn efi á því, hvernig atkv. fjellu.

Jeg ætla hv. 2. þm. Reykv. ekki það ilt, að jeg geti gert ráð fyrir því, að hann greiddi þá atkv. gegn banni. En sönnun er ekki til, heldur aðeins líkur fyrir því, að veikin kunni að berast til landsins, og sú sönnun fæst ekki fyr en reynslan sker úr um það, hvort svo verður eða ekki, en þá er um seinan að hefjast handa, og því er það nú skylda hv. þm. að vera á verði.

Hv. þm. (HjV) sagði, að ef öll hættan stafaði af þessum vörum, þá væri skiljanlegt þetta mikla kapp, sem við flm. þessarar till. legðum á okkar mál. Jeg geri ráð fyrir, að fyrirkomulag varna verði yfirleitt bygt á mati þeirra manna, sem besta þekkingu hafa í þessum efnum, og jeg býst t. d. við því, að sjerstaklega verði farið með menn, sem hætta getur stafað af. (HjV: Hvernig var farið með hv. 2. þm. Rang., þegar hann kom úr siglingunni um þau lönd, þar sem gin- og klaufaveikin geisaði?). Hann var margsápuþveginn hátt og lágt, og veit jeg þó ekki, hvort það var vitað fyrirfram, að hann hefði verið þar, sem veikin geisaði, eins og hv. þm. sagði. Hann hefir þó ekki borið veikina, en hættan er nú sú sama, hvað sem því líður. Það væri sök sjer, ef hv. 2. þm. Rang. væri eini smitberinn. Það væri þá einfaldast að sleppa honum ekki út fyrir landsteinana. (BÁ: Helst ekki úr deildinni!).

Það voru ýms fleiri atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. drap á, en jeg held yfirleitt, að hann geri of mikið úr óþægindunum, sem af vörnum geti stafað. En það hefði áreiðanlega ekki þurft að tala með brígslum og aðdróttunum um fúlmensku hjá okkur andstæðingum hans í þessu máli. Ef landsmenn vantar smjör og egg, þá eiga menn að geta talað um það hitalaust og án þess að koma með allskonar dylgjur og aðdróttanir um fúlmensku og varmensku hjá andstæðingunum. Annars er það best að láta þá, sem þekkja okkur, um það, hvaða dóm þeir kunna að leggja á okkur, og halda því algerlega fyrir utan þetta mál.

Jeg álít, og jeg byggi það á allgóðum rökum, að það sje nóg til af eggjum og smjöri í landinu, en kannske síður af kartöflum. En það verð jeg að segja hv. 2. þm. Reykv., að þótt það bakaði mönnum töluverð óþægindi, þá álít jeg, að það sje ekki áhorfsmál að banna þá vöru. Því að hvað eru þau óþægindi hjá þeim ósköpum, sem yfir dyndu, ef veikin bærist til landsins? Annars skal jeg ekki fara meira út í það, því að hv. þm. Borgf. fór svo rækilega út í það í sinni ræðu.

Háttv. þm. (HjV) sagði, að ef ekki væri heimill innflutningur á þessum vörum, þá mundu þær hækka stórkostlega í verði. Þá er hægurinn hjá, ef það ætlaði að keyra úr hófi; að setja hámarksverð á vörurnar. Jeg fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti því. Því að það er alls ekki í neinum gróðatilgangi, að við viljum gera þessa ráðstöfun, eins og margsinnis hefir verið tekið fram af okkar hálfu, heldur aðeins til þess að verjast meiri og minni bágindum og vandræðum, sem yfir þetta land mundu dynja, ef veikin bærist hingað.

Þá kom hv. 2. þm. Reykv. með það sönnunargagn, sem alveg átti að ríða baggamuninn í málinu, þar sem var brjef frá smjörlíkisgerðinni „Ásgarði“.

Hann kveðst hafa gengið milli manna og ekki fengið þetta brjef. Hann veit ef til vill einhver deili á þessu brjefi, en jeg vissi ekki fyr, að það væri til. Jeg veit auðvitað ekki, hvort það hefir borist til landbúnaðarnefndar. Jeg hefi þó gengið allra manna lengst í þessu máli, og þó hefir hv. form. landbn. (LH) ekki sýnt mjer það. (LH: Öll brjef til landbn. hafa verið lögð fram). Jeg hefi ekki sjeð það. En auðvitað er mjer forvitni á að sjá það, ef það er til og hægt er að fá það.

En þetta hæfir ekki hjá hv. 2. þm. Reykv., því að ef brjefi þessu hefir verið leynt, þá hafa einhverjir aðrir gert það en jeg, og ætti hann að spara sjer að snupra þá, því að mjer sýnist þeir ekki standa honum allfjarri í þessu máli.

Þá var hv. þm. (HjV) að vitna til Suður-Þýskalands; þar hefði fyrst verið heimtað upprunavottorð af gerilsneyddri mjólk til ostagerðar, en síðan hefði verið hætt við það, þar sem talið hefði verið fullvíst, að veikin gæti ekki borist með þeirri vöru.

Viðvíkjandi osti, þá er að vísu sennilega engin hætta, ef mjólkin er gerilsneydd og hreinlega farið með hana. En jeg vil benda á það enn, að mjög margar tegundir osta eru búnar til úr ógerilsneyddri mjólk.

Prófessor Jensen segir það og, en hann segir ennfremur, að það sje „sennilegt“, að gerjun í osti drepi bakteríurnar. Hann fullyrðir ekkert um það; segir aðeins, að það sje sennilegt. Hann vill ekki leggja vísindaheiður sinn í hættu með því að segja meira en hann getur staðið við, þótt um hagsmunamál samborgara hans sje að ræða.

Jeg ætla svo ekki að elta ólar við fleira hjá hv. 2. þm. Reykv. Dylgjur hans um hvatir okkar í þessu máli eru ekki svara verðar, en þær eru því undarlegri, þar sem hvorki jeg nje aðrir höfum farið hið minsta út fyrir málið í ræðum okkar. Jeg held, að við höfum ekki talað svo, að það hafi getað gefið hv. þm. tilefni til þess að fara út í brígsl í okkar garð eða gera okkur upp annarlegar hvatir.

En það er annars oft svo undarlega ofarlega í þessum hv. þm., að eitthvað óhreint, varmenska eða lítilmenska, sje á bak við hjá andstæðingum hans. Jeg ætla, að við sjeum búnir að rökstyðja sæmilega það, sem við höfum sagt í þessu máli. Og jeg vona því, ef þessi hv. þm. á eftir að tala enn, að hann geti þá haldið sjer við málefnið og ráðið við þá hvöt sína að hnjóka við mönnum. Annars getur auðvitað verið, að innræti mannsins sje svo, að honum sje þetta ekki sjálfrátt, og menn verði því að virða honum þetta til vorkunnar, en jeg vona þá, að hann eigi svo langt líf fyrir höndum, að honum megi takast að vinna bug á þeirri ástríðu.