03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af því skjali, sem hv. 3. landsk. mintist á og lagði fram í málinu sem gagn, vil jeg benda á, að reynslan sýnir alt annað. Í frv. er skýrt tekið fram, að kaupfjelög, samlagsfjelög o. s. frv. eigi að njóta sömu rjettarverndar og einstakir menn. Nú segir hv. 3. landsk., að það verði að leyfa harðari „kritik“ um opinber fyrirtæki, sem sjeu almenningseign, og eigendurnir hafi því leyfi til að tala um þau. — Nú skulum við gera ráð fyrir, að landið reki verslun með byggingarefni í frjálsri samkepni við aðra og að fram komi órjettmæt ummæli um hana. Þá ætlast hv. þm. til, að gagnrýnin megi vera harðari á þessu fyrirtæki, af því að það sje eign landsins, en ef einstakur maður ætti það, og er þá auðvelt fyrir keppinautana að spilla fyrir því.

Að því er kemur til samvinnufjelaganna er öðru máli að gegna en um fyrirtæki landsins, því að þau eru alveg takmarkaður einkafjelagsskapur, sem starfar aðeins fyrir þá, sem í þau ganga, og ekki aðra. Nú verða þau bótalaust að þola harðari gagnrýni en kaupmenn, — eða reynslan hefir orðið sú.

Ef það er t. d. sagt á prenti um fyrirtæki einstakra manna, að þau sjeu illa stæð eða þeim glæpsamlega stjórnað, þá fara eigendur þeirra í mál og fá sjer dæmdar skaðabætur. Háttv. 3. landsk. heldur því fram, að samvinnufjelögin eigi að þola meiri gagnrýni en einkafyrirtæki, af því að þau sjeu almenningseign. En sannleikurinn er samt sá, að mál samvinnufjelaganna koma engum við öðrum en þeim, sem í þeim eru, að minsta kosti ekki sú tegund gagnrýni, sem hjer er um að ræða.

Nú viðurkennir háskólinn í niðurlagi álits síns, að um þrjár leiðir sjé að ræða. Í fyrsta lagi að dæma bætur ávalt, er ummælum er svo háttað, að þau gætu hafa valdið tjóni. Í öðru lagi að dæma bætur aðeins fyrir tjón, sem sannað er, og í þriðja lagi að dæma skaðabætur eftir líkum. Það er nú fyrst og fremst alveg furðulegt, að lagadeildin skuli leyfa sjer að halda því fram í einu, að enginn vafi sje á um þetta og jafnframt, að um þrjár leiðir sje að velja. Ennfremur er þess að gæta um þessa ágætu menn, sem undir þetta álit hafa ritað, að þeir hafa allir verið riðnir við dóma, sem snerta deilumál það, sem hjer er um að ræða. Það er á allra vitorði, að prófessor Einar Arnórsson vann að undirrjettardómunum í skaðabótamálum sambandsins gegn Birni Kristjánssyni og Garðars Gíslasonar gegn ritstjóra Tímans, núverandi hæstv. forsrh. Þó að þetta sje ekki sannanlegt, þá er það vitað, að hann undirbjó þessa dóma, enda mundi prófessorinn varla neita þessu opinberlega. Þessi prófessor taldi þá rjett að dæma ritstjóra Tímans í 25 þús. kr. skaðabætur, þó að gangi beint fram af málsskjölunum, að ekkert tjón hafi orðið af ummælum blaðsins fyrir G. G., heldur þvert á móti hið gagnstæða, ef nokkuð var. Þessum dómi breytti svo hæstirjettur á þá leið, að hann lækkar bæturnar úr 25 þús. niður í 5 þús., með þeim forsendum, að tjón hefði getað orðið af gagnrýninni. En það var sannað, að um slíkt var ekki að ræða.

Hinir tveir prófessorarnir voru varadómarar í hæstarjetti og dæmdu þar í máli „Sambands íslenskra samvinnufjelaga“ gegn hv. 1. þm. G.-K., sem öllum er kunnugt. Þessir háskólakennarar, hversu góðir, sem þeir annars kunna að vera, eru því allir úr leik í þessu máli, vegna aðstöðu sinnar til þeirra tveggja dóma, sem mestur ágreiningur hefir orðið um og ósamræmi rjettarfarsins mest áberandi. Það er þetta, sem veldur því, að þeirra dómur verður að litlu hafður í þetta sinn. Þeir eru hjer að dæma í máli, þar sem þeir eiga fortíð sína að verja. Það er því furða, að þeir skuli leyfa sjer að koma fram í þessu máli og ætlast til þess, að þingið fari eftir áliti þeirra. — Það er einnig ljóst, að hæstirjettur hefir breytt um stefnu. Í öðru tilfellinu eru dæmdar bætur af því, að tjón hefði getað orðið, en í hinu engar, af því að ekki sje sannað, að nokkurt tjón hafi átt sjer stað. Og hvar er þá rjettaröryggið í landinu? Þá getur svo farið, ef rjettarvenjan er ekki ákveðin og sjálfri sjer samkvæm, að almenningur fari að hugsa sem svo, að dæmt sje eftir því, hver í hlut á.

Við samningu þessa frv. gat stjórnin valið hverja af þeim þrem leiðum, sem lagadeildin getur um, en hún kaus helst að fara þá leiðina, sem einföldust er, til að hindra í framtíðinni ósamrýmanlega dóma út af órjettmætri gagnrýni.

Með því að samþykkja þetta frv. er rjettarvenjan ákveðin í þessu efni og um leið allar getsakir um hlutdrægni útilokaðar.

Jeg hefi nú sýnt fram á nauðsyn þessa máls og ennfremur það, að álit lagadeildarinnar verður að engu haft í þessu máli, vegna aðstöðu prófessoranna. Reynslan hefir verið óglæsileg í þessu efni. Með því að samþykkja þetta frv. er bætt úr þessu og það hindrað, að hægt verði að leika sjer með þessi mál, eins og virðist hafa verið gert í sumum undangengnum tilfellum.