30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2868 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er rjett hjá háttv. 1. þm. Reykv., að það er venja að vísa málum til nefndar, en það er allajafna gert við 1. umr. En mál þetta var til 1. umr. 8. mars. (MJ: Jarðarfarardaginn. Jeg hefi þá ekki verið viðstaddur). Hv. þm. hefir þó að minsta kosti undirkrifað fundarbókina. Það er rangt hjá hv. þm. að leggja mjer þau orð í munn, að jeg hafi ekki viljað vísa málinu til nefndar. Hefði verið farið fram á það við 1. umr., þá hefði jeg vitanlega ekki haft neitt á móti því, en mjer finst að minsta kosti óvenjulegt að fara að vísa því til nefndar nú við 2. umr. (MJ: Má ekki fresta umr. og vísa málinu til nefndar?). Jeg tel þetta alveg ósæmilegt, og sýnir það, að það er hugsun þessara hv. þm. að svæfa málið í nefnd. Þar sem nú er mjög liðið á þingtímann, þá vil jeg mæla mjög kröftuglega á móti því, að það sje gert.

Annars stóð jeg aðallega upp til að mótmæla kröftuglega þeim orðum hv. 1. þm. Reykv., að það hafi verið framið þinghneyksli, þegar samvinnulögin voru afgreidd nefndarlaust í gegnum þingið. Jeg tel þá löggjöf eitthvert mesta sómaverk, sem unnið hefir verið á Alþingi hin síðari ár. Og um það atriði, að þetta hafi verið flaustursverk, þá má segja það, að varla hefir betur verið gengið frá neinum lögum en þessum, enda var málið ágætlega undirbúið. Og til merkis um, að svo hafi verið, má geta þess, að þar stendur enn hver stafur og stafkrókur óbreyttur, og vona jeg, að svo verði enn lengi. Jeg vil því mótmæla þessu sem algerlega staðlausu. Vona jeg, að það, að þetta mál gengur nefndarlaust hjer í gegnum hv. deild, verði fyrirboði þess, að það standi eins traust og verði þinginu ekki síður til sóma en samvinnulögin.