04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að biðja hv. deild afsökunar á því að koma nú með 30 þús. kr. útgjaldabeiðni án þess að hægt hafi verið að ræða hana fyr. Till. er um það, að veita 30 þús. kr. til þess að byggja íbúðarhús handa hinum nýja lækni á Kleppi.

Þessu máli er þannig háttað, að læknirinn, sem nú er á Kleppi, hefir tekið í gamla spítalann eins marga sjúklinga og hægt er, og þó eiginlega öllu fleiri, því að spítalinn er ætlaður fyrir 50 sjúklinga, en þar eru nú um 70 sjúklingar. Yfir hann sjálfan hefir verið bygt timburhús með sæmilega góðri íbúð niðri og herbergjum starfsfólks uppi.

Nú er, eins og kunnugt er, verið að reisa þarna nýtt hús til viðbótar gamla spítalanum. Þegar það hús var teiknað, var það álit manna, að hægt mundi fyrir lækni þann, sem nú er, að annast sjúklingana með aðstoð kandidats, en við nánari athugun komst fyrv. stjórn að þeirri niðurstöðu, að slíkt mundi ógerningur, einkum þar sem sjúklingum mundi mjög fjölga eftir að nýi spítalinn væri kominn upp. Fyrir því gerði stjórnin einskonar samning 1925 við ungan íslenskan lækni, Helga Tómasson, sem getið hefir sjer hinn besta orðstír erlendis, að taka við læknisstörfum við nýja spítalann, er hann væri kominn upp.

Nú er þessi læknir nýkominn heim og kemst að þeirri niðurstöðu, að hann geti ekki tekið að sjer starfið nema hann geti búið þar líka. Segist hann ekki geta gefið sig eins að starfinu og með þarf, ef hann býr inni í Reykjavík, enda veit jeg, að þar, sem hann hefir áður verið, hefir hann sint sjúklingum allan sólarhringinn, þegar þess hefir þurft. Nú er húsið þannig bygt, að ekki er hægt að koma lækninum fyrir þar. Tvær hæðir hússins eru ætlaðar sjúklingum, en á efsta lofti eru smáherbergi fyrir starfsfólk.

Nú er þessi saga sögð eins og hún er. Helgi Tómasson treystir sjer ekki til þess að gegna þessu starfi nema hann geti búið þar líka. Veit jeg, að þessi ósk hans er ekki fram komin af neinu yfirlæti, heldur einungis vegna þess, að hann er svo samviskusamur maður, að hann vill annast sjúklingana sem best. Jeg mundi ekki hafa borið þetta fram, ef hjer væri ekki um óvenjulegan mann að ræða, sem skaði væri fyrir landið að missa. Það liggur engin teikning fyrir um þessa byggingu, en sú er meiningin, að húsið standi á klöpp, og að öðru leyti ein hæð. Það er því full von til þess, að hægt verði að byggja húsið fyrir 30 þús. kr.

Jeg vil óska eftir skýringu frá hv. 3. landsk. þm. (JÞ) viðvíkjandi vegakerfinu til Þingvalla. Jeg býst við, að hann hafi mælt með till. sinni í dag, en jeg var ekki viðstaddur, svo að það hefir farið framhjá mjer. Jeg vil aðeins segja það, að þessi vegur er eina fyrirtækið, sem Þingvallanefndin leggur til, að kostnaður verði lagður í vegna hátíðahaldanna, og kemur af því, að menn óttast, ef flytja þarf um 20 þús. manns eftir þessum eina vegi, sem nú er, sama daginn, að líkur sjeu fyrir óttalegum slysum. Menn hafa lýst hví fyrir mjer, hversu mikill reykjarmökkur varð eftir hestana við konungskomuna 1907, og varla verður hann minni eftir bílana, svo að það er auðsýnt, að þetta eykur slysahættuna. Annars býst jeg ekki við, að farið hefði verið fram á að byggja rennan veg, ef ekki hefði verið ákveðið að byggja hann í framtíðinni hvort sem er. Jeg hygg, að það hafi vakað fyrir hv. 3. landsk. þm., að bílarnir færu austurveginn. Jeg er honum sammála um það, að þennan veg þarf að laga, því að það verða margir gestir frá Ameríku, sem þurfa að komast til Suðurlandsins, en jeg held, að þetta ljetti ekki undir með flutningana frá Reykjavík til Þingvalla. Jeg er með hv. 3. landsk. þm. í því, að þessi umbót er nauðsynleg, en jeg held, að hún þurfi ekki að verða svo dýr; það þarf að vanda veginn yfir Hrafnagjá og upp brekkurnar, og annað ekki. Það er ekki af ljettúð, að við óskum eftir þessari Mosfellsbraut, en við álítum, að það muni valda miklum hátíðaspjöllum, ef aðeins er einn vegur. Við hugsum okkur, að frá Elliða ánum fari bílar austur eftir nýja veginum, en heim eftir þeim gamla. Form. Þingvallanefndarinnar, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), segist munu segja af sjer í nefndinni, ef þessi vegur verði ekki bygður. Jeg skil það vel; það er ekki ánægjulegt að vera í nefndinni, ef slys leiðir af þessari vegleysu, eins og allar líkur benda til að geri.

Þá vil jeg fara nokkrum orðum um b-lið XXVIII. till. á þskj. 695. Þingvallanefndin er líka riðin við þetta, og skal jeg skýra það lítillega. Það gegnir alt öðru máli með þetta en veginn. Nefndin viðurkennir, að þetta hefir litla þýðingu, því að hjer er hótel, sem tekur aðeins 60–70 manns, en það grípur inn í hátíðahöldin og nefndin er með þessu, ekki svo mjög vegna hátíðahaldanna, heldur vegna sóma Reykjavíkur og landsins í heild sinni. Hótelið, sem hjer er til, er ekki nema 3.–4. fl. hótel, og hefir þó verið bætt mikið af eigandanum. Það er leiðinlegt, að útlendir gestir, sem hingað kunna að koma, skuli ekki geta fengið inni í sæmilegu gistihúsi. Það vill nú svo til, að Jóhannes Jósefsson glímukappi hefir safnað sjer töluverðu fje í íþróttabaráttu sinni úti um heim, sem hann vill verja til þess að koma hjer upp gistihúsi. Hann hefir handbærar 250 þús. ísl. kr. og þarf 300 þús. kr. í viðbót. Það er gert ráð fyrir, að húsið verði með herbergjum fyrir 60 manns, auk samkomusala, og þarf því um ½ miljón til að koma því upp. Bankarnir hjer hafa þetta fje ekki og hefir Jóhannes því farið utan og víðsvegar um þar, en ekki getað fengið fjeð, þó að hann byði fyrsta veðrjett. Því var borið við, að bankarnir þektu ekki til hjer á Íslandi. Þó gat hann fengið 300 þús. kr. lán í Handelsbanken í Kaupmannahöfn gegn bæjar- eða ríkisábyrgð. Jóhannes fór nú til borgarstjórans hjer í Reykjavík, sem tók vel í málið og kvað enga áhættu mundu fylgja þessari ábyrgð. En svo hefir staðið á, að ekki hafa verið haldnir fundir í bæjarstjórninni vegna nýafstaðinna kosninga til hennar, og er málið því ekki útkljáð enn frá hennar hálfu. Nú símaði Jóhannes til Hafnar viðvíkjandi þessu, og þá kom í ljós, að bankinn vildi ekki veita lánið nema gegn ríkistryggingu. Sneri Jóhannes sjer þá til Þingvallanefndar, og einnig hefir hann talað við fjvn., er álítur, að engin áhætta muni vera af þessu. 1. tryggingin er í eignum Jóhannesar sjálfs, 2. í bænum og sú 3. hjá ríkinu, sem ábyrgist þetta út á við. Það má því segja, að þetta sje yfirtrygt. Það er þannig gengið frá þessu, að engan skaða getur af því leitt fyrir ríkið; það er aðeins um að ræða, hvort menn leggja meira eða minna upp úr því, hvort hjer verði komið upp nýtísku gistihúsi eða ekki. Stjórnin mun ganga þannig frá því, að það verði ekki byrði fyrir ríkið, en vilji bæjarsjóður hinsvegar ekki hafa fyrstu ábyrgðina, er heimildin þar með fallin.

Þá er það XXVII. brtt. á þskj. 695, sem jeg vildi minnast lítillega á. Hún fer fram á, að Geir T. Zoëga rektor fái full laun, ef hann lætur af embætti. Hann er nú búinn að vera kennari eða rektor í 40 ár og hefir verið heilsuhraustur, en er nú farinn að finna til ellilasleika, eins og eðlilegt er. Hann varð veikur fyrir skömmu, og meðan á þeim veikindum stóð, sendi hann Geir son sinn til mín, til þess að spyrjast fyrir um það, hvort hann fengi ekki full laun, þó að hann ljeti af embætti. Seinna fjekk jeg brjef frá rektor sjálfum, þar sem hann segist ekki skoða þetta sem eftirlaun, því að hann muni, ef hann heldur heilsu, vinna að orðabókum sínum áfram, en önnur þeirra er í endursköpun hjá honum. Það eru fordæmi fyrir slíkum heiðurslaunum. Bjarni Sæmundsson, annar fræðimaður við þennan skóla, fór frá með fullum launum, og var ekki sett sem skilyrði annað en að hann ynni áfram að fiskirannsóknum sínum, og hefir hann gert það ósleitilega, eins og kunnugt er. Jeg lít á þetta sem heiðurslaun og jafnframt handa gömlum manni, sem hefir mikið dagsverk að baki sjer og vill vinna að öðru starfi, orðabókum sínum, framvegis. Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil þó skýra nánar, hvað þetta þýðir fjárhagslega. Laun rektors eru 5000 kr., auk þess, sem hann hefir leigulausan bústað, hita og ljós. Þessi bústaður er metinn á 400 kr., sem er gamalt og lágt mat, en það varð að samkomulagi milli mín og sonar rektors, að hann fengi 1000 kr. fyrir bústaðinn. Það er ekki fullkomið, því að húsnæðið er áreiðanlega 3000 kr. virði. Jeg vil taka það skýrt fram, að Geir vegamálastjóri var fullkomlega ánægður með það, að þessi hlunnindi yrðu virt á 1000 kr.

Þá á jeg eftir eina brtt., styrkinn til Íþróttasambands Íslands. Það hefir haft heldur lágan styrk, 1800 kr., en Nd. hækkaði hann upp í 5000 kr. Jeg er ekki að segja, að þetta sje of hátt eða, telja það eftir þessum mönnum. Þeir hafa unnið mikið og vel fyrir íþróttahreyfinguna hjer í bænum, en mjer finst, sem íþróttamenn geti verið ánægðir með minni styrk í þetta sinn, því að þeim hefir verið sýndur sómi og tiltrú af Alþingi, þar sem er sundhöllin. Íþróttamenn hafa lagt mikið kapp á að senda menn á ólympísku leikana og sóttu um 15 þús. kr. styrk í því skyni til Nd., sem sinti því ekki, enda er þetta hærri upphæð en forsvaranlegt er að veita. Við höfum tvisvar sent glímuflokka á ólympísku leikana, en í alheimsíþróttum hafa Íslendingar ekki kept á þeim, nema þegar Sigurjón Pjetursson kepti í grísk-rómverskri glímu, og við góðan orðstír. Jeg játa, að okkar íþróttalíf er ekki svo fullkomið, að við getum sent menn til að keppa í hlaupi, sundi eða knattspyrnu, en það er einn lítill íþróttahópur hjer, sem hefir komist svo langt, að hann getur tekið þátt í kappraunum á við bestu flokka erlenda. Það er íþróttaflokkur kvenna, sem Björn Jakobsson hefir æft. Konurnar gátu sjer mikinn orðstír í fyrra í förinni til Noregs og Svíþjóðar. Var það mikill sigur, því að kvennaleikfimi er fullkomnust á Norðurlöndum og hvergi þroskaðri smekkur fyrir henni en þar, en þaðan voru þeir, sem dóm lögðu á íþróttir þessara kvenna. Jeg býst við, að ekki fari færri en 12 konur, og því hefi jeg lagt til, að styrkurinn til Íþróttasambandsins yrði hækkaður um 1000 kr., en bætt því skilyrði við, að 3000 kr. af styrknum skuli greiða til leikfimiflokks þessara kvenna í kostnað við ferð á olympíuleikana. Þetta þýðir það tvent, að styrkurinn til Íþróttasambandsins lækkar um 2000 kr. og konurnar fá 3000 kr. ólympíufararstyrk. Auðvitað er það ekki meiningin, að þetta verði varanleg lækkun. Jeg býst við, að menn segi, að þetta sje of lítið, en jeg hefi ástæðu til að ætla, að þær fari, ef þetta fæst, auk þess sem þær fá frítt far með skipum Eimskipafjelagsins, þar sem búið er að tryggja þeim mönnum ókeypis far með þeim, sem fara í alþjóðarerindum. Jeg mundi hafa á móti því að senda aðra á ólympíuleikana en konurnar, af því að við höfum ekkert annað, sem getur staðið á hlið við erlendar þjóðir. Jeg legg því til, að þetta sje veitt, og þó að það sje af vanefnum gert, er það altaf viðurkenning fyrir það, sem konurnar hafa lagt á sig.