03.02.1928
Efri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

51. mál, landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Jeg vil geta þess út af þeim ummælum hæstv. dómsmrh., að það hefði reynst verra fyrir landið, að búið var að kaupa Þór, vegna þess, að það þyki sjáanlegt, að skipið muni ekki endast viðunandi lengi, að þetta atriði var mjög vandlega íhugað, áður en skipið var keypt. Landið átti kost á að halda Þór án þess að kaupa hann, en þó með því skilyrði, að það hætti ekki að nota hann, nema með samþykki þess fjelags, sem seldi hann á leigu, Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Kaupverðið var aðeins 80 þús. krónur, svo að fyrverandi stjórn þótti hentugra að kaupa skipið, því að þá var það alveg á hennar valdi, hvort það hjeldi áfram landhelgigæslu eða ekki, þegar að því kæmi, að nýtt skip yrði bygt. Jeg held, að ekki megi reikna meðalaldur slíkra skipa hærri en svo, að framan af verði afskrifað af stofnverði þeirra 50 þús. kr. á ári fyrir skip eins og Óðinn og 40 þús. kr. fyrir skip eins og Þór. Kaupverðið var þá ekki nema sem svarar tveggja ára afskrift, og má segja, að þegar búið er að halda því úti í tvö ár, verði landhelgisjóður að vera búinn að afskrifa verðið að fullu. Þess vegna er ekki hægt að segja, að frá fjárhagslegu sjónarmiði sje verra fyrir ríkissjóð, að farin var þessi leið, en ekki hin, sem kostur var á. Það kemur að því, af mörgum ástæðum, bæði kostnaðarins vegna og til þess að fá hagkvæmari landhelgigæslu, að betra er að skifta um og fá nýtt skip. Það liggur beint við að gera það nú, en þegar að því kemur, þá er sá rjetti tími til að ákveða, hvort Þór skuli vera þriðja. skipið eða hvort á að selja hann. En hitt skil jeg ekki, að nokkrum hafi komið til hugar, að Þór mundi fullnægja hinni almennu strandgæslu um langt árabil.