13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

51. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg vil ekki á neinn hátt þræta við hæstv. stj. um það, hversu byggingu skipsins skuli háttað. Jeg gat þess, að jeg færi hjer eftir áliti annara manna, og benti aðeins stjórninni á, að ef til vill mætti taka þetta álit til greina. Mjer skildist, að hæstv. fjmrh. teldi það kost á frv., að það væri ekki tekið fram, hvenær skipið skyldi bygt. Að vísu er ekki ákveðið í frv., hvenær skipið skuli bygt, en hinsvegar sagt, að ríkisstjórnin skuli hrinda byggingunni í framkvæmd svo fljótt sem verða má. Þetta er í raun og veru sama og „nú þegar“, því að fjeð, sem á að verja til skipsbyggingarinnar, er þegar fyrir hendi, og gæti því frestun ekki stafað af fjárskorti. Hæstv. fjmrh. sagði, að skipið gæti ekki orðið tilbúið fyr en eftir ár. Jeg hefi ekki búist við, að skipið yrði tilbúið alveg á næstunni, en hinsvegar get jeg ekki skilið, að lengri tíma ætti að taka að byggja það heldur en Óðin. Jeg er samþykkur hæstv. fjmrh. um það, að þetta viðbótarskip myndi ekki fullnægja gæsluþörfinni, og tók það fram í ræðu minni. Jeg held jafnvel, að brot gætu komið fyrir, jafnvel þótt skipin væru fjögur. Hæstv. fjmrh. sagði, að menn mættu ekki gera sjer of háar vonir um, að tæki fyrir lögbrot togaranna í framtíðinni með öllu. En þetta er þó það mark, sem við eigum að keppa að, og jeg hygg, að strax myndi bera minna á ólöglegum veiðum, ef vjer fengjum þetta eina skip í viðbót.