04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi mjög litlu við að bæta það, sem jeg hefi áður sagt við umræður þessa fjárlagafrv., en það voru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hv. frsm. nefndarinnar (PH) gat um, að þær till. til hækkunar á tekjuáætluninni, sem hv. nefnd ber fram, hafi verið gerðar í samráði við mig. Þetta er að vísu rjett, en það er þó ekki alveg án undantekningar, því að jeg hafði ekki gert neina tillögu um hækkun á áætlun um tekjur af áfengisversluninni. Nefndin hefir komið fram með tillögu um að hækka þann lið um 75 þús. kr. Jeg skal engu spá um það, hvort þessi áætlun getur staðist, en hæpið tel jeg það.

Það er annar liður, sem jeg einnig vildi minnast á, en það er um hækkun á tekju- og eignarskatti. Þó að nú sje komin fram brtt. um það, þá er frv. um það efni ekki afgreitt að fullu hjer í deildinni, en jeg geri ráð fyrir, að svo muni samt fara, að það nái fram að ganga, en hinsvegar býst jeg við því, að það sje ekki öllum ljúft að þurfa að grípa til þessa; en úr því sem komið er, þá tel jeg, að ekki muni verða hjá því komist.

Hjer liggja fyrir tillögur um allmikla hækkun útgjalda; að vísu er það svo, að tillögur nefndarinnar gera ekki ráð fyrir neinni verulegri hækkun, sem neinu nemur, svo að jeg geri ráð fyrir, að jeg muni geta aðhylst þær flestar. Það er aftur nokkuð öðru máli að gegna um tillögur einstakra þingmanna, að hversu gjarnan sem jeg hefði kosið að ljá sumum þeirra fylgi, þá mun jeg ekki sjá mjer fært að styðja margar þeirra, því að ef sú útgjaldahækkun, sem þessar brtt. gera ráð fyrir, næði fram að ganga, þá myndi það leiða til þess, að fjárlögin yrðu ekki afgreidd á þann hátt, að nokkurt eðlilegt hlutfall yrði á milli tekna og útgjalda. Hinsvegar vil jeg ekki fara út í það að ræða hverja einstaka till. út af fyrir sig. Jeg býst við, að það yrði einungis til þess að lengja umr. til verulegra muna, enda má búast við því, að hv. frsm. nefndarinnar muni, ef honum þykir þess þörf, færa fram rök fyrir skoðun nefndarinnar, að því leyti sem hún eigi aðhyllist þessar till. Það er svo, að það getur ekki farið saman að heimta miklar framkvæmdir, en á hinn bóginn að standa á móti þeim tekjuhækkunum, sem nauðsynlegar væru til að bera þau útgjöld, og þess vegna get jeg ekki sjeð, að hjer sje annað ráð fyrir hendi en að þingið gangi frá frv. sem næst því eins og það nú liggur fyrir, enda er það svo, að ef miklar breytingar verða gerðar á frv. úr þessu, þá fara að verða minni líkur til þess, að hv. N d. myndi sætta sig við að ganga að fjárlögunum eins og þau kæmu hjeðan. En af því mundi aftur leiða það, að slíkt lengdi þingtímann nokkuð, og auk þess mætti búast við, að það væri ekki ennþá fullkomlega loku skotið fyrir það, að einhverjir þingmenn teldu sig knúða til að koma enn fram með till. til útgjaldaauka.

Af þessum ástæðum verð jeg að lýsa yfir því, að hversu gjarnan sem jeg hefði viljað styðja till. hv. þm., sem hjer liggja fyrir, þá sje jeg mjer það ekki fært, vegna þess að mjer virðist, að nú sje þegar komið í nokkurt óefni um eðlileg hlutföll á milli tekna og gjalda, og það því fremur, sem búast má við því, að tekjuáætlunin reynist svo, að það sje mjög djarflega farið um áætlun teknanna, en á hinn bóginn alveg víst, að útgjöldin munu fara fram úr því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Og þegar nú hjer við bætist, að eftir útkomu síðasta árs hefði þurft að koma fram talsverður tekjuafgangur, annaðhvort á yfirstandandi ári eða þá á því næsta, til þess að hægt yrði að kippa því í lag, sem aflaga hefir farið hin síðustu tvö árin, sem verður að telja, að hafi verið fremur erfið afkomuár.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Jeg hefi áður tekið fram alt, sem mjer þykir máli skifta í þessu sambandi, og læt því þar við sitja að sinni, nema því aðeins, að eitthvert sjerstakt tilefni gefist til að taka aftur til máls.