08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2988 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Haraldur Guðmundsson:

Jeg verð að segja það, að mjer virtist háttv. 1. þm. Skagf. dálítið gleyminn, þegar hann var að skýra frá útreikningum sínum á atkvæðatölum síðustu kosninga og hlutföllunum milli atkvæðatölu flokkanna og þingmannafjölda. Hann talaði eins og þessir 5 kaupstaðir, sem eru sjerstök kjördæmi og 8 fulltrúa eiga á Alþingi, væru landið alt. Hann komst út frá því að þeirri niðurstöðu, að jafnaðarmenn ættu of marga fulltrúa á þingi. Jeg held nú, að reikningsskekkjur þessa hv. þm. liggi í því, að hann hafi gleymt öllum íbúum landsins nema þeim, sem búa í þessum 5 kaupstöðum, þótt hann að vísu rámaði óljóst í, að það væri einhver slæðingur af alþingiskjósendum í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði. Áreiðanlega veit þó þessi hv. þm. vel, því það vita víst flestir, að Alþýðuflokkurinn fjekk við síðustu kosningar yfir 6000 atkv., og er því langafskiftastur allra flokka um fulltrúatölu hjer á Alþingi.

Það skal að vísu viðurkent, að í þessari tölu eru nokkur atkv. frá Framsóknarflokknum, svo sem t. d. á Akureyri, en hitt er líka vitað, að í þeim kjördæmum, þar sem Alþýðuflokkurinn hafði engan í kjöri, þar hefir Framsóknarflokkurinn fengið miklu fleiri atkvæði, sem jafnaðarmenn eiga.

Jeg hygg, að það sje óþarft að benda hv. deildarmönnum á fleira því til sönnunar, að einn flokkur þingsins, sem sje Alþýðuflokkurinn, er langafskiftastur allra flokka, miðað við kjósendafjölda, en skal þó drepa á fáein atriði.

Ef jeg man rjett, fjekk Alþýðuflokkurinn við síðustu kosningar nokkuð yfir 6000 atkvæði, Íhaldsflokkurinn á 14. þúsund og Framsókn ca. 10 þúsund. Jeg man ekki tölurnar nákvæmlega, en hygg, að þetta sje nærri sanni. Samt á Íhaldsflokkurinn 16 fulltrúa hjer á Alþingi, en Alþýðuflokkurinn aðeins 5. Það er því alveg víst, að Íhaldsflokkurinn er miklu fjölskipaðri hjer á Alþingi heldur en Alþýðuflokkurinn, miðað við kjósendafjölda. Jeg skal ekki segja, að mjer sje það eitt næg ástæða til þess að fylgja skiftingunni, enda hafa líka verið fram færð fjölmörg önnur rök fyrir rjettmæti hennar.

Það er býsna hart fyrir kaupstað eins og Hafnarfjörð, með um 3000 íbúa, að báðir þingmenn kjördæmisins skuli sitja í fullri óþökk mikils meiri hluta kjósendanna. Það er vitanlegt, að þeir gera það, og þeir ættu að vita það best sjálfir. Enda hefir hv. 2. þm. G.-K. einmitt lagt til bestu sönnunina sjálfur.

Það er ekki rjett, að Hafnfirðingar hafi verið orðnir svo „þreyttir á kvabbi þm. Reykv. um að kjördæminu yrði skift“, að þeir hafi þess vegna safnað undirskriftum til mótmæla því. Í fyrsta lagi hafa engin mótmæli komið fram; í öðru lagi hefir þó verið eytt töluverðri vinnu til þess að reyna að fá þau fram, en af því að það tókst ekki, þá til þess að safna þeim undirskriftum, sem hjer liggja fyrir og haldið er fram, að sjeu mótmæli. Og í þriðja lagi verð jeg að segja það, ef hv. 2. þm. G.-K. miklast árangurinn af söfnuninni, þá er hann býsna lítilþægur, því að eftir 14 daga vinnu tókst ekki að fá nema 1/4 kjósenda til þess að skrifa undir það, að þeir sjeu því ekki mótfallnir, að núv. fyrirkomulag haldist, en meiri hl. kjósenda, fullir 3/4 hlutar, er eftir sem áður á þeirri skoðun, að eðlilegt sje og rjett að skifta kjördæminu, og í því máli, eins og flestum öðrum stærri málum, algerlega á öndverðum meiði við hv. þm. kjördæmisins. Hv. 2. þm. G.-K. hefir því með erfiði, og sennilega talsverðum fjárútlátum, útvegað skýra sönnun þess, að hann situr hjer í óþökk mikils meiri hluta hafnfirskra kjósenda.

Jeg hygg, að það hafi verið hv. frsm. minni hl., sem sagði eitthvað á þá leið, að Hafnfirðingar virtust ekki finna til neinna „þrenginga“ af því að hafa þá 2 hv. þm., sem þeir hafa nú. Jeg mótmæli þessu alveg. Mjer er kunnugt um það, að þeir finna einmitt til þrenginga undan því að hafa þá þm., sem hjer á Alþingi leggjast manna fastast gegn flestum eða öllum áhugamálum þeirra. (HK: Jeg sagði ekki það, sem hv. þm. hefir eftir mjer). Jeg gat ekki skilið orð hv. þm. á annan veg. (HK: Hefir vantað viljann!). Jeg efast ekki um það, að góður vilji gerir mikið að verkum, en það vita nú allir, að stundum getur hann þó ekki, hversu góður sem er, dugað til þess að lappa upp á setningar hv. þm., svo að þær verði skiljanlegar.

Því hefir verið haldið fram af andmælendum þessa máls, að með skiftingunni væri framinn órjettur í garð sýslubúa. En engin rök hafa verið færð fyrir því. Það er að vísu rjett, að yrði kjördæminu skift, myndu verða um 1300 kjósendur í Hafnarfirði, en um 1700 í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Jeg get nú ekki sjeð, að það geti samt verið órjettmætt að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi, samanborið t. d. við Seyðisfjörð, þar sem ekki eru nema 400 kjósendur.

Jeg álít, að því fari mjög fjarri, að sýslubúar sjeu órjetti beittir með skiftingunni, því að þótt ástandið sje svo nú, að sýslubúar ráði í raun og veru vali beggja þm., þá getur þó svo farið, og fólki þarf ekki að fjölga svo mjög í Hafnarfirði til þess, að Hafnfirðingar geti með hjálp Keflvíkinga ráðið kosningu beggja þm. Einmitt með því að skifta kjördæminu er það fyrirbygt, að þetta geti komið fyrir, og það frekar trygt, að sýslubúar geti ráðið vali annars þm., í stað þess, að svo gæti farið, að þeir rjeðu kosningu hvorugs. Hitt er auðvitað ekki rjettlátlegt, að þeir ráði vali beggja.

Það var í sjálfu sjer ekki fleira, sem jeg vildi sagt hafa, en jeg verð enn að segja það í sambandi við undirskriftirnar í Hafnarfirði, að þær virðast mjer vera bein og glögg sönnun þess, að það er mjög lítill hluti kjósenda í Hafnarfirði, sem ekki er þessu máli fylgjandi, þegar eftir slíka gagngerða smölun fæst ekki nema tæpur fjórði hluti allra kjósenda til að skrifa undir það, að þeir „æski heldur, að það fyrirkomulag haldist, sem nú er“.

Þar að auki er lítið að marka undirskriftir sem þessar; þeim er safnað af mönnum, sem ráð hafa yfir atvinnu almennings, og það er fullvíst, að útkoman mundi verða öll önnur, ef leynileg atkvgr. væri látin fara fram um málið.