08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hafa fallið hjer ýms ummæli, sem hafa komið mjer til þess að segja nokkur orð. Hv. þm. Barð. flutti af miklum móði langa ræðu, sem að mestu leyti virtist vera utan garna. Rök hans voru sárafá og einskis nýt fyrir hann og hans málstað. Það veigamesta af því, sem hann bar fram, var í hans augum það, að ekkert hefði komið fram, sem sannaði, að kjósendur í Hafnarfirði hefðu beðið tjón af því að hafa ekki sjerstakan þm. Þetta atriði er einmitt upplýst. Mikill meiri hl. kjósenda í Hafnarfirði, sem eru annarar pólitískrar skoðunar en þm. þeirra, hv. 2. þm. G.-K., biðu tjón, þegar þeir fengu hann fyrir þm., þar sem hann hefir gengið á móti kröfum þeirra á Alþingi. Jeg minnist þess árið 1926, að í stærsta húsinu, sem hægt var að halda fund í í Hafnarfirði, kom fram till. um skiftingu kjördæmisins. Í því húsi voru mörg hundruð, ef til vill þúsund manns. Þessa tillögu leiddi hv. 2. þm. G.-K. alveg hjá sjer að svara. (ÓTh: Alls ekki). Jeg man, að um þetta sama leyti var mikil hreyfing fyrir málinu. Það hefir þegar verið bent á, að hagsmunir kjósenda eru alt aðrir en hagsmunir þm. þeirra. Það er sitt hvað, að vera fulltrúi stórútgerðarmanna eða vera fulltrúi fátækra verkamanna. Jeg er ekki að lá hv. 2. þm. G.-K. Hann er mjög sæmilegur fulltrúi fyrir sinn flokk og sína stjett, en enginn kann tveimur herrum að þjóna.

Enn er ekki upplýst um alla þá úti í kjördæminu, sem vitanlegt er um að fylgja ekki stefnu hv. 2. þm. G.-K., til dæmis í Garði, Höfnum, Grindavík og einkum Mosfellssveit. En hv. þm. lætur sjer sæma að vera að breiða sig út yfir, að hann og samþingismaður hans sjeu bændafulltrúar. Það er ekkert óeðlilegt, að bændur, af ímyndaðri „bolsahræðslu“, sjeu skelkaðir við að greiða jafnaðarmönnum atkvæði, því að nærri má geta, hvað búið er að útmála fyrir þeim í því, sambandi af flokksbræðrum hv. þm., og þar með neyðist til að kjósa íhaldsmann, þó að þeir geri það ekki með glöðu geði. Hve stór þessi hluti kjósenda er, er órannsakað mál. En ef safnað væri undirskriftum um sýsluna, er jeg hræddur um, að hv. 2. þm. G.-K. mundi bregða í brún, er hann sæi úrslitin.

Hv. þm. Barð. vildi með veikri vörn bera blak af flokksbróður sínum, hv. 2. þm. G.-K., í sambandi við launaða smalamensku. Skilorður maður í Hafnarfirði sagði mjer, að 2–3 menn hefðu verið sendir út af örkinni fyrir tilverknað hv. 2. þm. G.-K. Hann er ör á fje, og efast jeg ekki um, að mennirnir hafi fengið loforð um góða borgun. En það get jeg sagt hv. þm. Barð., að undirskriftir meðal sjómanna hafa farið fram án þess að nokkur eyrir væri greiddur fyrir það. Við jafnaðarmenn fylgjum yfirleitt þeirri meginreglu, að greiða aldrei fje fyrir slíkt, því það er unnið af fúsum og frjálsum vilja þeirra manna, sem hlut eiga að máli.

Jeg skil ekki þessa miklu sorg íhaldsmanna út af því, að kjördæminu verði skift. Hjer ætti þó að vera kærkomið tækifæri fyrir þá til að leiðrjetta kjördæmaskipunina í landinu og það ranglæti, sem alment ríkir í því efni. Það gerðu þeir ekki á meðan þeir gátu, en nú ættu þeir að grípa tækifærið. En þegar hv. íhaldsmenn verða varir við, að þetta kunni að snerta hagsmuni þeirra sjálfra, þá er eins og komið sje við hjartað í þeim.

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði um kjósendafjöldann, skal jeg geta þess, að það var reiknað út eftir síðustu kosningar, að eftir honum áttu jafnaðarmenn að hafa 9 fulltrúa á þingi, en íhaldsmenn að vísu eins marga og þeir hafa nú. Þess vegna verður ekki annað sjeð en að öll sanngirni mæli með því, burtsjeð frá skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, að Alþýðuflokkurinn fái fulltrúa á þing fyrir Hafnarfjörð.

Jeg býst við, að hv. þm. sjeu búnir að gera upp með sjer, hvernig þeir greiða atkvæði í þessu máli. Hjer er um svo sjálfsagða rjettlætiskröfu að ræða af hálfu hafnfirskra kjósenda, sem borin hefir verið fram á Alþingi þing eftir þing, að ólíklegt er, að hún nái ekki fram að ganga nú. En verði þetta mál ekki samþ. nú, þá mega menn vera vissir um, að það kemur fram þing eftir þing, þar til það nær fram að ganga, því rjettlætið sigrar ávalt að lokum.