15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Eftir að frjettin um atkvgr. við 2. umr. þessa máls barst út, hafa að mjer streymt áskoranir hvarvetna að úr Gullbringu- og Kjósarsýslu um að reyna að vernda til hins ítrasta rjett kjördæmisins til að hafa tvo þm. Því hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 173 um það, að Hafnarfjörður hafi einn þingmann og sýslan tvo. Sá jeg mjer ekki annað fært, eftir því sem málinu var komið, en að bera fram þessa till., þó að mjer hinsvegar þyki ilt að stinga upp á því að fjölga þingmönnum.

Samt eru ástæður til þess, að jeg get borið þessa till. fram með góðri samvisku. Jafnvel þó að sýslan eigi nú ein að velja þá tvo þingmenn, sem Hafnarfjörður hefir valið með henni áður, þá verða samt svo margir kjósendur að baki hvorum þeirra, — þegar miðað er við alla kjósendur í kjördæminu —, að 14 þm. aðrir hafa færri að baki sjer. 1926 var íbúatalan í Gullbringu- og Kjósarsýslu 4286. Eigi nú sýslan að kjósa tvo þm., verður sú íbúatala, er stendur að hvorum þeirra, álíka og hjá 20–25 öðrum kjördæmakosnum þingmönnum.

Jeg ætla mjer að forðast að koma nú fram með ný deiluefni. Þó verð jeg aðeins að minnast á brtt. háttv. þm. Mýr. á þskj. 192. Hann leggur til, að sýslan haldi tveim þm., en henni sje þá jafnframt skift í einmenningskjördæmi. Jeg vil lýsa yfir því, að jeg ætla að svo stöddu að greiða atkv. á móti þessari till., aðeins til að ganga úr skugga um, hvort sýslubúar óski þessarar breytingar, sem jeg nú einna helst tel líklegt. Og er því líklegt, að jeg muni fylgja honum í því að flytja frv. sama efnis á næsta þingi. Getur af þessu engin hætta stafað, af því að kosningar eru nú nýlega um garð gengnar og eiga ekki, að öllu forfallalausu, að fara fram aftur fyr en 1931. Er því nægur tími til að grenslast eftir vilja kjósenda um þetta efni.