08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Árn. kvaðst ekki fylgjast með því, hversu langt ætti að fylgja þeirri hugsun, er felst í frv. Jeg gat ekki skilið, hvað hann átti við. Jeg hjelt, að það væri alveg ljóst. við hvað er átt með frv., og vil jeg því biðja hann að gefa mjer nánari skýringu um, hvað fyrir honum vakti.

Hv. þm. áleit miklu heppilegra að hafa eina möppu fyrir hverja fasteign. Mjer datt þetta í hug, en jeg þekki svo vel til um geymslustaði sýslumanna og bæjarfógeta úti um land, að jeg veit, að þetta mundi verða mjög erfitt. Þeir hafa ekki svo stórar eldtraustar geymslur, að þær taki neitt svipað því og öll skjöl viðvíkjandi fasteignum í lögsagnarumdæmi þeirra.

Jeg ætlast til þess, að skrárnar sjeu jafnan geymdar á eldtraustum stað, svo að þótt svo fari, að skjalasafn brenni, þá eru til í skránum upplýsingar um, hvað hvílir á fasteignum þess umdæmis og eins hver hefir eignarheimild á þeim. Það, sem hv. 2. þm. Árn. fann að 11. gr. frv., er alger misskilningur. Það er hvergi sagt, að ekki megi hafa nema eina skrá; einmitt segir þar greinilega: „ein eða fleiri í hverju lögsagnarumdæmi“. Þetta er þannig orðað til þess, að í litlum lögsagnarumdæmum megi hafa eina skrá og skifta henni í kafla eftir vild, svo sem um jarðeignir, húseignir, nafnaskrár o. s. frv. Þetta er auðvitað sjálfsagt, enda hefir þetta verið siður, og verður honum haldið áfram.

Það er ekki rjett hjá hv. þm., að til þess að finna eignarheimild á fasteign eða hvað mikið hvíli á henni, þá sje nauðsynlegt að leita gegnum margar bækur. Það er ætlast til þess með því fyrirkomulagi, sem upp á er stungið í frv., að spara það erfiði; skrárnar eiga að vera svo nákvæmar, að hægt sje að gefa veðbókarvottorð eftir þeim einum.

Ef menn aftur á móti vilja sjá nákvæmlega orðalag á þinglestrarskjölum, er slíkt ekki mikil fyrirhöfn. Ekki þarf annað en fara á þann stað í bókinni, sem skjalið er í, því að í skránni er ætíð vísað til þess númers og bókstafs, sem skjalið hefði í bókinni.

Hv. 2. þm. Árn. vildi einnig halda því fram, að öll skip ættu að vera á sömu skrá. Jeg er ekki viss um, að það væri heppilegra. Jeg álít það betra eins og í frv. stendur, að bátar undir 5 smálestum fylgi reglum um lausafje.

Ennfremur vildi hv. þm., að hafðar væru sjerstakar skrár um bifreiðar. Það getur vel verið, að ástæða kunni að vera til þess, en bifreiðar eru að lögum ekki annað en lausafje og heyra því undir reglur um lausafje. Það kæmi heldur alls ekki í bága við frv., þótt hafður væri sjerstakur kafli fyrir bifreiðar eða sjerstök skrá í þeim lögsagnarumdæmum, þar sem mikið er um þær, en það ræður af líkum, að ekki er þörf á að setja slíkt í frv., þar sem engar bifreiðar eru til í flestum lögsagnarumdæmum landsins.

Þá þykir hv. þm. of snemt, að lög þessi gangi í gildi 1. júlí 1928. Þetta tel jeg ekki rjett, því að í frv. er einmitt gert ráð fyrir því að halda áfram þeim skrám, sem til eru, þar til aðrar nýjar eru fengnar. Aðaltilgangur frv. er að ljetta af embættismönnum þeirri miklu fyrirhöfn að innfæra öll þau skjöl, er þinglýsa á, orði til orðs inn í bækurnar.

Jeg sagði ekkert um það, að jeg ætlaði að taka frv. til gagngerðrar athugunar; jeg átti með orðum mínum áður aðeins við erindi það, er mjer var afhent í fundarbyrjun.

Jeg hefi gert það með vilja að setja ekkert það í frv., er gæti orðið deiluatriði, eins og t. d. um þýðing og gildi þinglýsinga og afnám manntalsþinga. Þetta eru svo flókin atriði, að menn mega ekki ætlast til, að frv. frá einstökum þingmanni komi inn á slík grundvallaratriði, svo sem þau, hvern rjett þinglýsing gefi gagnvart 3. manni. Jeg vil vara hv. deildarmenn við því að búast við að fá slíkar reglur inn í frv. sem þetta.

Jeg hjelt, að embættismaður, eins og hv. 2. þm. Árn., mundi verða glaður þegar gerð er tilraun til þess að losa hann við þá óþarfa fyrirhöfn að innfæra orði til orðs alt það, sem afhent er til þinglýsingar. Eitt af því, sem hv. þm. sagði, var á rökum bygt. Í 13. gr. er ekki gert ráð fyrir því, að skjal, sem aflýsa á, geti verið óinnbundið, en þetta getur óneitanlega komið fyrir, þótt sjaldgæft sje. Þetta mun nefndin athuga.

Jeg geri ráð fyrir, að lóðaskrár sjeu algerlega óþarfar nema á stöku stað. (MT: Þeim stöðum fjölgar óðum). Já, það er satt, að þeim stöðum fjölgar; en í frv. er líka gert ráð fyrir því, að lóðaskrár verði gerðar jafnóðum og þörf krefur. Og fyr en staðirnir hafa verið mældir er ekki unt að gera ábyggilega lóðaskrá.

Jeg vona, að hv. deildarmenn sjái ekki ástæðu til að fella þetta frv. — Jeg vil taka það fram, að mjer er ekki kappsmál, hvort það verður tekið út af dagskrá nú eða því verður hleypt til 3. umr.