01.03.1928
Neðri deild: 36. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

127. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. talaði um, að fjelagið væri svift athafnafrelsi sínu að nokkru leyti með frv. eins og það nú lítur út. Virtist mjer það atriði helst geta til röksemda talist hjá honum. Þó sje jeg ekki, að þetta geti talist fjelaginu neinn álitshnekkir, því að hjer er aðeins um varúðarráðstöfun að ræða. En meðan hagur fjelagsins er líkur því, sem hann nú er, dettur vitanlega ekki nokkurri stjórn í hug að greiða arð; en eins og jeg hefi áður sagt, geta komið bjartari tímar. Og það er almenn reynsla, að stjórnir hlutafjelaga hafa löngun til að greiða arð í fyrra lagi, og hlýtur það vitanlega einkum að vera þeim til hagsbóta, sem mikið eiga í fjelaginu. Hina, sem eiga aðeins fáar krónur, munar vitanlega ekkert um þá aura, er þeir geta fengið í arð. Jeg hefi t. d. umráð yfir einum 5 hlutabrjefum í Eimskipafjelaginu, en jeg held, að arður minn af þeim verði altaf svo hverfandi lítill, að jeg sje jafnt dauður eða lifandi, hvort sem jeg fæ hann eða ekki. Jeg reikna sem sagt alls ekki með þessu sem neinni eign; og svo hygg jeg, að sje um fleiri, að þeir eigi þessi hlutabrjef meira sjer til gamans. En stóru hluthafarnir reikna með þessu sem eign og knýja á um arðgjöfina. Og það er mjög sennilegt, að ef fjelaginu fer að ganga vel, kaupi þeir upp eignir smærri hluthafanna í fjelaginu. (MJ: Varla með 4 % arði).