27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

83. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þegar mál þetta var til 1. umr. hjer í þessari háttv. deild, bar svo til, að jeg var kallaður í síma rjett áður en komið var að því á dagskránni, og fórst því fyrir, að jeg segði um það nokkur orð, með því að verið var að afgreiða það til 2. umr. er jeg kom inn í deildina aftur.

Sjútvn. hefir haft málið til meðferðar, og liggur álit hennar fyrir á þskj. 288.

Eins og háttv. deildarmönnum mun vera kunnugt, hafa komið fram örðugleikar á því að halda við hafnargörðunum í Vestmannaeyjum. Sjógangur er þar ákafur og stórfeldur, og vegna þess að garðurinn var í fyrstu gerður alt of veikur, hefir honum orðið hættara en ella mundi. Við því er auðvitað ekki hægt að gera úr því sem komið er, en það hefir orðið til þess, að örðugra er eftir á að gera endurbætur á þessum mannvirkjum, er hafa skemst.

Nú er svo háttað, að annar höfuðgarðurinn liggur undir eyðileggingu, þar sem sjórinn hefir grafið hella inn undir garðhausinn. Ef ekkert verður að gert, er þess ekki langt að bíða, að hann hrynji. En hrynji hafnarhausinn með öllum þeim forða af grjóti og steypu, sem í honum er, þá mundi innsiglingin að líkindum verða ófær með öllu.

Hinn garðurinn, sem hugsað er til endurbóta á, er sá nyrðri. Hann er enn í smíðum, og meðan hann er ekki fullger, nýtur höfnin sín ekki til fulls.

Mest ríður á viðgerð á syðri hafnargarðinum, sem liggur undir bráðum skemdum, ef ekki verður að gert í tíma. Það, sem unnið var að dýpkun Vestmannaeyjahafnar í fyrra, virtist ganga vel og kunnugir telja, að höfnin hafi batnað að mun og mundi batna enn, ef haldið væri áfram að taka upp grjót og þvíumlíkt, er safnast hafði saman í innsiglingunni.

Þótt hafnarverkinu miði seint áfram, þá er það þó höfnin, sem gerir útgerð mögulega í Vestmannaeyjum. Ef ekki væru hafnargarðarnir, þá mundi höfnin vera óhæf fyrir þann fjölda af bátum, er þar hefst við.

Áður en þetta frv. var lagt fyrir Alþingi var það borið undir hæstv. fors.- og atvmrh. Höfðum við fund með honum ásamt bæjarstjóra Vestmannaeyja, vitamálastjóra og aðstoðarverkfræðingi hans. Voru athuguð kort og teikningar af hafnarmannvirkjunum, og gátu menn sjeð og sannfærst um, að nauðsyn væri á því að halda við hafnargörðunum. Varð jeg þess var, að hæstv. forsrh. var sannfærður um, að nauðsyn bæri til að bæta úr áður en meiri skemdir yrðu. Þeir, sem skýrðu þetta mál fyrir hæstv. landsstjórn, hafa líka komið á fund til sjútvn., átt við hana tal um málið, sýnt teikningar og annað því viðkomandi. Álit sjútvn. liggur nú fyrir á þskj. 288. Jeg verð að segja það, að bæði jeg og háttv. 2. þm. G.-K. hefðum kosið, að nefndin hefði ekki gert breytingu á orðalagi frv. frá því sem var fyrst. Það hefir verið svo hingað til um fjárveitingar til hafnargerða, að beinlínis hefir verið ákveðið, að styrkur skyldi veittur. En meiri hluta nefndarinnar þótti varlegra að orða frv. sem heimildarlög fyrir landsstjórnina. Þótt við þessir tveir nefndarmenn hefðum kosið frekar, að frv. hefði verið látið halda sjer óbreytt, þá skal jeg lýsa því yfir, að jeg ber svo mikið traust til hæstv. stjórnar, að eftir athugun og yfirlýsing tveggja hæstv. ráðherra um nauðsyn á þessum framkvæmdum get jeg vel fallist á að orða frv. sem heimildarlög; þó með þeim skilningi, sem jeg hefi áður orðið var við af hálfu hæstv. stjórnar, að þessi heimild verði notuð til þess að styðja að því, að þær framkvæmdir, sem það fer fram á, verði gerðar hið allra bráðasta.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar að sinni um þetta mál, en leyfi mjer að vona, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja till. sjútvn. og frv. fái að halda áfram til 3. umr.