13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

*

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg harma, að af sjerstökum atvikum var jeg ekki við, er rætt var um það mál, sem mjer er hjartfólgnast allra mála, járnbrautarmálið, eða Titansjerleyfið svokallaða, sem jeg hefi engan sjerstakan áhuga fyrir að öðru en því, að við það eru járnbrautarvonir margra tengdar.

Jeg ætla að halda þeirri venju, sem jeg viðhefi yfirleitt altaf, að tala hreinskilnislega og segja blátt áfram það, sem jeg veit sannast og rjettast.

Jeg hefi aldrei verið sannfærður um, að Titan mundi reynast fært að framkvæma virkjunina, svo sem gert var ráð fyrir. En hitt fæ jeg ekki sjeð, að nein hætta stafi af því fyrir landið, síst frá sjónarmiði þeirra, sem halda, að fjelagið geti ekkert gert. Jeg álít, að hæstv. forsrh. hefði átt að veita einhvern frest, til 1. okt. t. d., og láta fjelagið leggja þá fram t. d. 100 þús. kr., og ef það gæti það ekki, þá fjelli sjerleyfið úr gildi. Jeg get sagt það, að mjer væri raunar kærara, að landið sjálft legði í virkjunina. En þetta er slíkt stórmál, að við verðum að hafa öll útispjót um að hrinda því í framkvæmd. Jeg hefi ekki eytt miklum tíma í umræður, en þó hefi jeg einhvern tíma getið þess áður, að undirstaðan undir landbúnaðinum í framtíðinni væri nýjar og bættar samgöngur. Jeg er ekki hreppapólitíkus að upplagi, en hvaðan sem jeg væri af landinu, mundi jeg álíta, að hjer ætti að byrja, milli Reykjavíkur og Suðurlands. Reykjavík hefir bestu höfn, sem hjer er völ á, en vantar uppland; Suðurland er besta undirlendið á landinu, en hafnlaust. Hreppapólitíkin hefir fyr og síðar orðið ásteytingarsteinn þessa máls; en einhversstaðar verður að byrja, — og hvar er sjálfsagðara að byrja en einmitt hjer?

Jeg fæ satt að segja ekki skilið, þegar jeg hugsa um það, hvernig það getur gengið að reka landbúnað í sama stíl og fyrir 1000 árum. En þótt ótrúlegt megi virðast, er þetta samt svo; búskaparlagið er 1000 ára gamalt. Ef maður kemur austur á Rangárvöllu, vantar ekki annað en að Njáll og Gunnar komi til dyra, er mann ber að garði; annars er þar alt með sama sniði og var í þeirra tíð. Slíkt fyrirkomulag þekkist hvergi í heimi annarsstaðar en hjer. Ef samgöngurnar og vjelarnar væru teknar af Dönum, veit jeg ekki, hvar þeir væru staddir með landbúnaðinn.

Jeg er ekki gamall maður, en þó hefi jeg lifað það að sjá leiðtoga af öllum flokkum koma á Suðurlandsundirlendið og lofa því hátíðlega að fylgja samgöngumáli hjeraðsins fram til sigurs. En það hefir minna orðið úr efndum.

Jeg hlustaði ekki á ræðu hæstv. atvmrh.(TrÞ), en jeg hefi þá hugmynd um inntak hennar, að hann hafi lofað bættum samgöngum óákveðið og án þess að nefna járnbraut. En það er mín persónulega skoðun, að annað komi ekki til mála en járnbraut austur yfir heiði. Og jeg skal því til stuðnings vitna í alla þá sjerfræðinga, sem um mál þetta hafa fjallað, og milliþinganefnd í landbúnaðarmálum, þá Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra, Thor Jensen og Halldór á Hvanneyri; þeir eru allir sammála um, að það ætti að leggja járnbraut austur.

Úr því að þetta mál komst til umræðu, er rjett að jeg segi eins og mjer býr í brjósti, að jeg vona, að það hendi aldrei Sunnlendinga að styðja þá stjórn, sem ekki reynist heil í þessu máli, því að það er þeirra höfuðvelferðarmál. Allar búnaðarframkvæmdir eru hreint og beint út í bláinn, ef ekki fylgja bættar samgöngur með. Jeg hefi sagt það áður og stend við það enn, að Flóaáveitan er bara til bölvunar og hreinasta víxlspor, ef ekki fylgir járnbraut samtímis eða rjett á eftir. Austursveitirnar eru einna verst staddar allra sveita á landinu með samgöngur. Það er t. d. dýrara að flytja hey til Reykjavíkur úr Árnes- og Rangárvallasýslum heldur en úr Skagafirði sjóleiðis.

Jeg mintist á það í byrjun ræðu minnar, að jeg teldi varhugavert að neita um sjerleyfið, ef von fengist um framkvæmdir. Jeg er að vísu og hefi aldrei verið viss um, að Titan gerði nokkuð; en jeg sje heldur ekki áhættuna við að veita sjerleyfið og tel sjálfsagt að gera alt, sem hægt er, til þess að fá járnbraut. Biðin er ekki lengri en til 1929, og jeg hefi enga von um, að neitt verði gert í málinu fyrir þann tíma.

Jeg vil endurtaka og undirstrika og brýna hæstv. atvmrh. enn á ný á því, að jeg vona, að Sunnlendingar láti ekki blekkjast til að styðja nokkurntíma þá stjórn, sem ekki er eindregin í þessu máli, því að tvímælalaust veltur á því, hvort nokkuð þýðir að leggja í búnaðarframkvæmdir eða ekki.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.