07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

66. mál, slysatryggingar

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Í engu öðru menningarlandi mun vera eins mikið um slysfarir og hjer. Það hefir leitt til þess, að miklu fyr hafa verið sett hjer lög um slysatryggingar en aðrar greinir almennra trygginga. Fyrst náðu þessi lög aðeins til sjómanna, en 1925 voru sett almenn slysatryggingalög, sem ná til flestra verkamanna við sjávarsíðuna. Það má segja, að þetta sjeu einu tryggingarlögin, sem ná yfir verkalýðinn, því að „almenna ellitryggingin“ svo kallaða má frekar kallast styrkur en trygging. Aðalbreytingin í þessu frv. frá gildandi lögum er sú, að hækka bæturnar allverulega, þannig, að dánarbætur verði 5000 kr., í stað 2000, og örorkubætur 8000 kr., í stað 4000. — Auk þessa eru nokkrar minni breytingar, svo sem að láta lögin ná til allra bifreiðastjóra, en nú eru þeir aðeins trygðir, þegar þeir vinna að upp- og útskipun. sjest ekki ástæða til að tryggja þá síður, meðan þeir vinna að almennum akstri um bæinn eða í langferðum við að flytja vörur eða fólk, sem sýnist vera alt eins hættulegur. — Þá er og farið fram á, að sá tími styttist, sem menn verða að þola bótalaust, svo að hann verði ekki nema vika, í stað þess að vera mánuður í lögunum.

Þær breytingar, sem hjer er farið fram á að gera, ganga ekki svipað því eins langt og þau lög, sem sett hafa verið um slysatryggingar í nágrannalöndunum, en þó er frv. spor í þá átt að gera ísl. lögin áþekk erlendum. Jeg vænti þess, að hv. deild taki þessu máli vel, og vil jeg fara fram á, að að umræðu lokinni verði því vísað til allshn.