26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, lá þetta mál fyrir síðasta þingi. Þá kom jeg fram með þær upplýsingar og þau rök, sem háttv. þdm. er kunnugt um. Hefi jeg því nú litlu við að bæta og bið velvirðingar á því, ef jeg skyldi endurtaka eitthvað af því, sem jeg áður hefi sagt.

Frá almennu sjónarmiði er það gersamlega fráleitt, að Alþingi ljái lið sitt til þess að draga úr því, að einstaklingurinn fórni kröftum sínum í þágu þjóðarinnar. Ef það ágerist, að hver einstaklingur þykist leggja of mikið fram, þá skil jeg ekki, hvernig sú framsókn, sem hin íslenska þjóð hefir hafið, á að halda áfram, þannig að kynslóð fram af kynslóð skili landinu af sjer í betra horfi en það var, er hún tók við því. Þegar við lítum á þetta, en gleymum um stund 900 manna hópnum, sem hv. flm. benti á, kemur það þá ekki í bága við þann anda, sem á að ríkja hjá þjóðinni nú og altaf? Ástæðan til þess, að þetta mál er viðsjárvert, er meðal annars sú, að það er byrjunarstigið til þess, að allir þykist gera of mikið og heimti að gera sem minst. Ef þetta mál nær fram að ganga, þá er ekki ugglaust um, að samskonar lagasetning komi á eftir um aðrar greinar atvinnulífsins.

Það er staðreynd, að þess meira sem einstaklingurinn notar af orku sinni sjálfum sjer til nytja, þess betur mun honum farnast. Ef hann gerir ekki þetta, þá dregst hann aftur úr í samkepninni við aðra einstaklinga. Jeg veit, að þetta kemur mjög í bága við skoðanir jafnaðarmanna. Við erum því ekki óvanir að heyra, að menn eigi að gera háar kröfur til hvíldar, en leggja sem allra minst á sig. Ef við nú bygðum land, sem frá upphafi vega væri betur úr garði gert frá náttúrunnar hendi og sem forfeður okkar hefðu skilað af sjer í betra ástandi en raun ber vitni um, þá gætu menn látið sig dreyma um það, að nú mættu þeir hvílast og hætta að strita. En vilji jafnaðarmenn ná því marki, er það ekki byrjunarstigið að vilja sem minst á sig leggja, en lifa við lystisemdir. Jeg er hræddur um, að komandi kynslóðir mundu ekki þakka jafnaðarmönnum hugsun og framkvæmd borgaralegrar skyldu.

Það verður ekki varið, að það er yfirleitt lítil ástæða, og í þessu falli engin, til þess að grípa inn í löggjöf þjóðarinnar um slík mál sem þessi, frekar en gert hefir verið. Hv. flm. vjek að því, að það mundi nú samt sem áður verða til hinnar mestu blessunar fyrir land og þjóð, fyrir útgerðarmenn og háseta. Jeg verð að segja, að jeg hefi af þessu máli aðrar sagnir en hv. flm. Mjer er sagt, að allflest skip sjeu farin að tíðka þann hvíldartíma, sem hv. flm. er að berjast fyrir, nema aðeins í þeim tilfellum, þegar aflinn er svo mikill, að ekki verður hjá því komist, að hver maður leggi fram sitt ítrasta til þess að koma honum undan. Háttv. flm. og hans samherjar vilja ekki skilja, að það er alveg sjálfsagt fyrir alla, sem að framleiðslu vinna, að lána alla krafta sína til þess að bjarga því, sem hægt er að ná. Ef þetta mál á fram að ganga, til viðbótar hinum lögákveðna hvíldartíma, þá er það í óþökk þeirra skipshafna, sem mjög eindregið hafa lagt á móti því, að mönnum verði bætt við á skipum þeirra, þar sem þeirra lifrarhlutur mundi þá minka að mun.

Það er svo um þá, er eiga að þiggja þennan viðbótarhvíldartíma, að þó að þeir hafi viljað þóknast formanni síns fjelags með því að ljá nöfn sín undir þá kröfu, sem hann hjer ber fram, þá hafa þeir lagt blátt bann við því, að fjölgað yrði fólki á skipunum. Þetta hafa þeir minst á við mig, og jeg held, að ekki sje vert að vera beinlínis að þrengja þessum lögum upp á þá. Jeg vil í þessu sambandi minna á hina skynsamlegu ályktun hv. 1. þm. S.-M., sem fram kom í umr. um þetta mál á Alþingi í fyrra. Hann vildi fallast á, að lengdur væri hvíldartíminn og um leið dregið af kaupinu. Þessi atvinnuvegur, sjávarútgerðin, en þó einkum togaraútgerðin, á við hina mestu erfiðleika að stríða. Það er því síst á bætandi og síst vert að gera sjer leik að því að leggja honum þyngri byrðar á herðar en hann þegar hefir að bera.

Hv. flm. tálaði um það af miklum fjálgleik, að þegar lög þau, sem nú gilda, voru sett, þá hefðu heyrst hörmulegar sögur af ástandinu meðal sjómanna á íslenskum togurum. Já, jeg minnist þess, að hafa eitthvað heyrt um það. En jeg hefi fylgst rækilega með ferli íslenskra sjómanna um langan aldur, og mín staðreynd er sú, að engir menn í þjóðfjelaginu, sem stunda líkamlega vinnu, sjeu ólúnari, hraustari og sællegri en einmitt sjómennirnir. Verkamenn þessa bæjar eru til dæmis sannkölluð olnbogabörn í samanburði við sjómennina.

Háttv. flm. sagði, að hina ströngu vinnu á togurunum þyldu ekki nema ungir menn. Þar eiga líka að vera ungir menn, en þó eru þar oft rosknir menn innan um, og hefi jeg ekki orðið þess var, að þeir væru óánægðir með sitt hlutskifti. Maður, sem nú er á sextugsaldri, hafði verið við útveg hjá mjer um 20 ára skeið og hætti síðan að stunda sjómensku. En í haust ræður hann sig á eitthvert erfiðasta skipið. Þegar hann kom aftur í land, spurði jeg hann, hvernig honum hefði liðið. Jú, vinnan var nokkuð erfið, sagði hann, en verst var, að jeg fitnaði alt of mikið!

Jeg held, að jeg geti engu síður borið um heilsufar manna á skipunum en hv. flm. Enda bera reikningar læknanna ár eftir ár með sjer, hvernig það er. Það er ekki heldur nema eðlilegt, að sjómennirnir sjeu líkamlega hraustir, því að þeir eiga við mjög góð skilyrði að búa, bæði um daglegt viðurværi og holla útivinnu. Jeg heyrði ekki betur en að hv. flm. væri mjer þó sammála um það, að í þeim efnum væri mikil bót á orðin frá því, sem við áttum að venjast hjer áður fyr.

Eins og hv. flm. tók fram, hafa útlendar þjóðir ekki enn sjeð sjer fært að lögskipa ákveðinn hvíldartíma á veiðiskipum sínum. Þær hafa sjeð, sem rjett er, að um aflabrögð verða að gilda aðrar reglur en um siglingar. Það er álit allra fiskimanna, sem ekki eru haldnir af líkamlegri værð, að svo eigi fiskimannalífið að vera, að unnið sje af öllum kröftum, meðan afli er, en notið fullrar hvíldar í illviðrum og þegar lítill er afli. Jeg skil ekki heldur, hvernig ætti að koma því við á bátum og skipum sumstaðar hjer við land, til dæmis á mótorbátunum í Vestmannaeyjum og hjer við flóann, að menn leggi lítið á sig. Við skulum segja, að það sjeu 15 fiskidagar í mánuðinum. — Hvernig færi, ef þeir væru ekki notaðir nema að nokkru leyti?

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta mál að svo stöddu. Jeg tel sjálfsagt, að ef þau fríðindi, sem hjer er farið fram á, eiga að veitast einum vissum hóp manna, þá komi fram fleiri kröfur á sínum tíma, sem stefna í sömu átt. Jeg sje yfirleitt ekki fyrir endann á því, sem af þessu kynni að leiða.