09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Haraldur Guðmundsson:

Út af því, sem hv. þm., er síðast talaði, sagði, vildi jeg segja það, að það eru skopleg látalæti og jafnframt sorgleg, að rjúka upp með hávaða og látum og þykjast hneykslaður, þó það sje nefnt, sem nú hlýtur að vera efst í hugum allra. Það eru látalæti, uppgerð og yfirdrepskapur að láta sem honum komi það á óvart, þótt nefnt sje slysið ægilega í þessu sambandi, og fjarri öllu velsæmi að taka því eins og hann gerði.

En það, sem kom mjer aðallega til að standa upp, eru ummæli þau, er hv. 3. þm. Reykv. ljet falla í kvöld. Þau eru að vísu ekki óvanaleg, en þau sýna betur en nokkuð annað viðhorf ekki svo fárra af stjórnendum togarafjelaganna til manna þeirra, er vinna hjá þeim. Hann sagði, að verkafólk væri nú yfirleitt svo, að það vildi hafa meiri laun, minni vinnu og meira sjálfræði. Andinn væri sá, að heimta mikið, en afkasta litlu. Varla væri gerlegt að ráða hjú vegna ódygða þeirra og eftirtalna, og fleira þessu líkt.

Það er svo sem ekkert nýstárlegt að heyra þessu slegið fram, en það er sorglegt tímanna tákn, að einn af stærstu atvinnuveitendum þessa lands skuli leyfa sjer að gefa starfsfólki sínu slíkan vitnisburð, og það á sjálfu Alþingi. Það er slíkur óþokkaskapur og ósvífni, að slíks eru fá dæmi. Þetta eru þakkirnar, er hann geldur fólkinu, sem með vinnu sinni hefir skapað velmegun hans.

Því hefir verið haldið fram, að ef þessi vökulög yrðu samþykt, þá væri það nýr skattur á útgerðina. En þá mætti með sama rjetti segja, að allar kaupgreiðslur væru skattar á útgerðina. En hjer er ekki um neina skatta að ræða. Hjer er um það að ræða, hvort ástæða sje til að skifta sjer meira af rekstri útgerðarinnar en verið hefir í þessu efni. Því að það hljóta allir heilvita menn að sjá, að ef nokkur meining er í rekstri útgerðar yfirleitt frá sjónarmiði alþjóðar, hlýtur hún að vera sú, að tryggja fyrst og fremst viðurværi og sæmilega afkomu þeirra, sem stunda þá atvinnu, en ekki sú, að útgerðarstjórarnir raki saman fje. Vitaskuld eiga allir, sem að útgerðinni starfa, bæði á landi og sjó, forstjórar og verkafólk, að búa við sæmileg kjör, eftir því sem útgerðin frekast leyfir. Væri fylsta ástæða til þess að athuga, hvort ekki mætti ganga betur frá skiftunum og tryggja þeim betur sitt, er kröfurjett eiga, ef svo mætti segja; það eru sjómennirnir.

Það er svo sem ekki ný kenning, að hver ný rjettarbót starfsmannanna sje skattur á fyrirtækin. Nei, hún er bæði gömul og margtuggin. En það má undarlegt heita, að forstjórar stórra útgerðarfjelaga skuli halda slíku fram eftir að það hefir verið sýnt og sannað, að öll þau ár, síðan togararnir tóku að starfa hjer, hefir aflinn farið sívaxandi, hvort heldur miðað er við meðalafla á skip eða meðalfeng á veiðidag. Og eftir að vökulögin frá 1921 voru sett, hefir hann farið mjög vaxandi. Það stafar vitanlega af fleiru en einu. Það er bæði af því, að tækin eru betri, skipstjórarnir vanari orðnir og kunnugri, og síðast en ekki síst af því, að skipverjar afkasta nú meiru en áður en hvíldartíminn var lögleiddur. Enda hefir hv. 2. þm. G.-K. viðurkent, að sex tíma hvíldin hafi verið til hagnaðar fyrir útgerðina.

Jeg sje, að nál. minni hl. sjútvn. er að mestu samhljóða nál. meiri hl. frá í fyrra, enda taka minnihl.menn það fram, að sökum þess að aðstæður sjeu óbreyttar frá því í fyrra, þá geti þeir að mestu leyti gert orð þau, er standa í nál. meiri hl. frá í fyrra, að sínum. Nál. er að mörgu leyti svo merkilegt, að jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa smáklausur upp úr því. Þar segir meðal annars svo: „Það er alkunna, að útgerðin stendur nú svo höllum fæti, að mjög varhugavert verður að teljast að leggja á hana nýja bagga“.

Hjer er slegið fram fullyrðingum án þess að reynt sje að færa nokkur rök fyrir þeim. Nefndarmenn segjast geta tekið undir orð nefndarinnar frá í fyrra um það, „að útgerðin standi höllum fæti“. Það hefir máske mátt segja þetta með nokkrum rjetti árið 1926, en 1927 var mjög gott ár, og nú er útlitið ágætt fyrir þessa útgerð. Samt voga þeir sjer að halda þessu fram nú. Annars er það altaf viðkvæðið hjá útgerðarmönnum, þegar rætt er um kaup og kjör verkafólks og sjómanna, að útgerðin þoli ekki, að kjörin sjeu bætt. Þeir segjast altaf vera að tapa, en altaf fjölgar þó skipunum. Líklega eru þau keypt fyrir töpin. Þeir ættu að birta reikninga sína, svo almenningur fengi lausn þessarar gátu. Nú vil jeg spyrja þá, sem eru svo heimtufrekir á sannanir frá öðrum: Hvað er það, sem sannar, að útgerðinni sje þetta um megn? Hvar eru sannanirnar fyrir því, að útgerðin standi höllum fæti? Hvar eru sannanir fyrir, að fjölga þurfi skipverjum? Hví sanna þeir ekki, að útgerðin þoli ekki, að bætt sje einum manni á skip? Þetta er alt ósannað ennþá. Og hvers vegna? Jú, af því að það er ekki hægt að sanna það. Ein er þó sú klausa í þessu nál., er tekur öllu öðru fram. Eftir að nefndin þykist hafa lagt á sig erfiði mikið og spurt marga af þeim, er við lögin hafa búið, hvað þeir álíti um það, hvort þörf sje á þessari breytingu, segjast þeir hafa fengið þrenskonar svör. Í fyrsta lagi: Hvíldaraukinn er hvorki nauðsynlegur nje æskilegur. Í öðru lagi: Hvíldaraukinn er að vísu ekki nauðsynlegur, en æskilegur. Og í þriðja lagi: Hann er nauðsynlegur. Með þessum svörum ætla þeir svo að sanna, að hvíldaraukans sje ekki þörf. En slík svör og þessi sanna ekki neitt. Hugi sjómannanna, sem við lögin búa, hafa þeir ekki rannsakað; ekki heldur rannsakað heilsufar þeirra. En sjómennirnir hafa sagt óskir sínar og kröfur í þessum efnum; þeir vita best, hvar skórinn kreppir. Áskoranir þeirra sanna þörfina.

Að lokum gefur minni hl. nefndarinnar í skyn, að ekki sje mikið leggjandi upp úr kröfum þeirra, er flytja frv., og komast þar svo að orði: „Hitt er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem bæði hafa áhuga fyrir og framfæri af því að halda á lofti kröfum sjómanna, þurfi að sýna uppskeru og vilji því gjarnan láta lögfesta ýmislegt, sem meiri hl. skjólstæðinganna telur ýmist æskilegt eða nauðsynlegt. En löggjafanum er síst ofraun að skilja, að valt er að treysta staðhæfingum þeirra, sem hvorki vinna verkið nje greiða fyrir það, en eiga þó sjerhagsmuna að sæta“. Þetta getur ekki verið meint til annara en okkar, flm. frv. En nú vil jeg leyfa mjer að spyrja hv. minni hluta: Hverra sjerhagsmuna eigum við að gæta í þessu máli? Og hvað meina þeir eiginlega með þessu? Varla hafa þeir gerst til að láta prenta þetta án þess einhver meining væri í því.

Hv. þm. Vestm. var allra manna kröfuharðastur um það, að sannanir væru færðar fyrir nauðsyn hvíldaraukans. Hvaða sannanir vill hann? Vill hann, að komið sje hjer inn í deildina með úrvinda sjómann, sem vakað hefir 19 tíma úr sólarhring marga daga samfleytt og varla veit, í hvorri hendinni hann hefir hnífinn? Hvaða sannanir lágu fyrir, þegar 6 tíma hvíldin var lögleidd? Hvaða sannanir voru fyrir hendi, þegar barnaþrælkunin í Englandi var afnumin? Hvaða sannanir lágu fyrir, þegar 8 tíma vinnudagur var lögleiddur víða um heim í fjölda atvinnugreina? Jeg held þessum mönnum væri nær að sanna sinn eiginn málstað heldur en æpa svo hátt á sannanir frá öðrum. Hjer liggja fyrir margar áskoranir og fundarsamþyktir frá sjómönnum, og þeir vita best, hvar skórinn kreppir. Þetta eru einu sannanirnar, sem heilbrigð skynsemi getur krafist.

Nokkrir þm. hafa spurt, hvers vegna þyrfti frekar að setja lög um hvíldartíma við þessa vinnu en aðra. Þar er því til að svara, að við þessa vinnu verður að sæta færi og grípa gæs meðan gefst, en það skapar freistinguna til þess að gæta ekki hófs. Það er engin freisting fyrir bóndann að láta slá í 18 til 20 tíma, en það er skiljanleg freisting fyrir skipstjóra að halda áfram meðan mennirnir geta staðið, þegar gnægð er fiskjarins. Og það er mannlegt, þó þeir falli fyrir freistingunni og ofbjóði þreki þeirra manna, er þeir ráða yfir. Það eru einmitt hinir sjerstöku hættir þessa atvinnuvegar, sem heimta lagasetningu um þessi atriði. Það er sú margfalda hætta, sem hjer er, samanborið við það, sem er á öðrum sviðum. Það hefir verið spurt, hví ekki væri heimtuð 8 tíma lögboðin hvíld við slátt. Það er aðeins af því, að þess gerist ekki þörf. Það væri blátt áfram hlægilegt að heimta slíkt.

Það er sorglegt að þurfa að segja það, en samt er það satt, að það er helst svo að sjá, sem andstæðingar þessa frv. líti á mennina, sem hjá þeim vinna, eins og hluta af skipinu, hluta af kostnaðinum við útgerðina. Líti sömu augum á skipverja og vinnu þeirra eins og á saltið, olíuna og kolin og aðrar nauðsynjar, sem þarf til þess að skipið geti gengið. Þetta er sú argvítugasta villa, að setja vinnandi menn á bekk með dauðum hlutum. Það er, eins og hv. þm. V.-Ísf. tók rjettilega fram, hreinasta glapræði að ætla sjer að leggja sama mælikvarða á lifandi menn og dauða hluti. Það er ómögulegt að finna það meðaltal, er gildi jafnt um menn og dauða hluti.

Það er gömul og algild regla, enda viðurkend af öllum, að afkast manna aukist, að vissu takmarki, að sama skapi og vinnutíminn styttist. Menn greinir aðeins á um það, hvar takmörkin sjeu. Engum óvitlausum dettur í hug, að farið verði niður fyrir þau takmörk, þó vinnan sje ákveðin eigi lengri á dag en 16 tímar. Það er deilt um 6, 7, 8 eða 10 tíma, því þar einhversstaðar neðan til eru takmörkin. Og því hefir ekki verið haldið fram fyr en hjer, að ekki væri hægt að auka framlag mannsins með að stytta vinnutímann niður úr 18 stundum.

Það hefir komið fram hjá andstæðingum þessa frv. Sú skoðun, að kröfum þessa frv. væri ekki stilt svo í hóf sem skyldi með tilliti til útgerðarinnar. En þetta er viðkvæðið í hvert skifti, sem farið er fram á einhverja rjettarbót til handa verkamönnum. Það á þá að vera gert af fjandskap við útgerðina og illum hug til útgerðarmanna. En þetta er sá mesti misskilningur. Hjer er einmitt verið að viðurkenna, að sjerstaklega stendur á með þessa atvinnugrein, því það er aðeins farið fram á, að þeir, sem vinna á togurum, fái 8 tíma hvíld á sólarhring.

Ef um aðra vinnu væri að ræða, mundi engum detta í hug að fara þessa leið. Þá mundi verða ákveðið, hvað vinnutíminn mætti vera langur. Það, að hjer er leyft og liðið, að unnið skuli dag eftir dag í 16 tíma er full viðurkenning þess, að sjávarútvegurinn er frábrugðinn öðrum atvinnugreinum og veiðin stopul og veðrátta misjöfn. Það er svo fullkomin viðurkenning þess, að frekari verður ekki krafist. Hv. 2. þm. G.-K. vildi ekki aðeins gefa í skyn, heldur fullyrti, að fylgi Framsóknar við þetta frv. væri nokkurskonar skattur til jafnaðarmanna. Það er ekki óeðlilegt, þótt honum komi í hug skattgreiðslan og kaupskapur. Hann er því ef til vill vanastur og finst það eðlilegt, að alt fáist keypt, að skoðanir gangi kaupum og sölum. Og jeg býst við því, að hann trúi mjer ekki, þótt jeg segi honum, að samvinna Framsóknar og jafnaðarmanna er ekki bygð á neinum kaupmála, heldur á því, að þessir flokkar líta sömu augum á mörg mál og hjálpast því eðlilega að að koma þeim fram. Hjer er því aðeins um eðlilega samvinnu að ræða.