07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

112. mál, vörutollur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg þarf ekki að segja mikið um þetta mál, með því að hv. frsm. 2. minni hl. (IP) hefir talað svo rækilega fyrir málinu, sem hann hefir gert, þó að hv. 1. minni hl. hafi ekki látið sannfærast af þeim góðu og gildu rökum, sem hann bar fram.

Jeg gat þess við 1. umr. fjárl., að það hefði of snemma verið slakað til á tollalöggjöfinni, þegar feldur var niður allmikill hluti vörutollsins og verðtollsins árið 1926. Menn voru þá of bjartsýnir á framtíðina. Þó að árin á undan hefðu verið sjerstaklega affarasæl, þá voru engar sjerstakar líkur til, að það hjeldi áfram.

Afleiðingarnar af þessari bjartsýni ljetu heldur ekki lengi á sjer standa. Þegar á árinu 1926 kemur fram allmikil rýrnun í tekjuliðunum, og 1927 vantar hátt upp undir 1 miljón á, að tekjur og gjöld standist á, og það er ekkert ólíklegt, að eitthvað svipað geti komið fyrir á yfirstandandi ári. Það er því næsta óviðfeldið, er hv. þm. setja sig upp á móti sjálfsögðum ráðstöfunum til þess að tryggja ríkissjóði nauðsynlegar tekjur til þess að mæta útgjöldunum. Það er ekki aðeins sjálfsagt, heldur beinlínis skylt að sjá um, að tekjur og gjöld standist nokkurnveginn á. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þegar verið var að flytja klyfjabandið, þá þurfti ekki að muna miklu á þyngd bagganna, til þess að hallaðist á, og það þýddi þá ekki mikið að vera að „taka í“, það endaði venjulega með því að alt snaraðist um þvert bak.

Jeg þykist nú vita, að þar sem hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. G.-K. munu taldir einna mestir fjármálamenn þessa lands, að þá verði talsvert tillit tekið til þess, sem þeir hafa fram að bera í þessu máli. En mjer sýnist nú samt, eins og rök þeirra liggja fyrir, að þau sjeu ekki alveg óyggjandi. Til dæmis það, að leggja þrjú síðustu árin til grundvallar fyrir afkomu næstu ára. Það er nú augljóst öllum, þar sem árið 1925 var svo óvenjulega mikið tekjuár, að það er beinlínis til að villa mönnum sjónir, að það er tekið með. Tekjurnar voru þá um 8 miljónir fram yfir áætlun, og það má gera ráð fyrir, að slíkt komi aldrei fyrir aftur. Með þessu móti er hægt að hugsa sjer 12 miljón króna meðaltekjur á ári, en jeg hygg, að ekki sje hægt í alvöru að gera ráð fyrir slíku án þess að þessi tekjuauki, sem hjer liggur fyrir, verði samþ.

Jeg hygg, að tekjurnar fari ekki yfir 11 miljónir. Þó að það væri svo áður, að tekjurnar færu talsvert fram úr áætlun, þá virðist sú stefna upp tekin að áætla tekjurnar eins hátt og unt er, og er því tæplega að tala um nokkurn afgang fram yfir áætlun. Það sýndi sig á síðasta ári. Þá fóru tekjurnar aðeins um 100 þús. kr. fram úr áætlun. Hitt er alls ekki óvanalegt, að gjöldin fari mjög mikið fram úr áætlun fjárl. — jafnvel 2–3 milj. — og eru fjáraukalög þau, sem nú liggja hjer fyrir, nokkurnveginn órækt vitni um þetta. Auk þess verður ríkissjóðurinn að vera viðbúinn útgjöldum, sem ekki verða umflúin. Þennan tekjuauka, sem hjer er farið fram á, þarf ríkið nauðsynlega að fá, til þess að reyna að láta tekjur og gjöld standast á.

Hv. 3. landsk. mælti eitthvað á þá leið, að þegar búið væri að rjetta við fjárhaginn, þá væri ekki mikill vandi að halda í horfinu. Jeg spyr þá: Hvenær var það gert, og hver gerði það? Fyrst og fremst veit jeg ekki til, að það sje enn búið að rjetta við fjárhag ríkissjóðs, og það, sem áunnist hefir í því efni, einkum á árinu 1925, er hvorki hægt að þakka stj. nje þingi, nema að nokkru leyti. Ástæðan til hinnar góðu fjárhagslegu afkomu þá var fyrst og fremst hin mikla aflasæld og svo framúrskarandi hagstætt verðlag á afurðum. — Hv. 3. landsk. gat einnig um eitt þjóðráð, að hans dómi, ef ver tækist til en hann gerir sjer hugmynd um nú, og það er það, að verja varasjóði landsverslunar til að greiða með tekjuhallann. (JÞ: Jeg sagði ekkert slíkt). Ef hv. þm. hefir ekki sagt það, þá ætla jeg, að það standi í nál. hans. (JÞ: Tekjuhalla ársins 1927, sagði jeg). Þetta er náttúrlega leið, en hinsvegar er þess að gæta, að þetta fje stendur að mestu leyti úti. Jeg hygg líka, að það fje, sem ríkissjóður hefir lagt landsverslun til, sje nú að fullu greitt og ekki eftir nema sá hluti hagnaðarins, sem ekki hefir áður gengið til landsins þarfa.

Jeg hefi þá bent á, að það megi ekki byggja á áliti hv. 1. minni hl., því að það er ekki örugt að því er þær tölur snertir, sem þar eru til færðar, og þess vegna verða menn að skoða vandlega huga sinn um það, áður en þeir leggja sitt lið til þess að styðja hv. 3. landsk. til að sálga þeim tekjuaukafrumvörpum, sem hjer liggja fyrir. Jeg álít, að það, sem hjer er farið fram á, sje svo hóflegt og varlegt, að það sje vafasamt, hvort það er nóg til að halda við fjárhag ríkisins. Nú munu auk þess komnar fram einhverjar þær brtt., sem heldur verða til að draga úr gagni þessara frv. Sumar þeirra eru þess eðlis, að þær skifta ekki miklu máli, og jeg er. Svo skapi farinn, að mjer þykir betri hálfur skaði en allur og vil ekki láta berjast svo mjög um þær tillögur, sem ekki breyta miklu, ef tilgangi málsins annars yrði náð.

Jeg vil aðeins taka það fram aftur, þótt þess ætti reyndar ekki að þurfa, að áætlun sú, er fyrir liggur í nál. hv. 1. minni hl., er alls ekki ábyggileg, vegna þess að hann tekur tölur, sem ekki geta átt við.

Jeg vil svo ekki eyða fleiri orðum að þessu í bráðina; það má vera, að það gefist tækifæri til þess síðar að segja nokkur orð, sem jeg þó vona, að ekki þurfi, því að jeg ber það traust til hv. meiri hl. þessarar deildar, að hann muni sjá, hver nauðsyn ber til, og muni samþykkja frv. með litlum breytingum.