09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

112. mál, vörutollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það fer hjer eins fyrir hv. 3. landsk. og þegar hann margfaldaði vitlaust í skýrslu sinni, sem nú mun þjóðfrægt orðið, að hann byrjar altaf á einhverri undirstöðuvitleysu, svo að hann getur að lokum ekkert sagt. Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að ætla, að tekin verði upp sama stefnan í fjármálum og 1922, enda er í einu vikublaðinu búið að húðfletta þá stefnu að vilja eyða meiru úr landssjóði en aflað er. Það vita líka allir, að fyrir háttv. 3. landsk. vakir að hefna sín á andstæðingastjórninni með þessari herkænsku sinni. Honum er það vel vitanlegt, að hans stjórn skildi við með 800 þús. kr. tekjuhalla, og sá tekjuhalli mundi sennilega haldast yfirstandandi ár, ef ekki fást samþ. tekjuaukafrv. Jeg verð að segja, að þetta er ekki annað en fjármálaleg uppreisn, því að hann og hans flokkur hafa felt niður tekjustofna síðustu ára þrátt fyrir harða baráttu og dygga viðleitni hinna flokkanna að halda þeim við.

Eftir að hafa skilið við landið með þessum óvirðulega tekjuhalla, eftir alt glamrið og gortið um fjármálavitið, rís hv. 3. landsk. á móti tekjuaukafrv. hjer í deildinni, en jafnframt lætur hann flokksbræður sína í Nd. bera fram till. um aukin gjöld ríkissjóðs, vel vitandi, að þá muni myndast tekjuhalli. Þetta er það ljótasta athæfi, sem nokkur stjórnmálaflokkur hefir haft í frammi, því að enginn flokkur hefir boðað það fyrirfram, að hann væri að gera sjer leik að því að koma tekjuhalla á fjárlög landsins. Það, sem vakir fyrir núverandi stjórn, er að koma fram með ný gjöld á móti tekjuaukafrv., ef þau verða samþ., en háttv. 3. landsk. hefir engan heiður af því að reyna að bæta við nýjum útgjöldum, þegar hann gerir um leið tilraun til þess að rýra tekjurnar, því að ekki fara flokksmenn hans í Nd. að bera fram till. sínar án hans vilja.

Jeg hefi ekkert á móti því, að orð Jóns Loftssonar verði bókfest aftur í þingtíðindunum. Morgunblaðið orðaði það nú svo, að jeg hefði lofað að drepa 3 menn af íhaldinu. Það er auðvitað samboðið gáfum þeirra Morgunblaðsmannanna að taka þessi orð þannig, er þau eru notuð í nútímamerkingu. Hjer var auðvitað átt við, að þegar íhaldsmenn ætla sjer að koma tekjuhalla á fjárlögin, verður að fara eins að og þegar Jón Loftsson tók í lurginn á Hvamms-Sturlu. Svarið við eyðslu hv. 3. landsk. og hans manna verður ekki heiður þeim til handa, því að þá verða hreinsaðar út af fjárlögunum allar fjárveitingar til þeirra kjördæma, sem kosið hafa íhaldsmenn, og er það gert bæði til þess að bjarga landinu og hegna þessum ofstopamönnum, því að það er sú eina hegning, sem þeir skilja. Jeg skil þess vegna ósköp vel, hvers vegna hv. 3. landsk. vill ekki nýtt fangelsi. Hann finnur auðsjáanlega til með þeim afbrotamönnum þjóðfjelagsins, sem nú leika lausum hala. Það virðist nefnilega hafa vakað fyrir honum og flokksbræðrum hans undanfarið, að lögin væru ekki til fyrir aðra en andstæðingana. Það hefir komið skýrt fram, að ýmsir skoðanabræður hans vilja gjarnan láta taka erlend fiskiskip, sem eru að veiðum í landhelgi hjer við land, en þegar gera átti ráðstafanir til þess að hindra, að íslenskum landhelgibrjótum væru sendar fregnir af varðskipunum með loftskeytum, þá ætluðu þessir sömu menn alveg að ærast. Lögin áttu aðeins að vera til fyrir útlendingana, en ekki fyrir þá sjálfa.

Þetta sama kom fram á Ísafirði í vor. Þegar sjómennirnir fjórir voru teknir höndum, þá var engin uppreisn gerð gegn rjettvísinni, nje heldur símaðar rangfærðar og ósvífnar sögur til blaða úti um land. En þegar farið er að yfirheyra vini hv. 3. landsk. bar vestra, þá brýst út uppreisn bæði á Ísafirði og í Bolungarvík meðal fylgifiska íhaldsins, og þegar einn hv. þingfulltrúi, sem er flokksbróðir hv. 3. landsk., er spurður um sjálfsögð atriði í rjettinum, þá veður hann þar upp með dylgjur og ókvæðisorð. Sama sagan endurtekur sig, þegar farið er að rannsaka mál Einars M. Jónassonar, sem nú er sannað um, að 140 þús. af opinberu fje vantar hjá honum. Þá er gerð uppreisn í Mgbl., sem nú segir, að jeg vilji drepa þrjá íhaldsmenn. Allir muna, með hverri velþóknun Mgbl. flutti „úrskurð“ sýslumannsins. Jeg skil mætavel afstöðu hv. 3. landsk. og manna hans. Hún kom í ljós, þótt í smáu væri, þegar hv. 3. landsk. braut landslögin með því að smygla inn víni, svo sem bókfært er hjá bæjarfógetanum hjer í Reykjavík. Þetta var nú að vísu minni háttar afbrot, en sama lífsskoðun og lá á bak við þetta lítt virðulega lagabrot kemur nú fram í enn skýrara ljósi. Nú hugsar hv. 3. landsk. sem svo: Nú skal jeg gera uppreisn gegn peningamálum landsins. Jeg skil við fjárlögin með tekjuhalla, til að koma andstæðingunum í vandræði. Síðan kem jeg með ýmsar brtt. um hækkuð framlög til brúa, vita og síma, og ef þær verða feldar, þá segjum við sem svo: Þarna sjáið þið, við vildum framfarir, en andstæðingarnir drápu þær fyrir okkur. — Þetta er uppreisnaraðferð hv. 3. landsk. í þetta sinn. Fyrst á að svifta ríkissjóð tekjum til að standast nauðsynleg útgjöld, og koma síðan með brtt. um aukin útgjöld. Ef þetta er ekki fullkomin uppreisn, þá veit jeg ekki, hvað á að kalla slíkt athæfi.

En það vill nú svo vel til, að aðstaða Framsóknarflokksins er sú, að hann hefir ráð hv. 3. landsk. og fylgifiska hans í hendi sjer. Stjórnin getur þess vegna verið róleg, því hv. 3. landsk. og flokkur hans koma engu fram af uppreisnaráformum. Þessi stjórn ætlar sjer ekki að fara í fötin af þeim Magnúsi Guðmundssyni og Jóni heitnum Magnússyni og taka við tekjuhalla fjárlögum. Alveg eins og ráðstafanir hafa verið gerðar til að rannsaka uppreisnina í Bolungarvík, munu ráðstafanir vera gerðar til að tyfta hv. 3. landsk., ef hann heldur áfram hinni sömu glæpsamlegu stefnu í peningamálum þjóðarinnar og 1922 og nú á þessu þingi. Hvamms-Sturlu-eðlið fær þá sín makleg málagjöld.