30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (3272)

113. mál, verðtollur

Ólafur Thors:

Um brtt. þá, sem hjer liggur fyrir, vil jeg segja það, að yfirleitt finst mjer sjálfsagt, þegar um slíkar verðtollshækkanir er að ræða, að girt sje fyrir, að menn fái langan fyrirvara til þess að birgja sig upp. Hin almenna regla ætti að vera sú, að slíkar tollhækkanir skelli yfir alt í einu. En eins og málið liggur nú fyrir, þá finst mjer það orka tvímælis, hvort rjett sje að beita þeirri reglu. Frv. hefir gengið í gegnum allar umr. Í Ed. og er nú komið til 3. umr. hjer í deildinni, og altaf hefir það ákvæði staðið óhreyft, að lögin gangi í gildi 1. júlí. Jeg er sannfærður um, að fjöldi manna hefir fylgt með athygli gangi þessa máls hjer á þingi. Það eru sjálfsagt margir, sem hafa gert ráðstafanir til að birgja sig upp með hliðsjón af tollhækkuninni. Jeg get hugsað mjer t. d., að kaupmaður hafi tekið lán með erfiðum kjörum til þess eins að geta flutt vörurnar inn, áður en tollhækkunin skylli yfir. Ef undið verður að því að láta þau ganga í gildi strax, þá situr þessi maður uppi með óþægilegt lán og verður auk þess að greiða hinn háa toll. Það er þetta, sem fyrir mjer vakir, þó jeg viðurkenni, að það sje yfirleitt sjálfsagt að lögfesta tolllög án fyrirvara. Jeg mun því greiða atkv. gegn þessari brtt.