11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Eins og getið er um í nál., viðurkenni jeg fúslega, að það er óhægt um alla gjaldheimtu fyrir sveitarstjórnina á Norðfirði, meðan enginn er þar sýslumaðurinn eða löglegur innheimtumaður. En jeg vil bæta úr því á eðlilegri hátt en að gera kauptúnið að kaupstað. Jeg er hræddur við þessa leið, að veita sjávarþorpum kaupstaðarrjettindi strax þegar þau eru orðin svo fjölmenn, að störfin verða erfið til framkvæmda undir núverandi fyrirkomulagi, vegna þess að jeg held, að það verði enginn endir á þessum kaupstaðalöggildingum. Auk þess eru það mikil óþægindi fyrir sýslufjelögin að missa kauptúnin út úr umboði sínu. Jeg held því, að hjer þurfi að finna heppilegri úrlausn á málinu. Mjer skilst, að það sjeu umbætur á framkvæmdavaldi staðarins, sem vantar. Jeg hefi ekki heyrt því haldið fram, að hreppsnefndin á Norðfirði væri ekki fær um að taka eða bær að taka ályktanir í öllum málum sveitarinnar. Það eru framkvæmdirnar, sem er ábótavant, vegna þess að það vantar starfskraft. Auk þess eru önnur kauptún í miklum vexti með yfir 1000 íbúa, og enn önnur, sem ekki hafa þá íbúatölu, í greinilegum vexti.

Mjer finst ekki rjett að velja þessa leið, sem fyrst og fremst leiðir til embættafjölgunar og gefur fordæmi í þá átt, því að það er ekki jafnrjetti í öðru en að halda fjölgununum áfram. Og þó að íbúatala kauptúns nái þúsundinu, rjettlætir það ekki, að ríkið leggi til löglærðan embættismann með dómsvaldi, skrifstofukostnaði o. s. frv. Aðrir sýslumenn og bæjarfógetar hafa meiri fjölda til yfirsjónar í umdæmi sínu. Þetta var nú að vísu gert, þegar Siglufirði voru veitt kaupstaðarrjettindi, en þar var sjerstaklega ástatt. Staðurinn er mjög afskektur og það var illkleift að rækja þar embættisstörf samhliða þeim störfum, sem inna þurfti af hendi í sýslunni og á Akureyri. Norðfjörður er aftur á móti vel settur og liggur á leið sýslumanns, er hann fer milli enda umdæmis síns. (IP: Það held jeg sje skrítið). Nei, það er ekkert skrítið; háttv. þm. veit, að Norðfjörður liggur þannig, þegar venjulega leiðin, sjóleiðin, er farin, og því má koma þessu fyrir á viðunandi hátt. Og jeg ber fram tillögu til rökstuddrar dagskrár um að fela stjórninni að undirbúa málið og leggja það fyrir næsta þing. En mun samþykkja brtt. meiri hl., ef málið á að ná fram að ganga. Og það get jeg sagt strax, að ef þarna á að fara að stofna sjerstaka dómþinghá með bæjarfógeta við vanaleg völd, þá virðist mjer tillaga nefndarinnar um launakjörin sæmileg og ástæðulaust að samþykkja brtt. hæstv. forseta. Því að það væri að leika sama leikinn sem við Siglufjörð — launin yrðu of lág og þyrfti strax að hækka þau.