28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3579 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er að vísu tilgangslítið að tala nú í þessari hv. deild, svo þunnskipuð sem hún er. Vil jeg þó eigi með öllu láta undir höfuð leggjast að geta þeirrar brtt., sem jeg hefi leyft mjer að flytja við frv. Þykir mjer hlýða, að þess sjáist merki, að fyrir henni hafi verið mælt, og því fremur, sem hún fjallar um mjög merkilegt mál.

Jeg kann því illa, að íslenskir staðir sjeu nefndir röngum nöfnum, þegar ákvæði eru um þá sett í íslenskum lögum. En svo er hjer.

Eitt gleggsta merki kúgunar þeirrar og lítilsvirðingar, sem Íslendingar bjuggu við öldum saman, var það, er sú erlenda þjóð, er hjer hafði forráð, nenti ekki að fara rjett með forn heiti. Ýmsum stöðum gaf hún ný nöfn eða röng, og fjekk stundum íslensku þjóðina sjálfa til að taka þau upp. Er Danir komu á þær slóðir, þar sem mörg voru örnefni, nentu þeir ekki að læra þau öll, en notuðu það sama um fleiri staði en einn. Þannig sigldu þeir í fjörð þann vestra, er nefnist Ísafjörður. En þeir komu líka á þann stað, er Eyri nefndist við Skutulsfjörð. Þennan stað kölluðu þeir líka Ísafjörð, og helst það nafn enn ranglega. Eru mörg dæmi þessu lík um meðferð Dana á nöfnum íslenskra verslunarstaða: Búðir nefndu þeir Fáskrúðsfjörð, Vatneyri Patreksfjörð, Kúvíkur Reykjarfjörð og Djúpavog Berufjörð. Hafa þessi nöfn öll haldist við nema Berufjörður, sem enn er kallaður Djúpivogur, og eru t. d. notuð í áætlunum skipa. Hliðstætt þessu væri, ef t. d. Sauðárkrókur væri kallaður Skagafjörður, Húsavík Skjálfandi, eða Reykjavík Faxaflói. Mjer er ekki kunnugt, hvernig hv. deild lítur á þetta mál. En jeg ætla ekki að ljá því lið mitt að festa í íslensku lagamáli alröng nöfn á stöðum hjer á landi. Ættum við að fara hjer að dæmi Norðmanna, sem tóku upp hið forna heiti höfuðborgar sinnar. Það gleður mig, að hv. 1. þm. S.-M. tók vel í þetta mál, og mjer er kunnugt um, að hv. flm. frv. er breytingunni meðmæltur. Hinsvegar tók hv. frsm. meiri hl. treglega í hana, og þykir mjer það leitt um svo þjóðhollan mann.