26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Við 2. umr. þessa máls bar minni hl. sjútvn. fram brtt. á þskj. 539, þess efnis, að ef stofnaður yrði fjelagsskapur útvegsmanna í þeim tilgangi að reka síldarverksmiðjur, þá yrðu afskifti ríkisstjórnarinnar þau ein að veita slíku fjelagi lán til rekstrarins, ef það setti þær tryggingar, er stjórnin tæki gildar. Þessar till. voru feldar. Við í minni hl. sjútvn. höfðum þó talið þörfina fyrir bræðslustöðvar svo mikla, að við vildum fallast á, að ef útgerðarmenn gætu ekki sett þær á stofn, þá yrðu þær stofnaðar af ríkinu, en um reksturinn vildum við hafa sjerstaka tilhögun til að firra ríkissjóð áhættu. Þetta var við 2. umr. málsins. En nú eftir þær umr., sem farið hafa fram um þetta mál, skal jeg lýsa yfir því, að jeg mun ekki geta fylgt frv., nema sú leið verði farin um starfræksluna, sem við stungum upp á. — Jeg veit ekki, hvort hv. þdm. hafa tekið eftir því, að hv. frsm. meiri hl. gaf þá skýringu á málinu, að til þess væri ætlast, að starfrækslan yrði á þá leið, að ríkið keypti síldina af útvegsmönnum og kepti um hana við aðra kaupendur; sem sagt, að ríkið reki áhættuverslun með síldina. Eins og jeg benti á við 2. umr., er hjer um mjög mikla áhættu að ræða fyrir ríkissjóðinn, og hana tel jeg, að skylt sje að varast, enda þótt jeg viðurkenni þörfina á nýrri bræðslustöð, vegna nauðsynja sjávarútvegsins. Úr því að nú á að leggja fram fje úr ríkissjóði, ekki aðeins takmarkað við stofnkostnað, heldur líka rekstrarfje, sem lagt er í hættu, þá hefi jeg fundið ástæðu til að marka mína afstöðu til málsins ákveðið á þann hátt, að jeg get nú ekki lengur átt neina samleið með þeim, sem vilja samþ. frv. — Nú hefir komið fram brtt. frá hv. jafnaðarmönnum um það, að ekki megi selja stöðina nema samþykki beggja deilda Alþingis komi til. Tilefnið er það, að hv. Ed. skaut inn í frv. heimild fyrir stj. til að selja bræðslustöð samlagsfjelagi útvegsmanna, ef það æskti kaupanna. Í Ed. báru jafnaðarmenn fram brtt. um, að þessi heimild fjelli niður, en hún var feld. Við 2. umr. málsins í Nd. báru jafnaðarmenn hjer í deildinni fram samskonar till., sem einnig var feld. Nú bera þeir aftur fram hjer brtt. um, að ekki megi selja stöðina, nema báðar þingdeildir, hvor í sínu lagi, leyfi söluna. Jeg sje ekki betur en að hjer sje farið fram á, að deildin kyngi yfirlýstum vilja sínum, og jeg get vel skilið, að farið er nú fram á slíkt eftir það, sem gerðist hjer í deildinni, þegar þessir sömu hv. þm. neyddu stjórnarliðið til að ganga frá atkv. sínum í merku tollmáli. Þetta eru aðeins nokkrir þættir úr píslarsögu Framsóknarflokksins. Jeg veit ekki, hvers má vænta eftir það, sem á undan er gengið, en jeg ætla þó að vona í lengstu lög, að það verði ekki daglegur viðburður hjer á Alþingi, að hv. þm. skifti svo fljótt um skoðun og stefnu í mikilsverðum málum. Jeg geri mjer vonir um, að till. verði feld. Eiginlega ætti að vísa henni frá, en það mun ekki hægt eftir forminu, og vil jeg því skora á hv. þdm. að fylgja mjer að málum og fella hana. Það er móðgun við hv. deild, að hún skuli vera borin fram.