03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 650, við 2. gr. frv. eins og það kom frá 1. umr. í Ed. Brtt. mín er þess efnis, að ekki þurfi samþykki beggja deilda Alþingis til þess að selja stöðvarnar. Jeg þarf ekki að færa fram rök fyrir henni, því að hún er þrautrædd áður, en skal í þess stað leyfa mjer að rifja lítið eitt upp sögu þessa máls á Alþingi.

Frv. er stjfrv. og var borið fram í Ed.hv. deild samþ. brtt. þess efnis, að ríkið mætti selja stöðvarnar samlagi útgerðarmanna, ef slíkt fjelag yrði stofnað. Þegar málið kom hingað til Nd., var borin fram brtt. um, að þessi heimild til ríkisstjórnarinnar skyldi falla niður. En sú till. var feld, og með því lýsti þessi hv. deild yfir því, að hún teldi rjett, að stjórninni skyldi heimilt að selja. Við 3. umr. báru svo hv. jafnaðarmenn fram brtt. eins og það, sem nú er farið fram á, að deildin samþ., ef frv. er samþykt óbreytt eins og Ed. hefir nú gengið frá því, nefnil. um það, að deildin rifti sinni fyrri afstöðu. Höfðu þeir þá nýlega unnið mikinn sigur, þar sem þeir höfðu neytt Framsóknarflokkinn til að víkja frá sínu máli. Ætluðu hv. jafnaðarmenn nú að ganga aftur á sama lagið og báru fram brtt. um, að til sölunnar skyldi þurfa samþykki beggja deilda Alþingis. Þetta ákvæði var vitanlega mjög svipað því, að salan væri að engu orðin, og að bera það fram var að fara fram á, að deildin tæki aftur sinn fyrri dóm. En reyndin varð sú, að hv. Nd. stóð við sinn dóm. Jafnaðarmenn urðu fyrir vonbrigðum. Ákvæði 2. gr. stóðu óbreytt. Annars var frv. ofurlítið breytt að öðru leyti og fór því til einnar umr. í Ed. En þegar þangað kom á ný, sýnist „kjóinn“, sem oft hefir verið nefndur undanfarið, hafa verið kominn á flug. Ed. vjek frá sinni stefnu. Einstaka framsóknarmaður, sem áður hafði verið með heimildarákvæðinu, sneri nú við blaðinu, og endirinn varð sá, að hv. Ed. beygði sig undir þessa till: sósíalista-kjóans.

Nú á að reyna þolrifin í Nd. Nú á að spyrja okkur, hvort við viljum í þriðja sinn kveða upp úrskurð í þessu máli. Tvisvar áður höfum við sagt álit okkar ótvíræðlega. Nú veltur á því, hvort hv. Nd. stendur við það, sem hún er búin að segja tvisvar sinnum, eða ætlar að láta jafnaðarmenn kúga sig eins og hv. Ed. Með atkvgr. um þetta mál verður úrskurðað um það, hvort þessi hv. deild á að teljast merk orða sinna eða ómerk og hvort jafnaðarmenn í Nd. eiga að heita húsbændur beggja deilda Alþingis.

Brtt. er fram komin frá hv. þm. V.-Ísf. Mjer hefir ekki unnist tími til að athuga hana gaumgæfilega, og er því ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til hennar, þó ætla jeg, að mjer muni ekki fjarri skapi að samþykkja hana.