03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Jeg gæti að mestu leyti látið nægja það, sem jeg hefi sagt áður um þetta mál. En jeg verð að bæta því við, að mjer finst mjög broslegt, ef á að fara að ákveða með lögum, hvernig þetta fyrirtæki skuli rekið. Þó að samþ. yrðu lög um, að rekstrinum ætti að haga svo, að útgerðarmenn legðu síld í verksmiðjuna og fengju svo útborgað á eftir, eftir því hvernig reksturinn gengi, er jeg ekki viss um, að það fengist næg síld. Þetta er vottur þess, hversu litla hugmynd menn hafa um slíkan rekstur. Ef það stæði í lögum, að ekki mætti reka verksmiðjuna á annan hátt, yrði hún að vinna með engum krafti eða hálfum krafti. Og þá er með öllu girt fyrir það, að hinir smærri útgerðarmenn geti haft nokkur viðskifti við verksmiðjuna. Hvernig eiga þeir, sem stunda bátaútveg, að láta sína síld í verksmiðjuna, ef þeir fá ekkert borgað fyr en seint og síðar meir? Alt þetta sýnir ljóslega, að hjer er verið að setja á stofn fyrirtæki, sem menn vita í raun og veru alls ekkert um. Hæstv. atvmrh. sagðist eiga bágt með að svara fyrirspurnum í þessu efni og enga bindandi yfirlýsingu geta gefið þar að lútandi. Jeg get sannarlega skilið það.

Sannleikurinn er sá, að háttv. þm. hafa yfirleitt mjög litla, hugmynd um rekstur slíkrar verksmiðju. Þeir þekkja ekki þá áhættu, sem honum fylgir. Annars væri ómögulegt, að þetta mál fengi svo mikinn byr, sem raun er á orðin. Hæstv. atvmrh. sagði, að ef breytingar væru gerðar á frv. nú. þyrfti það að fara til Sþ. og þyrfti það þá 2/3 atkv. til þess að ná samþykki. En jeg held, að skaðlaust sje, þó að annað eins áhættufyrirtæki og þetta færi ekki í gegn, ef það hefði ekki 2/3 atkv. Jeg held, að þjóðina taki það ekki sárt, þó að annað eins áhættufyrirtæki og þetta færi til Sþ. og væri athugað betur en orðið er.

Ástæðan til þess, að Íslandsbanki studdi þessa verksmiðju, var, að þarna var um það að ræða að bjarga talsvert miklu fje, sem Íslandsbanki átti úti þarna vestur frá. Þar hafði árið áður verið rekin gamaldags síldarbræðslustöð, sem hafði gefið sæmilegan ágóða. Þarna var stofnað hlutafjelag með 100 þús. kr. framlagi. Í stjórnina var svo reynt að fá hina hæfustu framkvæmdarstjóra fyrir verksmiðjuna, t. d. menn frá Alliance og Defensor. Var það von Íslandsbanka, að með því að „modernisera“ þá gömlu verksmiðju mundi takast að vinna upp töpin og tryggja atvinnureksturinn. Bankinn lofaði engu nema rekstrarfje til verksmiðjunnar. En vonirnar brugðust að því leyti, að fyrsta árið varð mikið tap á rekstrinum. Stafaði það aðallega af því, að varan, sem þar var framleidd, var 4. flokks vara. En einmitt vegna þeirrar miklu reynslu, sem jeg hefi fengið í gegnum þetta, get jeg um þetta mál talað af sjerþekkingu og veit því, vegna reynslu bankans, að um stórt áhættufyrirtæki er að ræða, og getur aldrei orðið öðruvísi. Hv. deild þarf að sjá það og sannfærast um, að ríkissjóðnum er stofnað hjer í afarmikla áhættu. Öll þau ár síðan 1912, að undanteknu einu ári, sem jeg hefi átt sæti á Alþingi. hefir það verið sú ráðandi grundvallarskoðun, að ekki ætti að draga ríkissjóðinn í áhættufyrirtæki. En nú er verið að snúa frá þessari stefnu. Nú er á ýmsan hátt verið að draga ríkissjóðinn inn í hættulegasta atvinnuveginn, síldina. Og þótt þetta verði samþ. af miklum meiri hl. þess flokks, sem telur sig vera fulltrúa bændanna, þá er jeg viss um, að bændur þessa lands fallast aldrei á þetta. Bændastjettin vill, að farið sje varlega með fjármál þjóðarinnar. — Bændastjettin á að vera kjölfesta þjóðarinnar, ekki síst i fjármálum. En er sá bændaflokkur, sem nú skipar stjórnarliðið hjer á hinu háa Alþingi, sú kjölfesta? Jeg er hræddur um ekki. Og jeg er hræddur um, að þegar þeir koma fram fyrir sína kjósendur, þá segi bændur landsins þeim það, að þeir hafi ekki gert þetta í sínu umboði. Hjer er verið að leggja ríkissjóðinn í stórkostlega hættu vegna síldveiðanna, meðan óvíst er um, hvort hægt verði að styrkja bændur til sinna mála. Og þessu fylgja bændur þingsins flestir. Já, samviskan sefur núna. og sefur fast. En hún skal vakna!