03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3738 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Forseti (BSv):

Fram hafa komið tilmæli um það, að atkvgr. verði frestað, og það fært til, að nokkra hv. þdm. vanti í deildina. Er það og oft, þegar fundir eru langir, að fáir þm. eru viðstaddir, er til atkvæða kemur, og verður því að fresta atkvgr. vegna þess, að deildin er ekki ályktunarfær, en jafnvel þótt viðstaddir sjeu í deildinni nokkru fleiri þm. en þeir mega fæstir vera samkvæmt þingsköpum, til þess að ályktanir megi gera, þá kann forseta að virðast það viðurhlutamikið að ganga til atkvæða.

En hinsvegar er jeg mjög trauður til að fresta atkvgr., þótt nokkrir þm. sjeu fjarstaddir, því að það eru oftast sjálfskaparvíti. Hjer stendur svo á, að 3 hv. þdm. hafa fengið heimfararleyfi, og virðist mjer þeir með því hafa viljandi afsalað sjer atkvæðisrjetti um þau mál, sem fyrir kunna að koma, meðan þeir eru fjarstaddir.

Hjer er um mikilvægt mál að ræða, sem þarfnast bráðrar úrlausnar, en það er auðsætt, að málið hlýtur að dragast fram yfir páska, ef það er nú tekið út af dagskrá.

Annars mundi vaxa mjög vandi um afgreiðslu mála, ef sá háttur væri upp tekinn, að fresta atkvgr. um sum, en önnur eigi, — fæ jeg ekki sjeð, hvernig hægt væri að vinsa úr þau mál, sem hæft þætti að greiða um atkvæði þegar í stað, ef sumum á að fresta af þessum sökum. Jeg hygg, að nokkur rök megi að því leiða um flest mál, af hálfu annarhvors aðilja, að óheppilegt sje að leita atkvæða um þau, ef ekki eru allir viðstaddir. En það mundi vitanlega hafa í för með sjer óhæfilegar tafir á störfum þingsins, ef alla þingdeildarmenn þyrfti við hverja atkvæðagreiðslu.

Get jeg því eigi orðið við þessari beiðni og úrskurða, að atkvgr. skuli fara fram nú þegar.

Þá hefir hv. þm. V.-Ísf. tekið aftur brtt. sína, en hv. 2. þm. Skagf. hefir tekið hana upp aftur. Raddir hafa komið fram um það, að brtt. hafi verið tekin upp of seint til þess að hún megi koma til atkvæða, og hefir því verið skotið undir úrskurð forseta.

Um þetta atriði segir svo í 40. gr. þingskapa: „Frumvörp, hvort heldur eru frá stjórninni eða þingmönnum, svo og till. til þál. og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi“. Hafa nú sumir skilið þetta svo, að þetta yrði að gera samstundis. En sá skilningur brýtur fyrst og fremst bág við þingvenju, því að þótt menn hafi lýst yfir því í ræðum, að þeir taki till. sínar aftur, þá eru þær oft ekki teknar upp aftur af öðrum fyr en við atkvgr. Og við umr. um fjárlög kemur það jafnvel fyrir, að brtt. eru teknar upp aftur og koma til atkvæða, þótt ekki sje á sama fundi, en þó við sömu umræðu.

Af því að hjer er um merkilegt at riði að ræða, vil jeg gera nokkuð nánari grein fyrir úrskurði mínum.

Jeg tel þá reglu mjög nauðsynlega, að eigi þurfi að taka tillögur upp alveg samstundis og þær eru teknar aftur, því að ella gæti það komið fyrir, að þm. tæki tillögur sínar aftur öðrum að óvörum, og væri þannig fyrir það girt, að þeir, sem af hendingu væru ekki viðstaddir í þann svipinn, gætu tekið tillögurnar upp.

Að öðru leyti þarf ekki að fara í neinar grafgötur eftir því rjetta í þessu efni, því að ef lesin er 40. gr. þingskapanna, kemur það ljóst fram. Þar stendur: „. . . En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi“.

Tímatakmörkunin liggur þarna í gr. sjálfri; hún ákveður, að þetta skuli gert á sama fundi. Hinsvegar er ekki hægt að „taka upp“ við 3. umr. till., sem tekin hefir verið aftur við 2. umr.

Þessi umrædda grein þingskapanna kveður því skýrt á um það, að heimilt sje að taka till, upp aftur á sama fundi, þótt nokkur stund hafi liðið frá því, er hún var tekin aftur. Það er því minn úrskurður, að svo skuli vera, og kemur till. því til atkv.