09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Jeg gerði við 1. umr. nokkrar aths. við þetta frv., og jeg verð að segja, að mjer urðu það mikil vonbrigði, þegar jeg sá, að hv. landbn. skyldi geta óskift fallist á það og afgreitt frv., enda þótt einn nefndarmaður hafi skrifað undir það með fyrirvara. Sá hv. þm. hefir nú gert grein fyrir þeim fyrirvara þannig, að vel má skilja það svo, sem hann klofni frá hinum nefndarmönnunum.

Jeg er hissa á því, að þessi nefnd þingsins skyldi geta fallist á að fara þannig að gagnvart hinni fornu, og jeg vil segja heilögu Strandarkirkju, því að eins og jeg gat um við 1. umr. þessa máls, get jeg ekki sjeð annað en að hjer sje farið býsna hranalega að kirkjunni. Jeg vil ekki segja, að það sje beinlínis gerð ránsferð á hendur henni, en það er að minsta kosti farið að henni með miklum hranaskap og fje hennar tekið í það, sem hana varðar í rauninni ekkert um. Það hefir verið ætlast til, að kirkjusjóður væri notaður til alls annars en sjóður kirkjunnar er ætlaður til, og þeir, sem hafa gefið henni, hafa haldið, að fjenu myndi varið til þess að kaupa muni handa henni og til að fegra hana á allan hátt, en þá hefir naumast órað fyrir því, að kirkjan yrði látin ráðast í að leggja fje í landrækt, sem auk þess er mjög áhættusöm.

Jeg vil aðeins viðvíkjandi nál. minnast á það, að þar sem nefndin segist álíta, að það fje, sem kirkjan hafi í sjóði á hverjum tíma, skuli standa áfram í hinum almenna kirkjusjóði, þá þykir mjer ákaflega undarlegt, að hv. nefnd skuli ekki hafa flutt brtt. um það atriði, sem getur í 5. gr., þar sem gerð er sjerstaða um stjórn á fje hennar. Mjer skilst, að það yrði að fella þessa grein niður, eða breyta henni, ef fje hennar á að halda áfram að vera í kirkjusjóði, og vil jeg hjer með beina þessu til formanns nefndarinnar.

Viðvíkjandi undirbúningi málsins heima í hjeraði segist nefndin hafa spurt háttv. 1. flm. málsins, og segir hann, að undirbúningur málsins hafi verið lögum samkvæmt. Jeg veit nú ekki, samkvæmt hvaða lögum það hefir verið, en jeg býst við, að fundurinn, sem hefir samþykt þetta, hafi átt að hanga í því að vera lögmætur. Nú er það svo, að þessi fundur mun vera sá, sem haldinn var 16. des. síðastl., en þar voru saman komnir 14 búendur í Selvogshreppi af 17. En jeg vil benda á, að þar eru 60 atkvæðisbærir safnaðarmenn, og af þeim greiða einir 14 atkv. með þessari till. Það má kannske hanga í því, að ef löglega hefir verið boðað til fundarins, þá megi hann teljast lögmætur, hvað fáir sem mæta, en þá er þó óhætt að segja, að hjer er um ákaflega fámennan fund að ræða, þegar af 60 atkvæðisbærum sóknarmönnum skuli vera 14 einir, er samþykkja tillöguna.

Svo vil jeg leyfa mjer að minnast á, hvað samþ. er á þessum fundi. Jeg sje ekki að það styðji nema að mjög litlu leyti frv. það, sem hjer liggur fyrir. Það er sagt, fyrir það fyrsta, að þar hafi verið mættur Magnús Torfason sýslumaður, er hefir sennilega eitthvað verið að vinna að þessu máli, og er ekkert að því, úr því að hann telur þetta þarft og gott mál. Er sagt, að málið hafi verið rætt frá ýmsum hliðum og borin upp þessi till. (með leyfi hæstv. forseta):

„Fundurinn mælir með því að gerðar verði ráðstafanir til að Strandarkirkjusandur verði græddur.

Tillagan var samþykt með öllum atkvæðum“.

Nú veit jeg ekki, hvernig þetta örnefni er til komið hvort það byggist á því einu, að Strandarkirkja eigi sandinn, eða sandurinn er aðeins kendur við hana. Jeg er ekki svo kunnugur bar, að jeg geti sagt um, hvernig þetta örnefni er til komið.

Þarna er ekkert sagt um, hvernig skuli unnið að þessu, en þá er samþykt önnur till. (með leyfi hæstv. forseta):

„Fundurinn samþykkir fyrir sitt leyti, að varið verði alt að 10000 kr. á næsta eða tveim næstu árum til girðinga um sandsvæðið og annars stofnkostnaðar, en þar á eftir alt að 1000 kr. til græðslu árlega.

Tillagan samþykt með öllum atkvæðum“.

Það er nú fyrir það fyrsta, að fundurinn hefir það fororð, sem sjálfsagt er, að hann samþykkir þetta fyrir sitt leyti, vegna þess að það er alveg tvímælalaust, að safnaðarfundur hefir ekki heimild til að ráðstafa fje kirkjunnar á þennan hátt. Þá er ekkert getið um, hvaðan á að taka þessar 10000 kr., ekki sagt, að því skuli varið af sjóði Strandarkirkju, heldur aðeins, að varið verði 10000 kr. til girðingar og sandgræðslu, og það er mjög einkennilegt, að það skuli ekki vera nefnt, úr hvaða pyngju það skuli tekið. (JörB: Það á auðvitað að taka það af fje Strandarkirkju). Jæja, en þá væri viðkunnanlegra, að það væri tekið fram. En nú er það svo um þetta fje, að það er að mínu viti alls ekki þess eðlis, að fundurinn geti ráðstafað því. Jeg hefi talað við biskup um þetta atriði, og hann hefir látið það álit í ljós við mig, að það væri alls ekki heimilt að verja kirkjufje til eins og annars, heldur eigi að verja því til að bæta hana og halda henni við og til að kaupa gripi handa henni en alls ekki til að rækta upp land. Eftir kirkjurjetti Einars Arnórssonar er ekki álitið, að kirkjufje sje eign safnaðar; maður getur sagt, að kirkjan eigi það sjálf, og líklega er það þá ríkið, sem myndi sitja uppi með þetta fje, ef kirkjan legðist með öllu niður, en ekki söfnuðurinn, og hann hefir ekkert leyfi til að ráðstafa því sem sinni eign. Einar Arnórsson prófessor segir á bls. 178 í kirkjurjetti sínum (með leyfi hæstv. forseta):

„Söfnuður verður ekki fremur eigandi kirkju en prestur var það áður. Ef t. d. þjóðkirkjan væri lögð niður, ætti landið óefað kirkjuna með sjóði hennar og öðrum eignum. Eða ef menn hugsa sjer, að allir í einni sókn segðu sig úr þjóðkirkju landsins og mynduðu utanþjóðkirkjusöfnuð, þá mundi varla litið svo á, sem sá söfnuður ætti kirkjuna“.

Um eignarrjett að bændakirkjum, sem fengnar eru söfnuðunum í hendur, segir hann svo, að söfnuðunum eru fengin umráð kirknanna, umsjón með því, hvernig kirkjusjóði er varið, hvernig hann er notaður til þess að byggja upp kirkjuna eða halda henni við eða annað slíkt. En söfnuður hefir ekkert vald til að segja, að 10000 kr. af kirkjusjóði skuli varið til hins eða þessa: þar er verið að seilast í vald, sem alls ekki er hjá safnaðarfundum.

Þá finst mjer liggja mjög nærri, að hjeraðsfundur hefði átt af fjalla um þetta mál. Í Kirkjurjetti Einars Arnórssonar, bls. 96 eru talin upp þau mál sem heyra undir hjeraðsfund, og eru það meðal annara þessi: Till. um breyting á skipun sókna, takmörkun prestakalla o. s. frv., till. um afhending kirkju í hendur söfnuði til forræðis. Og meira að segja, þarf samþykki hjeraðsfundar til hljóðfærakaupa og til þess að forráðamaður ljens- eða bændakirkju kosti kirkjusöng af fje hennar. Það er svo nákvæmlega farið út í þetta, að söfnuðir geta aðeins ráðstafað fje kirkju að því er snertir byggingu hennar eða viðhald. Og nú þegar farið er fram á að ráðstafa svo miklu fje sem hjer um ræðir til alt annars, þá virðist sjálfsagt, að minsta kosti eftir „analogi“, að samþykki hjeraðsfundar og biskups hefði legið fyrir. Svo er verið að tala um, að þetta mál hafi fengið löglegan undirbúning. Þetta er bara hreinn og beinn hjegómi með þennan undirbúning.

Þá kem jeg að því atriði í frv., þar sem verið er að tala um Strandarland og svo sagt, að landið skuli vera eign kirkjunnar. En hvaða land er þetta? Og hvað á kirkjan að gera við það? Hún hefir ekkert að gera við það, annað en að eyða fje sínu í að rækta það upp. Þeir, sem með þessi mál fóru í fyrstu, hafa ekki varað sig á því, að kirkjan átti ekki landið; hefir hinsvegar þótt óviðkunnanlegt að láta hana kosta græðslu á annara landi og því fundið upp það snjallræði að gefa henni það til ræktunar. En hver von er nú, að græðsla takist? Það er ekki fengin slík reynsla í þessu, að þetta verði ekki að teljast hæpin jarðabót. Og eins líklegt er, að þessu fje væri sama sem hent í sjóinn. Jeg held það sje miklu betra, að kirkjan eigi sjóðinn, en sje laus við þetta land, sem á að gefa henni til þess að rækta upp. Hún hefir aldrei beðið um það. Sama er að segja um endurreisn Selvogsprestakalls. Þetta er hvorttveggja ósæmileg beita, sem sett er á öngulinn til þess að ná í þetta fje. Það má heita í meira lagi undarlegt, að nú, þegar alt gengur út á það að leggja niður og sameina prestaköll, og margra ára stríð kostar að fá sjerstakt prestakall stofnað þar, sem um fjölmenn kauptún er að ræða, að þá skuli eiga að búa til sjerstakt prestakall með 80–90 sálum. Auk þess mun annexíuvegurinn ekki erfiðari en svo, að þangað mun vera þriggja tíma ferð frá Arnarbæli. Jeg er annars ekki mótfallinn fjölgun prestakalla, en mjer finst, að einhversstaðar sje hennar meiri þörf en hjer. Það væri beinlínis hróplegt, ef byrjað væri hjer. Þá á og að kosta prestinn af fje kirkjunnar, og er þá hætt við, að það verði ekki lengi að fara með þessum aðgerðum.

Það er eins og mönnum hafi blætt í augum að sjá alt þetta fje safnast þarna hjá þessum „dýra guðsdómi“, eins og hún er nefnd í greinargerð frv. Nú er þessi kirkja líka orðin gömul; mun vera bygð 1886, eftir því sem biskup hefir sagt mjer. Og eftir vanalegri endingu húsa hjer á Suðurlandi, sem ekki er meira í borið, er mjög sennilegt, að bráðlega þurfi að byggja hana upp, og þá sjálfsagt að nota sjóð hennar til þess, með því líka, að flestar gjafir, sem hún fær, munu einmitt vera gefnar með það fyrir augum. Þessa kirkju á líka að byggja veglega upp, og sennilega mundi það ekki kosta minna en 80–90 þús. kr. En svo þegar búið væri að byggja hana upp og hún hjeldi þá áfram að fá fje, eins og miklar líkur eru til, þá fyrst gæti komið til mála að taka peninga úr sjóði hennar, sem hún kynni þá að eiga, en hefði ekkert að gera við sjálfri sjer til viðhalds og skreytingar, til þess að rækta upp landið.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, fæ jeg ekki sjeð, að löglegur undirbúningur hafi farið fram í þessu máli, og get ekki skilið, að slíkur undirbúningur hafi átt sjer stað, þó nokkrum sóknarbörnum hafi verið hóað saman. — Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta; vona aðeins, að þó svo slysalega tækist til, að landbn. skyldi samþykkja þetta frv., þá vona jeg samt. að hv. deild unni sjer þeirrar sæmdar að fella þetta frv., en láti ekki hv. Ed. hafa heiðurinn af því. Fyrst verður sjóðurinn að gera það, sem honum er sjerstaklega ætlað. Að því loknu og eftir löglegan undirbúning kemur til mála að hlusta á það, að honum sje varið til annara þarfa. Þetta er guðsþakkafje, sem á að verja til guðsþakka, sem sje til þess að byggja upp og prýða kirkjuna. Samkv. Persatrú er það að vísu guðsþakkarverk að græða upp landið, en það er áreiðanlegt, að þeir, sem hafa gefið þetta fje, ætlast til, að það verði notað til kirkjunnar og einskis annars.

Vona jeg svo að lokum, að hv. deild beri gæfu til þess að hrinda þessu frv. af höndum sjer.