28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3504)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Jeg get ekki svarað hv. þm. Vestm. öðru en því, að hann hefir engin ummæli tilfært frá mjer eða mínum flokksbræðrum, sem sýni, að köldu andi frá okkur til útgerðarinnar. Hann hefir aðeins fullyrt, að við vildum koma útgerðinni á knje, án þess að færa nokkur dæmi því til sönnunar, sem ekki er heldur von, því þau eru engin til. Þetta er því aðeins hugsmíð hans, draugur, sem hann hefir vakið upp. Síðan berst hann gegn þessum draug, sem hann sjálfur hefir vakið upp, þessari hugsmíð sinni, af venjulegri mælsku, skörungskap og síðast en ekki síst rökfimi.

Hv. þm. lagði mjer þau orð í munn, að jeg vilji, að atvinnufyrirtækin sjeu látin í friði. Ekki var það nú alveg rjett eftir mjer haft, sem ekki var heldur við að búast. Jeg sje enga ástæðu til þess, að atvinnufyrirtæki, sem eru öðruvísi rekin en holt er fyrir þjóðina, sjeu látin í friði, þ. e. a. s. að ekki sje bent á gallana á rekstri þeirra. Jeg tel það sjálfsagt, að bent sje á þá ágalla, sem á eru fyrirkomulagi þeirra og rekstri, og gerðar sjeu tilraunir til þess að fá þá lagaða.

Hv. þm. Vestm. þóttist undrandi yfir því, að hv. 2. þm. Reykv, og við flokksbræður hans berum fram till. um lækkun kaffi- og sykurtolls á þessu þingi. Leit helst út fyrir, að hann hefði ekki fyr heyrt þeirrar till. getið, enn síður sjeð hana. Þessari till. var útbýtt 22. þ. m. og jeg tel víst, að hv. þm. hafi fengið hana í hendur, svo sem aðrir hv . þm. Jeg geri því ráð fyrir, að hv. þm. hafi lesið till., þótt hún sje honum nú úr minni liðin, því að ekki vil jeg geta þess til, að hann nenni ekki að lesa þingskjölin.

Umræður eru þegar orðnar fulllangar, og skal jeg ekki lengja þær mjög úr þessu, en út af ummælum hv. 2. þm. G.-K. um hinn skattfrjálsa hluta af nettótekjum hlutafjelaga verð jeg að geta þess, að jeg var alls ekki að lasta það svo mjög, en þegar þess er gætt, að einnig eru skattfrjálsir 4% af hlutafjenu, þá finst mjer, að óþarft sje að kvarta fyrir hlutafjelögin. (ÓTh: Þessi 4% miðast aðeins við innborgað hlutafje á árinu). „Innborgað hlutafje“ getur líka verið gróði, sem lagður er við hlutafjeð, stundum sama árs, oftast þó fyrri ára gróði.

Hv. 2. þm. G.-K. kom með sömu fullyrðinguna og hv. þm. Vestm., að frá mjer og mínum flokksbræðrum andaði köldu í garð útgerðarinnar. Slíkum fullyrðingum vísa jeg alveg heim til föðurhúsanna. Útgerð og einstakir útgerðarmenn er sitthvað. Ólafur Thors og Jón Ólafsson eru engin útgerð. En það er eins og sýki á þessum hv. þm., eins og reyndar fleirum stjettarbræðrum þeirra, að í hvert sinn, sem talað er opinberlega um stórhlutafjelögin, halda þeir, að talað sje til sín og verið sje að hnýta í sig. Þetta er að vísu meinlítil sýki, en hún er, að því er mjer finst, heldur leiðinlegt afbrigði af móðursýki.