27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. flm. gaf ekki mikið tilefni til nýrra andsvara. Hann taldi það undarlegt, að jeg og hv. 1. þm. Reykv. vildum ekki láta afnema gengisviðauka á tolli á kaffi og sykri, en vildum hinsvegar hlífa mönnum við auknum tekjuskatti. Honum þurfti ekki að koma þetta á óvart, því að hjer er um hreinan stefnumun að ræða. Við viljum haga löggjöfinni þannig, að dregið sje úr nautn ónauðsynlegrar vöru með tollum. Að vísu má segja, að sykur sje ekki ónauðsynleg vara, enda þótt hann sje notaður langt yfir þarfir fram, en kaffi má hinsvegar telja með öllu ónauðsynlegt. Slíkar vörur álítum við rjett að tolla hátt, en hlífa hinsvegar framleiðslunni og framtakinu með sem lægstum tekjuskatti. Þetta er hreinn og beinn stefnumunur á milli íhaldsmanna og jafnaðarmanna.

Hv. flm. sagði, að mjer hefði yfirsjest um hlutfallið á milli útsvara í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sagði, að í Reykjavík næmu útsvörin hæst 15% af tekjum manna, en 21% í Kaupmannahöfn. Þó er það alkunnugt, að oft eru lögð verulega þung útsvör á einstaka menn og fjelög hjer í bænum, jafnvel þótt þau hafi stórtapað það árið. Þetta er gert vegna þess, að álitið er, að bæjarsjóður þurfi á þessum tekjum að halda og megi ekki missa þær, og að farið er eftir þeirri reglu að leggja ávalt há útsvör á þá menn eða þau fjelög, er atvinnu reka í stórum stíl.

Hv. flm., sem er hagfræðingur, vel mentaður maður og ekki heimskur, þótti það undarlegt, að jeg skyldi halda því fram, að þær þjóðir, sem væru ríkar, gætu betur risið undir háum tekjuskatti en fátækar þjóðir. Þetta stafar vitanlega af því, að þjóðir, sem eru orðnar ríkar, þurfa síður á fjársöfnum einstaklinganna að halda til nauðsynlegra framkvæmda en hinar, sem fátækar eru. Jeg skal ekki spyrna á móti því, þegar búið er að hrinda í framkvæmd því, sem þarf hjer á landi, að greiddur verði hár tekjuskattur, en á meðan svo er ekki, verður fremur að hvetja menn til framtaks en draga úr þeim með þungum álögum. Það er vegna þessa að ríkar þjóðir eiga hægra með að greiða hærri prósentur af tekjum sínum í skatt en fátæk þjóð. Honum þótti ósamræmi í því, að jeg teldi, að rík þjóð ætti hægt með að greiða háan tekjuskatt, en hinsvegar ekki ríkir einstaklingar. Það má nú auðvitað alveg eins snúa dæminu við og spyrja: Hvers vegna eiga fátækar þjóðir að greiða háan tekjuskatt, en ekki fátækir einstaklingar?

Jeg hafði vikið að því áður, að einn af ágöllum við tekjuskattskerfið væri, hve gjaldþegnunum væri auðvelt að hafa undanbrögð um framtal til skatts. Hv. flm. viðurkendi, að svo væri, en taldi, að úr því mætti bæta með bættu eftirliti. Nú er það víst, að eftirlit í þessum efnum er betra í Reykjavík en nokkursstaðar annarsstaðar hjer á landi. Þó hefir þetta eftirlit reynst afar erfitt jafnvel þar, og enda þótt mönnum sje gert að skyldu að telja fram til skatts og sje að öðrum kosti áætlaðar 25% hærri tekjur en líklegt er, að þeir hafi, eru þó margir, sem kjósa þann kostinn heldur. Þetta sýnir, hve erfitt er að fá menn til að telja fram og hve þessi skattur er óvinsæll.

Jeg skal ekki neita því, að nokkur vanhöld kunni að vera á tollgreiðslu manna. En hitt liggur í augum uppi, að langtum auðveldara er að hafa eftirlit með tollgreiðslum manna en tekjum hvers einstaks gjaldþegns.

Hv. flm. gat þess, að þessir peningar væru betur komnir hjá ríkissjóði en einstaklingum, eins og hv. 1. þm. Reykv. hafði eftir honum. Í fyrri ræðu sinni sagði hann, að þetta væri sín skoðun, en í seinni ræðunni, að þetta væri skoðun þingsins. Það er sem sagt ein frjettin af bræðralagi Framsóknar og jafnaðarmanna, sem við höfum hjer fengið þótt óviljandi væri. Hv. flm. var hjer að uppljóstra smáleyndarmáli, sem hefði nú sjálfsagt komið á daginn hvort sem var, en hefir þó víst ekki átt að vitnast svona fljótt.

Hv. flm. taldi skatt þennan rjettlátan, af því að hann lenti á „stórlöxunum“, sem oft eru nefndir hjer í deildinni. Það er rjett, að ef vel lætur í ári, eins og nú lítur út fyrir, sem betur fer, þá lendir skattur þessi á þeim að talsverðu leyti, en verði ilt árferði og tap á atvinnurekstrinum, gjalda þeir hinsvegar ekki neitt. Árið 1927 hefði skattur þessi orðið sama og enginn, og ef árferði yrði svipað 1928 eins og 1926, yrði auðvitað sama útkoma.

Mjer þykir undarlegt, að hv. flm. skuli hvað eftir annað láta í ljós vanþóknun sína á því, að einhver haldi uppi hlífiskildi fyrir embættismennina, sem hann telur hafa 5000–7000 kr. árstekjur. Jeg vil nú spyrja hann, hvort hann muni sjálfur treysta sjer til að komast af með þessar tekjur. Jeg býst við, að hvorki hann nje jeg kæmist betur af með þær en verkamaður með sínar 2000–3000 kr. á ári. Hv. flm. verður að haga lífi sínu þannig og leggja í ýmsan kostnað, sem verkamaðurinn veit ekki af, og tekjur hans þurfa því að vera meiri. Jeg held því, að hv. flm. tali ekki af heilum hug, ef hann þykist ekki skilja líf embættismannastjettarinnar svo, að hann sjái, að embættismaður getur ekki lifað á sömu launum og verkamaður. Það er því hin mesta nauðsyn á að hlífa þessum mönnum við þungum álögum.

Hitt er rjett, að enginn er öfundsverður af því að lifa á 2–3 þús. kr. á ári, en launakjör verkamanna hljóta jafnan að vera undir því komin, hvað sá atvinnurekstur, sem um er að ræða, getur borgað þeim, sem vinna við hann.