27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3879 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. 1. þm. N.-M., sem vill láta samþykkja þessa hækkun á tekjuskattinum, gat þess, að útsvörin væru mjög há og engu lægri en tekju- og eigna- skatturinn. Þetta get jeg fúslega viðurkent, en af því leiðir þá, að því síður er ástæða til að íþyngja gjaldendunum með því að hækka tekjuskattinn. Þess vegna finst mjer eðlilegast, að þeir, sem finna þunga útsvaranna, vildu ljetta hinn baggann. Þessi rök eru því mjer í vil og ganga á móti þeim, sem harðast mæla fram með frv. þessu.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að háttv. frsm. meiri hl. Hann skýrði frá því, að stefna mín í skattamálum væri sú, að vinna að fjársöfnun einstaklinganna. Þetta er að vísu rjett, en svo rangfærði hann orð mín, er hann vildi fullyrða, að mín stefna væri sú, að fjársöfnunin væri aðeins í fárra manna höndum. Jeg álít þvert á móti, að fjársöfnunin ætti að vera á sem flestra höndum, enda er það stefna Íhaldsflokksins í skattamálum að vernda smærri atvinnurekendur með því að beita hóflega beinu sköttunum, en afla ríkissjóði tekna með tollum. Stærri atvinnurekendur, sem hafa marga menn í þjónustu sinni, gjalda kaup eftir dýrtíð, en tollhækkun kemur að sjálfsögðu fram í dýrtíðarvísitölum, og lendir því á slíkum atvinnurekendum. En minni framleiðendur, sem kaupa fárra manna vinnu, verða lítt varir við tollhækkun, en beinir skattar lenda miklu þyngra á þeim. Að svo miklu leyti, sem það er stefna Íhaldsflokksins að ljetta undir með fjársöfnun, þá er það fyrst og fremst með hliðsjón af smærri atvinnurekstri landsmanna.

Hv. frsm. meiri hl. vildi skopast að því, að jeg hefði verið að tala um, að honum mundi ekki frekar kleift að lifa á 6–7 þús. króna árstekjum heldur en verkamönnum á 2–3 þúsundum, og taldi sig sýna viljann í verkinu með því að hann bæri fram frv., er legði nýjan skatt á sjálfan hann, um leið og ljett væri gjöldum af þeim, sem lægri laun hefðu. Jeg skal nú ekkert segja um þessa fórnfýsi hans, en þegar hann jafnframt slær því fram, að hvorugur okkar eigi siðferðiskröfu til hærri launa en verkamenn, þá kemur það ekkert málinu við, því að um það spurði jeg alls ekki. En hinsvegar benti jeg á, að okkar þurftarlaun væru hærri en verkamanna. Og jeg skal rökstyðja þetta ofurlítið betur. Hv. 2. þm. Reykv. er fjesýslumaður og verður vegna starfs síns, og blátt áfram til þess að afla sjer tekna, að viðhafa þá risnu, sem ekki verður krafist af neinum verkamanni. Við skulum segja, að til hans komi erlendir kaupsýslumenn, og verður hann þá að hafa þau híbýli, að hann geti boðið þeim inn. M. ö. o. aðstaða okkar beggja krefst þess að hafa hærri laun en verkamenn geta látið sjer nægja, en siðferðiskrafa er það ekki.

Hv. frsm. meiri hl. játaði, að skattur þessi væri hærri hjer en í Danmörku, enda er það svo, og auk þess er útsvar hjer hærra. Alt til 1922 höfðu Danir sama skattstiga og við lögfestum hjer 1921, er við höfum hækkað síðan. En 1922 töldu Danir, að reynslan hefði kveðið upp þann dóm, að skattstigi þeirra væri of hár, og var hann þá lækkaður að stórum mun, og enn eru þeir að lækka hann. Þó eru í Danmörku sömu tekjur drýgri en hjer. Þess vegna mætti þeirra skattstigi vera hærri en okkar, en er miklu lægri.

Svo sem margsinnis hefir verið sýnt og sannað, og síðast af mjer við 1. umr. þessa máls hjer í hv. deild, er sami skattstigi hjer margfalt þungbærari en í Danmörku, sakir misjafns árferðis. Skattstigi okkar ætti því að vera miklu lægri, en er miklu hærri. Danir eru miklu ríkari þjóð, og er því síður ástæða til að hlynna að fjársöfnun þar en hjer í landi, þar sem alt er ógert enn. Danir þyldu því hærri skatt, en búa við lægri. Þó er bændastjórnin í Danmörku að lækka sinn skattstiga á sama tíma og bændastjórnin hjer leggur til að hækka hann. Um það mætti segja: „Ólíkt höfumst vjer að!“

Hv. frsm. meiri hl. taldi eðlilegt, að við greiddum hærri skatt, því að hjer væri ónumið land. En hjer kemur fram höfuðstefnumunur okkar. Eins og jeg þegar hefi bent á, álít jeg einmitt, að af því að hjer er ónumið land sje höfuðverkefni komandi kynslóða með sparnaði og framtaki að rækta landið. Skattalöggjöfinni verður að haga með hliðsjón af þessu, en af því leiðir, að tolla verður ónauðsynlega neytslu manna, en hlífa þeim tekjum, sem aflað er með framtaki, þ. e. a. s. að tolla sem hæst munaðarvöru, en hafa tekjuskattinn sem lægstan.

Jeg tel svo ekki nauðsynlegt að svara fleiru í ræðu hv. frsm. meiri hl. og nenni heldur ekki að endurtaka það, sem jeg hefi sagt áður í dag.