27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3882 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skildi ekki betur en að hv. 2. þm. Reykv. miðaði við allar ríkistekjurnar í fjárlögum, og þess vegna tók jeg ræðu hans eins og jeg tók hana. En nú virtist hann vilja miða aðeins við skatta og tolla, en sleppa öðrum tekjum ríkissjóðs, og get jeg því gert reikninginn upp á þann hátt.

Þessir eru þá beinir skattar: Fasteignaskattur, tekju- og eignarskattur og lestagjald, alls 1330 þús. kr. Aukatekjur, erfðafjárskattur og leyfisbrjefagjöld, alls 445 þús. kr. Bifreiðaskattur 30 þús. kr. Skólagjöld 15 þús. kr. Það af vitagjaldinu, sem ekki er viðskiftagjald, áætlað 250 þús. kr. Stimpilgjald, að svo miklu leyti, sem það ekki er viðskiftagj., áætlað 200 þús. kr. Útflutningsgjald, sem er beinn skattur á atvinnuvegina, 950 þús. kr. Gjald af brjóstsykri og konfektgerð 25 þús. kr. Þessar tekjur alls 3245 þús. kr.

Óbeinu skattarnir eru taldir 4760 þús. kr. Við þá er það að athuga, að 1175 þús. kr. eru af munaðarvöru, sem allir telja alóþarfa, sem er áfengi og tóbak. Notendagjöld eru: Pósttekjur 450 þús. kr. Símatekjur 1500 þús. kr. Alls 1950 þús. kr.

Þá eru viðskiftagjöld af vitagjaldi áætluð 70 þús. kr., og af stimpilgjaldi 100 þúsund krónur. Verslunartekjur, víneinkasalan 375 þús. kr.

Annars er það mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv., ef hann heldur því fram í alvöru, að tekju- og eignarskatturinn lendi hjá þeim einum, sem borga hann, því vitanlega kemur það niður á atvinnurekendum á þann hátt, að þeir verða ekki eins færir að greiða hátt kaupgjald, og lendir því nokkuð af honum óbeint á verkafólki, einkum við sjávarsíðuna.

Jeg hefi þá sýnt hv. 2. þm. Reykv. fram á, hversu staðhæfing hans var óundirbygð og rakalaus með öllu.