09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

77. mál, einkasala á síld

Jón Baldvinsson:

Af því að jeg hefi nýlega flutt frv. um einkasölu á útfluttri síld, þá vildi jeg segja nokkur orð um þetta mál.

Í athugasemdum við frv. er sagt, að vonlaust sje um afgreiðslu þessa máls á þeim grundvelli, að ríkið taki að sjer einkasölu á síldinni. Mjer þykir leitt, að sú úrlausn þessa máls er ekki talin hafa fylgi, því mjer blandast ekki hugur um, að þar er um heppilegustu úrlausnina að ræða.

Þetta frv. er heldur ekki eins víðtækt og mitt frv., þar sem hjer er aðeins um ráðstafanir að ræða á þeim hluta síldarinnar, sem fluttur er úr landi. En til mála gæti komið að auka þetta frv. síðar, einkum þegar álit þess manns kemur, sem sendur var til Siglufjarðar til að rannsaka þar möguleikana fyrir því, að landið setti þar á fót síldarverksmiðju.

En þrátt fyrir það, þó jeg telji frv. þetta ekki eins heppilegt og mitt, þykir mjer þó ekki rjett að leggja stein í götu þess, þó jeg játi þann ágalla þess. Og erfiðleika hlýtur það að hafa í för með sjer að geta ekki samstundis komið upp síldarverksmiðju, er tekið gæti við síldinni í bræðslu fyrir rjettlátt og sanngjarnt verð. Jeg hygg líka að það muni sýna sig, að það verður altaf erfiðleikum bundið að framkvæma slík lög svo vel fari nema ríkið reki fyrirtækið eða verslunina sjálft, því það mundi vera minni mótspyrna erlendis á móti málinu í því formi, að ríkið sjálft færi með verslunina, heldur en ef fjelagsskapur einstakra manna á að sjá um söluna.

En þar sem þetta frv. er þó betra en lögin frá 1926, mun jeg ekki ráðast á móti því, þó jeg sje ekki ánægður með það. En máske er þetta milliliður eða hliðarspor, sem þessu máli er nauðsynlegt að stíga, áður en það kemst í hina einu rjettu höfn. — Það kann að vera, að það sje að einhverju leyti líkt og með járnbrautina og Titanfjelagið. Þetta Titansjerleyfi var talið ef sumum nauðsynlegt sem millispor, áður en ríkið sjálft tæki málið í sínar hendur.