16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3919 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Til þess liggja tvær aðalástæður, að jeg hefi ekki getað orðið hv. meðnefndarmönnum mínum sammála um þetta frv. Fyrri ástæðan er sú, að til eru lög um sölu á síld frá 1926. Þar er það ákveðið, að ef 20 útgerðarmenn eða fleiri mynda fjelagsskap í því skyni, geta þeir fengið heimild ríkisstjórnarinnar til einkasölu á síld. Veit jeg ekki betur en að þegar fyrir löngu sjeu hafin samtök meðal útgerðarmanna um undirbúning slíks fjelagsskapar. Þegar á árinu 1926 samþyktu 39 útgerðarmenn að stofna síldarsamlag. Það, að enn hefir ekki orðið af framkvæmdum, stafar sjálfsagt meðfram af því, að ríkisstjórnin hefir ekki hvatt til samtakanna og af framkvæmdarleysi útgerðarmanna sjálfra. En mjer er sagt, að nú sje þeim mikil alvara að hefjast handa í þessu máli. Og meðan fult útlit er fyrir, að lögin frá 1926 komi til framkvæmda, álít jeg algerlega ótímabært að bera fram ný einkasölufrv.

Hin ástæðan, sem jeg hefi á móti þessu frv., er stjórnarfyrirkomulag það, sem gert er ráð fyrir, að verði á einkasölunni. Ætlast er til, að 5 manna nefnd veiti fyrirtækinu forstöðu, og sjeu 3 nefndarmenn kosnir af sameinuðu Alþingi, en 1 af verkalýðssambandi Norðurlands og 1 af útgerðarmannafjelagi Akureyrar. Mjer finst þetta stjórnarfyrirkomulag að ýmsu leyti fráleitt, fyrst og fremst af því, að þarna er verið að draga þennan stóra útveg inn í pólitískan reipdrátt. Alþingi ætti, að minni hyggju, ekki að skifta sjer neitt af kosningu nefndarinnar. Miklu nær liggur, að ríkisstjórnin skipi nefndina, eða þá rjettir aðiljar, útgerðarmenn og verkamenn við síldarútveginn. — í þessari grein frumvarpsins er ákveðið, að útgerðarmannafjelag Akureyrar skuli kjósa einn af stjórnarmönnum síldareinkasölunnar. Í þessum fjelagsskap er mjer sagt, að ekki sjeu nema 5 eða 6 menn, og sýnist það a. m. k. undarlega ákveðið, ef þeir eiga að kjósa fulltrúa fyrir alla útgerðarmenn landsins. Þá er einnig tekið fram, að allir nefndarmenn skuli búsettir á Akureyri, Siglufirði eða við Eyjafjörð. Allir aðrir útgerðarmenn eru þannig útilokaðir frá nokkurri þátttöku í stjórn einkasölunnar. Get jeg ekki notað um þetta vægari orð en það, að hjer sje beitt hróplegum þrælatökum. Þá verð jeg þó að segja, að ríkiseinkasölufrv. hv. 5. landsk. er mun aðgengilegra en þetta. Með því er ekki verið að reyna að draga síldarútgerðina inn í pólitískar æsingar, nema að því leyti, sem segja má, að einkasala sje fremur stefnumál eins flokks en annars. Lögin frá 1926 eru einnig miklu aðgengilegri. Þar er það ríkisstjórnin ein, sem fyrst í stað á að skipa stjórnendurna, og þótt jeg beri ekki mikið traust til núv. hæstv. stjórnar, þá treysti jeg henni til að skipa mennina betur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Af þessum ástæðum legg jeg til, að frv. sje felt.