26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

77. mál, einkasala á síld

Bernharð Stefánsson:

Jeg ætla ekki að tala alment um málið í þetta sinn og ekki lýsa yfir neinu um það, hvernig jeg muni endanlega greiða atkv. En jeg get verið hv. frsm. meiri hl. þakklátur fyrir, hvernig hann hefir tekið í brtt. mínar á þskj. 574, þar sem hann lýsir yfir fylgi sínu og hv. meiri hl. við þrjár þeirra, þó að hann geti ekki fallist á þá síðustu.

1. brtt. mín fer fram á að undanþiggja einkasölu þá síld, sem lögð er í olíu eða krydd í dósum. Eftir því, sem jeg hefi kynt mjer málið, sje jeg ekki þörf á, að einkasalan gildi um þessa vöru. Hún er seljanleg yfirleitt á erlendum markaði, sje vel frá henni gengið. Þegar talað er um vandræði í sambandi við síldarsöluna, snerta þau eingöngu aðalvöruna, saltsíldina. Hinsvegar gæti óþörf einkasala dregið úr viðleitni manna til að reyna nýjar leiðir. Hingað til hefir of lítið verið að því gert af hálfu Íslendinga að breyta vörunni þannig, að hún yrði sem víðast seljanleg erlendis, og gildir þetta bæði um síld og aðrar útflutningsvörur. Er því síst dragandi úr viðleitninni til þess að fara inn á nýjar brautir í þessu efni.

2. brtt. er um, að Útgerðarmannafjelag Siglufjarðar kjósi, ásamt Útgerðarmannafjelagi Akureyrar, mann í útflutningsnefndina. Finst mjer þessi till. svo sjálfsögð, að um hana þurfi ekki að fara mörgum orðum. Eins og greinin er orðuð nú, á Útgerðarmannafjelag Akureyrar að kjósa 1 mann í nefndina, þangað til víðtækari fjelagsskapur útgerðarmanna verður stofnaður norðanlands. Hygg jeg, að með þessu sje átt við samband útgerðarmannafjelaga. Sje svo, mundi fjelagið á Siglufirði bráðlega fá rjett til þess, samkv. frv., að taka þátt í kosningunni. En jeg geri ráð fyrir, að frv. sje orðað svona vegna þess, að flm. þess hafi ekki verið kunnugt um, að til væri slíkt fjelag á Siglufirði, og jeg efast líka um, að það hafi verið til, a. m. k. formlega, þegar frv. var flutti þinginu. En nú er það til, og finst mjer sjálfsagt, að fjelagar í því fái sama rjett og þeir, sem eru í fjelaginu á Akureyri. Í raun og veru hefði verið eðlilegt, að Siglfirðingar hefðu komið fyrr til greina en útgerðarmenn á Akureyri, því að það vita allir, að Siglufjörður er miðstöð þessarar starfsemi, þ. e. síldveiðinnar.

Þá kem jeg að 3. brtt., sem hv. frsm. meiri hl. fylgir líka. Hún er um að framkvæmdarstjórarnir megi ekki reka síldarútveg eða síldarsöltun fyrir sjálfa sig. Með þessari brtt. vakti það fyrir mjer að tryggja óhlutdrægni framkvæmdarstjóranna og að þeir ynnu óskiftir að starfi sínu. Jeg sje, að hv. meiri hl. lítur svipað á þetta og jeg, þar sem hann felst á till. Því hefir verið haldið fram sem mótbáru gegn þessari till., að þá gæti verið hætta á, að síður fengjust framkvæmdarstjórar, sem hefðu nóga reynslu og þekkingu. Játa jeg, að þetta er íhugunarvert, og þykir mjer því rjett að láta atkvæðagreiðslu um þessa till. bíða til 3. umr.

4. brtt. minni hefir hv. meiri hl. ekki getað fylgt. En hún fer fram á það, að heimili og varnarþing einkasölunnar skuli vera á Siglufirði, en ekki á Akureyri, eins og stendur í frv. Um hana er þó svipað að segja og 2. brtt. Hún er bygð á því, að Siglufjörður er miðstöð allrar síldveiði og síldarverslunar og að aðalstarfsemi einkasölunnar hlýtur að verða þar. Sýnist því undarlegt, að heimili og varnarþing hennar skuli ekki líka vera á Siglufirði, þar sem frv. gerir þó ráð fyrir, að skrifstofa hennar sje þar. Upphaflega stóð í frv., að skrifstofan skyldi vera á Siglufirði um síldveiðitímann, en hv. Ed. breytti þessu ákvæði þannig, að fella burtu orðin „um síldveiðitímann“. — Verður þessi breyting ekki öðruvísi skilin en að sú hv. deild hafi álitið, að skrifstofan ætti að vera á Siglufirði og hvergi annarsstaðar, en því undarlegra er að hafa heimili hennar og varnarþing ekki á sama stað. Til þess að setja heimili og varnarþing annarsstaðar hefðu þurft að vera alveg sjerstakar ástæður, en jeg sje ekki, að þær sjeu fyrir hendi. Jeg veit heldur ekki betur en að dómari sje á Siglufirði, og sennilega mundi enginn skortur verða þar hæfra málafærslumanna. Í þessu sambandi vil jeg minna á, að það hefir þótt fært að hafa skrifstofu einkasölunnar á Siglufirði, þó að þar sje ekki önnur bankastofnun en útibú það, er Íslandsbanki hefir þar um síldveiðitímann. En eigi síldareinkasalan að geta gengið, þarf að koma sæmileg bankastofnun á Siglufirði. Og nú vil jeg nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjmrh., hvort ekki sje hafinn neinn undirbúningur til að framfylgja þál., sem samþ. var á þinginu 1918 um þetta efni. Jafnvel þó að 4. brtt. mín yrði feld, verður, eins og jeg er búinn að taka fram, aðalstarfsemi einkasölunnar á Siglufirði, og sje jeg ekki, að hún geti þrifist, ef ekki er hægt að hafa þar nein veruleg bankaviðskifti.

Nú hefi jeg gert grein fyrir brtt. mínum, en auk þess vildi jeg drepa á eitt atriði í frv., þó að jeg hafi ekki flutt brtt. við það. Jeg verð að segja, að mjer þykir býsna hart ákvæði 6. gr., um að einkasalan geti tekið bryggjur til afnota skilyrðislaust. Jeg get ekki annað sjeð en þetta gildi, þó að eigandi þurfi sjálfur að nota bryggjuna. Vildi jeg mælast til, að hv. nefnd tæki þetta til nýrrar yfirvegunar og athugaði, hvort ekki væri hægt að gera einhverjar undantekningar á þessu. Jeg hygg, að verði frv. á annað borð samþ., þurfi að vera einhver ákvæði um það í lögum, að bryggjur megi yfirleitt taka, ef einkasalan þarf þeirra við. En jeg skil ekki annað en að hægt sje að finna einhvern meðalveg, þannig, að ákvæðið komi ekki til greina, þegar eigendum er missir bryggjunnar mjög bagalegur vegna eigin atvinnurekstrar.

Jeg kom inn áðan, meðan hv. frsm. meiri hl. var að tala. Jeg heyrði þá, að hann var að tala um „leppana að norðan“. Jeg veit ekki, hvaða menn það eru, sem hann velur þetta heiti. En mjer þætti rjettara, þegar slík ummæli eru viðhöfð, að gengið væri beint til verks og sagt, hverjir þeir eru þessir leppar. Jeg skal ekki bera á móti því, að þeir kunni að vera til, en þegar verið er að tala yfirleitt um „leppana að norðan“ og því er ekki móti mælt, gæti svo farið, að þessi miður virðulega nafnbót festist við einhverja þá, sem alls ekki eiga hana skilið.