20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) hefir lagst allfast gegn þessu máli. Hann telur frv. á misskilningi bygt og að ilt eitt mundi af leiða, ef það væri samþ. Mjer þykir þetta leiðinlegt, því að jeg held, að gott eitt mundi af því leiða fyrir Íslendinga, ef það næði samþykki. Hv. meðflm. minn (BSv) svaraði annars flestu því, er hv. þm. (JÓl) sagði í fyrri ræðu sinni, og þarf jeg því ekki að svara nema síðustu ræðu hans og get verið fljótur, því að fátt nýtt kom þar fram. Andstaða hv. þm. (JÓl) gegn þessu máli er bygð á því, að hann álítur, að landsmenn geti haft miklar nytjar af heimildinni til þess að stunda þessar veiðar, en hinsvegar muni útlendingar ekki baka Íslendingum mikið tjón, þótt þeir, sem nú hafa heimild til þeirra, haldi henni áfram. Mjer kemur undarlega fyrir sjónir þessi skoðun hv. þm. (JÓl), þar sem undanfarin reynsla hefir sýnt það, að Íslendingar hafa mjög lítil not þessara veiða. Eins og nú er ástatt, held jeg hyggilegast að slá þessum veiðum á frest um nokkur ár og safna kröftum til þess að taka þær síðar upp að nýju, ef menn þá verða á sama máli og hv. þm. (JÓl) um nytsemi þeirra. Hann ber fyrir sig vísindin um það, að þessi veiðarfæri sjeu ekki skaðleg. En hvað á þá að segja um reynsluna? Vísindin eru vissulega góð, og jeg ber ekki á móti því, að menn eigi að nota sjer þau, en meðan svo er ástatt, að vísindin eru enn ung á þessu sviði, þá verð jeg að leggja meira upp úr reynslunni, og hún er alstaðar sú, að þar sem dragnót hefir verið notuð, hefir fiskurinn gersamlega horfið. Meðan vísindin gefa ekki skýringu á því, hvers vegna hann hafi horfið. þá verð jeg að kenna veiðiaðferðinni um. (JÓl: Hvar hefir veiðin horfið?). Til dæmis á Austfjörðum og fyrir Norðurlandi þar sem hún var stunduð um nokkurra ára skeið, hefir hún gersamlega eyðilagst Það má vel vera, að hún komi aftur eftir nokkurra ára hvíld, en ef svo verður, þá sannar það skaðsemi þessara tækja.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) drap á reynslu Norðmanna í þessu efni. Sagði hann, að til að minka hleypidóma fiskimanna, hefðu þeim verið lánuð þessi veiðarfæri, svo að þeir lærðu að fara með þau. Þó gat hann þess að þrátt fyrir þetta væru bannaðar kolaveiðar með dragnót á sumum stöðum þar í landi. Sama á sjer stað sumstaðar í Skotlandi. Og þegar Bretar, þessi mikla menningarþjóð, grípa til slíkra ráða, þá má nærri geta, hvort þeir þykjast ekki byggja það á reynslu og vísindalegum athugunum.

Hv. þm. (JÓl) sagði, að ekki mætti einblína á það, þótt útlendingar stunduðu þessar veiðar ásamt okkur í landhelgi. Þótt þeir bæru að vísu góðan feng frá borði, væri þess að gæta, að ríkinu áskotnaðist nokkur gróði af atvinnurekstri þeirra bæði í tollum og greiðslu verkkaups. En jeg veit ekki betur en að hingað til hafi þessir útlendu menn haldið sig að öllu leyti í skipum sínum, og landsmenn því engan arð haft af viðskiftum við þá, heldur þvert á móti. Þeir hafa farið hjeðan með góðan feng, en landsmenn ekki haft annað en skaðann og skapraunina.

Jeg sje enga ástæðu til að dylja þá skoðun mína, að jeg myndi kjósa, að þessar veiðinytjar yrðu ekki notaðar fyr en við getum einir notfært okkur þær. Það yrði okkur áreiðanlega fyrir bestu. Við megum ekki gleyma því, að önnur þjóð, sem er mörgum sinnum stærri og ríkari en við, getur orðið okkur skæður keppinautur, ef hún hefir óhindraðan aðgang að auðsuppsprettum vorum.

Þá er það nú þessi vísindamenska, sem mjer dettur nú raunar ekki í hug, að hv. þm. (JÓl) hafi frá sjálfum sjer, um það, að kolinn sje farinn að smækka í vexti, vegna þess hve lítið hafi verið veitt af honum. Jeg skal nú leiða þessa staðhæfingu hjá mjer, en hræddur er jeg um, að langt sje orðið síðan hann fór að minka, og stærstir hafi verið þeir, sem fyrst voru veiddir. Það er víst varla heldur ástæða til að óttast, að kolinn leggist í svelti upp við strendur landsins. Hann leitar að líkindum þangað, sem ætisins er von, og fylgir sömu náttúruhvöt og önnur dýr, þar sem ekki eru óyfirstíganlegar tálmanir á vegi hans.

Hv. þm. (JÓl) sagði, að með frv. þessu væri verið að gera mönnum erfiðara fyrir um það að bjarga sjer. Jeg held, að kolaveiðar hafi í rauninni aldrei verið nema þá örfáum Íslendingum til bjargræðis, svo að að þessu sinni hæfir hv. þm. (JÓl) ekki markið.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir þegar svarað því, sem hann fór skakt með um skaðsemi dragnóta samanborið við botnvörpur. Hv. þm. (BSv) benti ennfremur á, að þótt veiðitæki þetta væri eigi harðdrægt við sjávarbotninn, gæti það verið skaðlegt engu að síður. Jeg vil í þessu sambandi minna á það, að ekki var þráðurinn Gleipnir harður viðkomu, og var það þó fjötur sá, er úlfinum hjelt, er hann var á hann lagður, og þess vegna misti Týr hönd sína. Jeg vil nú ekki segja, að óvarfærni í þessu efni verði til þess, að þjóðin missi sína hægri hönd, en allur er varinn góður. Hv. þm. (JÓl) hjelt því fram, að veiðitæki þetta spilti ekki gróðri á sjávarbotni og væri því ekki skaðlegt. Jeg skal ekki um þetta segja, enda kemur það ekki málinu við. Ef það er staðreynd, að kolaveiðar minki mjög eða hverfi með öllu þar, sem veiðitæki þetta er notað, þá stendur auðvitað alveg á sama, hvort það er af því, að veiðitækið spillir sjávargróðri. eða hvort það er vegna þess, að það hirðir allan kola, sem er þeim slóðum, Reynslan hefir sýnt, að það verður auðn eftir, og það er nóg.

Hv. þm. (JÓl) benti á, að Danir hefðu sett lög hjá sjer um möskvastærð á dragnótum, til að hindra, að ungviðið yrði upprætt með öllu. Þetta bendir einmitt á, hve hættulegt þetta veiðitæki er. En jeg er alls eigi viss um það, að farið verði eftir löggjöf Dana um þessi atriði, ef Danir fá að stunda veiðar þessar eftirlitslaust hjer við land. Jeg veit ekki til, að nokkur löggjöf sje um þetta hjer á landi, og vona jeg, að upplýst verði, ef svo kynni að vera.

Það er nú víst fátt eitt úr ræðu hv. þm., sem jeg á eftir ósvarað. Þó vil jeg minnast á nokkur atriði. Hann sagði, að ungu mennirnir bæru það mjög fyrir brjósti að fá að nota veiðarfæri þetta og að lögin yrðu upphafin, en gömlu mennirnir stæðu á móti. Það er náttúrlega gott og blessað, að ungu mennirnir skuli vilja bjarga sjer, en þegar þess er gætt, að hindranir þær, sem hjer er um að ræða, eru til þess gerðar að tryggja landsmönnum bjargræði í framtíðinni, þá verður að telja þær til góðs eins, og þar sem eldri mennirnir hafa yfirleitt meiri reynslu heldur en hinir yngri, er venjulega meira upp úr skoðun þeirra að leggja.

Varla verður það með nokkrum rjetti sagt um Íslendinga yfirleitt, að þeir sjeu hleypidóma- og hjátrúarfullir og hlaupi eftir því einu, sem þeir hafa heyrt. Þeir vilja styðjast við reynslu þá, sem þeir hafa haft sjálfir í þessu máli sem öðrum, og því óska menn einskis annars frekar úti um landið, þar sem þessi veiðiskapur hefir verið stundaður, en að landhelgin verði algerlega friðuð fyrir þessu veiðarfæri. Byggja þeir auðvitað þær óskir sínar á því, hve veiðarfæri þetta er búið að gerspilla kolaveiði á þeim slóðum, sem það hefir verið notað.

Hv. þm. (JÓl) vildi rjettlæta afstöðu sína á þann hátt, að hann sagði, að þótt Danir væru fjölmennari og fjesterkari en við, þá hefðu þeir aldrei sótt gull í greipar okkar hingað til, er um atvinnurekstur væri að ræða. Þetta getur satt verið, en hæpið finst mjer að byggja á því framvegis. Enginn getur sagt um nema þetta breytist með vaxandi þekkingu Dana á hjerlendum högum, og getur það verið orðið um seinan að amast við aðgerðum þeirra á þessu sviði.

Hv. þm. (JÓl) endaði ræðu sína á því að lýsa, hvaða ráðstafanir Bretar gerðu um veiðiaðferð þessa. Þeir hefðu, þrátt fyrir mótspyrnu í fyrstu, tekið upp aðferð þessa og stunduðu hana nú með hagnaði, og ljetu sjer ekki til hugar koma að banna mönnum að leita sjer bjargræðis á þennan hátt. En eins og jeg hefi áður um getið, mun veiði þessi vera bönnuð í sumum fjörðum við Skotland, og er það vitanlega gert af brýnum ástæðum.

En getur það talist að banna mönnum bjargráð, þótt reistar sjeu skorður við, að viss fiskitegund sje veidd upp til hlítar á nokkrum árum?

Það er rjett, að við höfum margs að gæta, fleiri kröfur að uppfylla og fleiri skyldum að gegna en nokkru sinni fyr. En okkur ber ekki síst skylda til þess að tryggja til frambúðar auðsuppsprettur landsins til lands og sjávar, Þótt þetta mál sje eigi með öllu sambærilegt við friðun á kjarri og lyngi, þá er það þó það að nokkru leyti. Hjer er verið að tala um að reisa skorður við því, að hlunnindi verði með rányrkju upprætt á skömmum tíma.