16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Einar Árnason):

Háttv. 3. landsk. (JÞ) taldi ákvæði 7. gr. frv. þess eðlis, að frv. væri afturför frá því ástandi, sem verið hefir. Þetta get jeg ekki fallist á. Í frv. er gert ráð fyrir, að girt verði stór svæði, sem nú eru ógirt. Á þessum svæðum ganga nú allar skepnur sumar og vetur. En ef girðing kemst upp, er tekið fyrir vetrarbeit. Að vísu væri æskilegt, ef hægt væri að koma því við, sem hv. 3. landsk. vill, að skógsvæði sjeu friðuð alt árið. En nefndin býst ekki við, að girðingar geti komist á alment með því að taka allar nytjar svæðisins undan þeirri gagnsemi, sem ábúendur jarða hafa af þeim. Nefndin telur, að frv. sje spor í rjetta átt, en hinsvegar viðurkennir hún, að með því sje ekki gengið eins langt og þörf væri á um skógrækt, ef aðeins er litið á þá hlið málsins, en ekki það gagn, sem bændur hafa af beitinni.