03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (3696)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Erlingur Friðjónsson:

Jeg get frætt menn um það, hvenær kosningu hefir verið lokið á Akureyri. Henni hefir venjulega verið lokið kl. 7–8, ef ekki hafa verið lesin upp atkvæði, greidd utan kjörstaðar, í byrjun. (JÞ: Hefir ekki verið farið eftir lögum?). Jeg veit ekki betur en það sjeu lög, að ljúka megi kosningu á 5 kl.st., — eða getur hv. 3. landsk. ekki reiknað það dæmi rjett, að kosningalögunum sje fylgt, ef byrjað er kl. 12 og hætt kl. 7–8, en kosning þarf ekki að standa lengur en 5 tíma?

Jeg hefði viljað óska, að það hefði ekki legið fyrir vini mínum, hv. 2. þm. S.-M. (IP), að snúa svo hrapallega út úr orðum mínum og hann gerði. Jeg sagði ekki, að fólk vildi endilega ljúka sjer af í borðunartímanum, heldur um borðunartímann. En auðvitað yrði sama þröng, ef þessir 600 kjósendur, sem hann talaði um, drægju allir að kjósa þar til eftir vinnutíma.