12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4321 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Magnús Guðmundsson:

Jeg er samþykkur hæstv. dómsmrh. í því, að rjett sje að koma öllum tryggingamálum hjer í einn og sama farveg. En svo skilja að nokkru leyti vegir okkar, því jeg álít, að um fleiri leiðir sje að gera en eina til þess að ná því takmarki; en jeg skal samt ekki fara út í það nú. En eitt er það, sem jeg legg mikla áherslu á, og það er það, að gefnum loforðum sje ekki brugðið, þó þessu sje veitt í sama farveg. Hæstv. dómsmrh. sagði, að síðar mætti gera hinar innri breytingar, og er það að vísu rjett, en sú innri breytingin hefir það í för með sjer, að hið ytra breytist líka, Það getur líka vel verið, að þeir, sem trygt hafa, vilji hafa fyrirkomulagið öðruvísi, og vil jeg þá ekki, að gripið sje fram fyrir höndurnar á þeim. Þeir eiga fjelagið og var búið að lofa þeim því, að þeir skyldu ráða, hvernig það yrði. Álít jeg því hyggilegast, að þeir sjeu látnir segja álit sitt um þetta. Sá dráttur, sem af því yrði, er svo óverulegur, að hann getur ekki skift neinu máli.

Það er sýnilegt, að þetta mál hefir verið rekið áfram af of miklu kappi, þar sem ætlast er til, að þetta frv. verði samþ., þar sem þó aðeins einn af þeim, er sæti áttu í þeirri nefnd, er fjallaði um það, leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Hinir 2 úr meiri hl. eru óánægðir með það og álíta því í mörgu ábótavant. Við í minni hl. álítum, að þetta mál eigi að athugast með hliðsjón af þeim lögum, er um það gilda. Jeg fæ satt að segja ekki skilið, af hvaða ástæðum hæstv. stjórn leggur svo mikið kapp á að koma þessu gegnum þingið núna. Manni gæti næstum því dottið í hug, að það væri gert til þess að koma ákveðnum manni úr stöðu sinni, — en því vil jeg samt ekki trúa fyr en í fulla hnefana. En ef þessu máli verður slegið á frest nú og lagt fram á næsta þingi vel undirbúið frv. samkv. ósk vátryggjenda í Brunabótafjelagi Íslands, þá lofa jeg því stuðningi mínum.

Hv. þm. Ísaf. ræddi um launaákvæði þessa frv. á sama hátt og. jeg og tók rjettilega fram, að þau væru alt of lág. Þetta er nú að vísu ekkert aðalatriði enn sem komið er, en það getur orðið aðalatriði síðar. Og jeg vil skjóta því til hv. þm., hvort honum finnist ekki nokkuð varasamt að samþykkja frv. með þessum ákvæðum, því svo gæti farið, að ekki fengist í byrjun eins góður maður til að gegna þessu starfi og ef launin væru hærri. Og þó þau yrðu hækkuð síðar, yrði máske ekki svo auðhlaupið að því að losna við þann mann, er þá væri, þó annar hæfari fengist, er launin hefðu verið hækkuð.

Samkv. ákvæðum þessa frv. er ekki hægt að sjá, hvernig fer um meðstjórnendurna við Slysatrygginguna. Eiga þeir að vera kyrrir eða eiga þeir að hverfa? Mjer þykir nú sennilegast, að þeir verði áfram, því í gildandi lögum er svo gert ráð fyrir, að 2 sjeu meðstjórnarmenn. Um þetta væri gott að fá skýringu frá hæstv. dómsmrh., sem virðist í þessu vera málsvari hæstv. stjórnar, þó að þetta heyri að vísu undir hæstv. atvmrh. En út á það hefi jeg ekkert að setja.

Jeg skal svo að lokum endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, að jeg álít heppilegast, að þessu verði vísað til stjórnarinnar og að hún undirbúi þetta svo betur.