23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það eru aðeins fá orð, sem jeg vil segja út af ræðu hæstv. fjmrh. Hann fór mörgum orðum um þessar öryggisráðstafanir, sem eru í núverandi bankalögum, en sem hann vill fella burtu. Hæstv. ráðh. hjelt, að jeg væri annaðhvort taugaveiklaður eða þá að jeg meinti þetta ekki. Til þess nú að sýna honum, að þetta er ekki gripið alveg úr lausu lofti, vil jeg leyfa mjer að lesa upp eina grein úr löggjöf Noregsbanka. Jeg skal reyna að lesa hana svo skýrt og ódönskulega, að allir megi skilja:

„Direktionens Forhandlingsprotokol underskrives af samtlige tilstedeværende Direktörer, hvorefter de staar til fælles Ansvar for det besluttede, medmindre nogen af dem har ladet sin Protest derimod antegne i Frotokollen. Ogsaa de fraværende Direktörer deltager i Ansvaret medmindre de, naar de kommer tilstede gjör Indsigelse i Protokollen mod den fattede Beslutning. Forsaavidt bestemt og motiveret Indsigelse gjöres af nogen tilstedeværende Medlemmer mod nogen til Diskontering eller Laan frembudt Papir, bör dette ikke antages“.

Jeg vona, að allir hv. þdm. skilji þessa grein. Hún segir í fyrsta lagi, að framkvæmdarstjórar bankans eiga að halda gerðabók. Í öðru lagi, að framkvæmdarstjórarnir eiga allir að skrifa undir. Í þriðja lagi það, að ef einhver ágreiningur á sjer stað, þá hefir hver bankastjóri rjett á að fá ágreiningsatriði sitt skrifað inn í gerðabókina. Ennfremur ef einhver bankastjórinn er fjarverandi, þá beri hann einnig ábyrgð á því, sem gerist í fjarveru hans, nema því aðeins, að hann skrifi athugasemd um það í gerðabókina, þegar hann kemur heim. Loks ef einhver bankastjórinn gerir rökstudd mótmæli í gerðabókina gegn því að einhver víxill sje keyptur eða lán veitt, þá má ekki veita það. Að því er síðasta atriðið snertir er ekki nærri eins langt gengið og Norðmenn gera. Þar er aðeins sagt, að að öllum jafnaði megi ekki framkvæma ályktun um meiriháttar atriði, ef einn bankastjóri hefur rökstudd andmæli.

Þarna eru þá 5 af þeim atriðum, sem strika á út, gildandi í löggjöf Noregsbanka. Ef jeg mætti eyða tíma þingsins í að leita að hinum atriðunum, væri auðvelt að finna þau líka. Jeg vona, að þegar hæstv. fjmrh. heyrir þetta, þá hætti hann að hamra á taugaveiklun eða alvöruleysi í sambandi við þessar till. mínar og baráttu mína fyrir því að koma lögum Landsbankans í það horf, sem lög seðlabanka nauðsynlega þurfa að vera í. Það er velkomið, ef tíminn leyfir það, að jeg færi gild rök að því, að öll þau ákvæði, sem jeg hefi barist fyrir, að sett yrðu inn í lög Landsbankans, eru í gildi annarsstaðar. Ef t. d. hæstv. ráðh. kynnir sjer nýju bankalögin þýsku, sem menn frá 8 löndum unnu að, þá mun hann sjá, að þar er ekki skorið við neglur sjer að tryggja sem best öryggi bankans. Þar eru ákvæðin svo ströng að því er lánveitingar snertir, að slíks eru ekki dæmi annarsstaðar. Jeg vona nú, að hæstv. ráðh. hafi skilist, að mínar till. eru ekki gripnar úr lausu lofti.

Þá er því enn haldið fram, að matsnefndin hafi enga skýrslu gefið. Jeg hefi nú skýrt það, að hún hafi gefið rækilega skýrslu, og það gerði hún. Hún gaf rækilega skýrslu um störf sín og loks niðurstöðu sína ákveðnum tölum. En auk þess, undir eins og stj. fór fram á að fá að vita, hvaða tap væri áætlað á hverjum stað, þá er því einnig svarað. Frekari skýrslu var ekki hægt að gefa, nema þá að skýra frá hag einstakra viðskiftamanna bankans, en það gat nefndin ekki, því að hún er bundin þagnarskyldu um alt slíkt. Skal jeg því til sönnunar lesa niðurlagið á skipunarbrjefi mínu, dagsettu 15. júlí 1927. Þar segir svo:

„— — Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu gagnvart öllum óviðkomandi um alt það, er þeir vegna nefndarstarfanna komast að um hagi einstakra manna, fjelaga og firma“.

Þetta ætti að sýna, að lengra gat nefndin ekki gengið. Jeg get ekki verið að elta ólar við það, sem hæstv. fjmrh. hefir verið að tala um, að jeg hefði mikið álit á mjer og teldi mig bankafróðan. Mjer finst hann hafa miklu meira álit á sjálfum sjer, þegar hann leyfir sjer að tala um taugaveiklun og „humbug“ í sambandi við gildandi reglur í bankalögum annara þjóða.

Jeg tók það fram við síðustu umr. um málið, að jeg viðurkendi, að mikið vantaði á, að jeg hefði fullnægjandi þekkingu á þessum málum, en jeg ber traust til þess, sem stendur í bankalögum annara landa. Fyrir það má ámæla mjer, en ekki fyrir sjálfsálit.