23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3813)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Hv. 5. landsk. var að tala um það, að það væri sjeð fyrir eftirliti í Landsbankanum með þessu frv., og vísaði þar til 14. gr., því að eftir fyrir mælum hennar ætti að halda fund 1. og 15. dag hvers mánaðar, og þar ætti að leggja skýrslur fyrir þetta bankaráð. Mjer þykir vont, og það þætti hv. þm. líka, ef hann þekti nokkuð til bankastarfsemi, að bankaráðið fær ekki að sjá „obligations“-bækur bankans, þar sem það gæti sjeð, hvort einu firma væri lánað langt fram yfir það, sem heimilt er, en það getur bankaráðið ekki sjeð af þeim skýrslum, sem fram eru lagðar, frekar en maður getur það með því að lesa bankareikninginn sjálfan. En það er einmitt sú hlið eftirlitsins, sem er aðalatriðið í eftirliti hvers bankaráðs; það er að vita, hvernig fjenu er varið, og sjerstaklega að vita, hve mikið hver maður fær út af fyrir sig, miðað við efnahag mannsins og tryggingar. Þetta eftirlit vantar alveg, þegar bankaráðsmennirnir mega ekki ganga í bækurnar og skoða skuldabækur, bæði fyrir víxla og lán. Þetta er aðaleftirlítið, sem þarf í öllum bönkum, svo að hv. þm. getur ekki verið neitt hróðugur af því, þótt þetta standi í 14. gr. laganna, að bankaráðið eigi að halda fundi og að fá einhverjar skýrslur.

Þá telur hv. þm. mjer skylt að segja hæstv. fjmrh. frá hag einstakra manna og spyr, hvort honum sje það óviðkomandi. Það getur vel verið, að nefndin hefði trúað hæstv. fjmrh. einum fyrir að vita um þetta, en menn vita það, að brjef eða skýrslur, sem sendar eru til stjórnarráðsins, fara þar margra manna á milli, og þess vegna er ómögulegt fyrir nokkra nefnd að gefa slíka skýrslu. Það veit jeg að hv. þingmenn sjá.

Þá sagði hv. þm., að hann gæti ómögulega skilið, að bankaráðið ætti nokkra kröfu til skaðabóta. Því hefir hv. 3. landsk. þegar svarað, en jeg vil þó bæta því við, að það myndi vera vafasamt, hvort hægt væri að vísa bankaráðinu þegjandi frá. Jeg talaði við hinn glöggasta hæstarjettarmálaflutningsmann, sem jeg þekki hjer, og hann sagði alveg skýlaust, að bankaráðið ætti, ef það yrði að fara frá, rjett á launum fyrir allan þann tíma, sem eftir væri. (JBald: Jeg hefi talað við tvo lögfræðinga um þetta, og þeir voru á alveg gagnstæðri skoðun). Hann sagði, eins og hv. 3. landsk., að hjer væri um samning að ræða, þeir væru ráðnir, eins og venjulegt er, um ákveðinn tíma, og ef vistráðin eru riftuð, verður að borga skaðabætur. Annað mál er það, hvort bankaráðsmennirnir krefðust þess, en þó þykir mjer dálítið ólíklegt, að þeir myndu fara að gefa eftir 2–3 ára kaup; það myndi jeg ekki gera.

Þá var ennþá farið að tala um, að kaup nefndarinnar mundi hafa verið of hátt. Jeg sagði, að það yrði að vera miðað við samsvarandi starf hjá öðrum, t. d. við starf eftirlitsmanns banka og sparisjóða. Jeg sagði, að sá maður myndi hafa um 15 þús. kr. í laun, og kom okkur saman um að miða við laun hans. Við reiknuðum okkur 6 þús. kr., en að við hefðum ekki unnið nema 3 tíma á dag, þótti hv. 5. landsk. alt of stuttur vinnutími. Hv. þm. hyggur, að það að rýna í gegnum svona skjöl sje jafnljett verk og að hnoða deig, eða eitthvað því um líkt, en það er svo þreytandi starf, að þegar maður hefir setið í 3 tíma við það, þá er maður orðinn dauðuppgefinn. En auk þess höfðum við annað jafnhliða; við urðum að fara út um allan bæ þess á milli, til að afla ýmsra upplýsinga. Við vorum á 7. mánuð að þessu, og að því er launin snertir er það að segja, að við reiknuðum okkur þó ekki nærri eins há laun og bankaeftirlitsmaðurinn tekur, og vinnur hann þó ekki 3 tíma á dag árið um kring.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að þótt jeg hefði lesið upp úr erlendum lögum, þá myndu þessi ákvæði ekki standa í lögum, heldur í reglugerð, og fanst mjer hæstv. ráðh. viðurkenna, að það væri full þörf þessara ákvæða. En ef hæstv. ráðh. viðurkennir, að þetta standi í erlendri löggjöf, þá vil jeg spyrja, hvort nokkuð sje að því, þótt samskonar ákvæði standi í íslenskum lögum. En ef hæstv. ráðh. viðurkennir, að þetta standi í erlendum bankareglugerðum og að ákvæðin sjeu nauðsynleg, þá vona jeg, að hann taki þau líka næst upp í reglugerð fyrir Landsbankann. — Meira held jeg, að jeg þurfi ekki að segja til andsvara því, sem sagt hefir verið um þetta mál.