26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (3832)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. V.-Ísf. skaut því fram í hjá hv. 1. þm. Reykv., að eins og nú stæðu sakir bæri ríkissjóður ábyrgð á Landsbankanum samkvæmt landsbankalögunum. Það er að vísu rjett, að svo er til ætlast með lögunum frá í fyrra, að ríkissjóður beri ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum þeim, sem bankinn nú hefir, en ef ríkissjóður skýtur fram af sjer að sjá bankanum fyrir auknu starfsfje og svíkur þannig loforð sitt, þá álít jeg, að ábyrgð ríkissjóðs hafi þar með fallið niður.

Væntanlega verður tilefni og tækifæri til þess að tala um bankafyrirkomulagið í öðrum löndum við 3. umr. En það verð jeg að leiðrjetta hjá hv. 1. þm. Reykv., að stóru bankarnir í Englandi — the big five — sjeu bankanna bankar. Það eru þeir ekki að meira leyti en áður. Þeir hafa að vísu á síðustu árum gleypt fleiri hundruð smábanka, en það er aðeins til þess að geta fullnægt þörfum hinna stóru verslunar- og iðnaðarfyrirtækja. Þeir gátu ekki fullnægt nema örfáum af hinum stóru lánbeiðnum, vegna þess, að eftir styrjöldina miklu kom upp sú stefna að steypa saman mörgum stórum fyrirtækjum, í eitt, en við það varð lánsþörfin hjá þeim stórum meiri á hvert einstakt fyrirtæki en áður var. Að þeir tóku aðra smærri banka inn í sig, var til þess að þeir gætu betur og á hagkvæmari hátt en áður fullnægt eftirspurn þessara stóru fyrirtækja. Hitt er rjett, sem hv. þm. tók fram, að ekki, er hægt að koma innlánum til þessara banka nema undir sjerstökum kringumstæðum. Þessir bankar taka ekki við innlánum frá mönnum, sem þeir þekkja ekki til um, fyr en þeir hafa aflað sjer upplýsinga um þá og vita, hvort fjáreigandi muni láta innlánið standa eða þurfi á peningum að halda fyrirvaralaust.

Þeir bankar, er fást við að ávaxta sparifje almennings, vinna mest á því að kaupa og selja ríkisskuldabrjef, sem gilda 6–12 mánuði, eða mest 1½ ár.