13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4848 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

64. mál, hvalveiðar

Frsm. minni hl. (Erlingur Friðjónsson):

* Jeg hefi flutt dálitlar brtt. við frv. þetta, og þá um leið skorist úr leik að verá á móti því, ef þær verða samþyktar.

Jeg get að mestu leyti gengið inn á það, að rjettast væri, að við hjeldum hvalafriðunarlögum okkar óbreyttum, ef von væri til, að það yrði til þess að fjölga aftur hvölum í norðurhöfum, en þar sem slíkt er vafasamt, þó að lögunum væri haldið óbreyttum, þá finst mjer ekki nema eðlilegt, að Íslendingar vilji reyna að einhverju leyti að njóta þess hagnaðar, sem af veiðum þessara dýra kann að verða.

Hvað snertir veiði þessara sjávardýra, þá býst jeg við, að hún sje svo takmörkuð, að ekki borgi sig að reka hana lengi, og eins og kunnugt er, er víðátta sú, sem þau halda sig á, svo mikil, að ekki mun þurfa að óttast, að með þeim veiðiaðferðum, sem nú þekkjast, verði ekki altaf nægilega mikið eftir af þeim til þess að þeim geti fjölgað þegar veiðarnar leggjast niður aftur. Jeg held því, að ganga megi út frá því, að hvalnum verði ekki útrýmt, þó að slíkt einkaleyfi, sem hjer er um að ræða, verði veitt.

Fyrsti liður brtt. minnar á þskj. 734 er fólginn í því, að sjerleyfishafi verði að greiða í ríkissjóð 3000 kr. árgjald fyrir hverja hvalveiðastöð, og auk þess 1000 kr. fyrir hvert veiðiskip. Þetta er að vísu ekki mikil upphæð, en kemur þó til með að gefa ríkissjóði 50–60 þús. kr. í tekjur yfir sjerleyfistímabilið, ef veiðiskipin verða 2 eða 3. Eins og frv. liggur fyrir nú, er ekki gert ráð fyrir hærra árgjaldi en 500 kr. af hverju hvalveiðaskipi. Er þetta því allmikil breyting frá því, sem þar er gert ráð fyrir, þar sem árgjaldið samkvæmt því myndi ekki nema meiru en 500–1500 kr. Í sambandi við þetta skal jeg svo geta þess, að jeg fyrir mitt leyti gæti gengið inn á ennþá meiri hækkun á árgjaldinu, því að jeg lít svo á, að fyrir slík leyfi sem þetta eigi að láta greiða ríflega.

Þá þótti mjer vanta ákvæði um, að sjerleyfishafa bæri að greiða alla lögboðna tolla og skatta til hins opinbera, því að vel gat komið til mála, að hann liti svo á, að hann með ákvæðum 3. gr. um árgjaldið væri undanþeginn öðrum gjöldum til hins opinbera. Til þess að fyrirbyggja misskilning um þetta efni, hefi jeg kveðið skýrar á um það í 2. málsgr. brtt. minnar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín öllu fleiri, og jeg skal taka það fram, að jeg mun ekki taka upp vörn fyrir frv., þó að á það verði deilt, því að í mörgum atriðum stend jeg ekki langt frá hv. meiri hl. sjútvn., þó jeg hinsvegar geti gengið inn á að lofa frv. í gegn, ef brtt. mínar verða samþyktar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.