16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4852 í B-deild Alþingistíðinda. (4062)

64. mál, hvalveiðar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg býst við, að það geti ekki gert fult gagn, þótt jeg segi hjer örfá orð, þar sem hv. 2. þm. N.-M. óskar að fá að vita vilja stjórnarinnar. En jeg skal taka það fram, að það, sem jeg segi hjer, er frá mínu eigin brjósti, en ekki talað fyrir hönd stjórnarinnar.

Jeg álít þetta ekki stórþýðingarmikið mál. Það hefir fyrir nokkrum árum risið upp sú „trúaralda“, ef svo mætti að orði komast, að ef hvalveiðar sjeu stundaðar hjer við land, þá verði það til þess að eyðileggja veiðiskap, svo sem þorsk- og síldveiðar.

Jeg hefi nú aldrei verið sannfærður um, að þessi skoðun væri á rökum bygð, en hinsvegar gæti það verið mjög leiðinlegt, ef hætta væri á því, að þessi dýrategund yrði algerlega upprætt. En jeg álít ekki hættu á því. Jeg álít hættuna álíka mikla og hún var, þegar hægt var að stunda þennan veiðiskap og hagnýta afurðirnar á landi. Jeg hygg, að aðstaðan til veiða sje mjög lík og þá var, að öðru leyti en því, að nú verða þeir menn, sem þessa veiði stunda hjer víð land, að flytja afurðirnar til Færeyja eða annara nærliggjandi staða, og við það álít jeg ekkert unnið, en þó nokkru tapað.

Jeg álít það því alveg hættulaust, að þetta frv. nái fram að ganga, því að hjer er aðeins um takmarkað leyfi að ræða. Og jeg get ekki gert ráð fyrir, að sú stjórnardeild, sem þetta mál mundi heyra undir, muni fara svo gálauslega með vald sitt, að hún fari að veita ótakmörkuð leyfi, heldur aðeins einum manni eða fjelagi til þess að byrja, og sjái síðan til, hvaða afleiðingar það hefir. Að því er snertir þá brtt., sem fram hefir komið, þá álít jeg þó hættuna enn minni, ef hún verður samþ., því að mjer þykir ekki líklegt, að slíkur fjelagsskapur, sem þyrfti til þess að öðlast þetta sjerleyfi, geti komist á stofn.

Samt sem áður býst jeg við, að jeg greiði brtt. atkv., því að mjer virðist þetta mál ekki jafnstórþýðingarmikið mál og sumir hv. þm. vilja gera úr því. Jeg álít það að vísu alveg meinlaust mál, en fremur gagnslítið.

Jeg álít það alveg óvíst, að nokkurt sjerleyfi verði veitt, þótt þetta frv. verði samþ., og þótt það verði veitt, þá er það og óvíst, að þjóðinni geti stafað nokkur hætta af því. Þetta er nú mín persónulega skoðun, hvort sem nokkur vill fara eftir henni eða ekki.