27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (4089)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. (HG) hefir gerst allstórorður vegna ummæla minna í hans garð. Jeg ætla að láta staðreyndirnar tala. Háttv. þm. skýrði sjálfur frá því, að 1923 hefðu orðið stórvægilegar misfellur á kosningunni á Ísafirði. Meðal annars hefði kjörstjórn úrskurðað ógild atkvæði gild, en ógilt gild atkvæði. Sje þetta nú satt, þá hafa stór spjöll verið á þessari kosningu. Krafa hans, eða kærenda fyrir hans hönd, var samt sem áður sú, að kosningin yrði tekin gildi og að honum yrði úrskurðuð kosning.

Nú aftur á móti er komið annað hljóð í strokkinn. Nú er að ræða um grun um svik í sambandi við kosningu Jóns Auðuns Jónssonar. En nú er þess ekki krafist, að kosningin verði tekin gild, heldur þvert á móti heimtað, að hún verði dæmd ógild. — Mikil er samkvæmnin. Jeg vona, að í augum fylgismanna hæstv. dómsmrh. (JJ) verði það ekki talin nein goðgá. þótt maður leyfi sjer að tala um uppástungur hans. Hæstv. dómsmrh. var að tæpa á því, að þm. skyldi úrskurðast ólöglega kosinn, þótt atkvæðamagn hefði, ef uppvís yrðu svik framin honum til framdráttar, en gagnframbjóðandi tekinn gildur sem rjettilega kjörinn, þótt lægri atkvæðatölu hefði. Jeg sje að vísu, að hv. þm. Ísaf. (HG) hneykslast á því, að hæstv. dómsmrh. sje gert svo hátt undir höfði að taka orð hans alvarlega. Með því sýnir hv. þm. hæstv. ráðh. (JJ) þá virðingu, er hann í raun og veru ber fyrir honum, en hið virðulega embætti verðskuldar aðra og meiri virðingu.

Hæstv. ráðh. (JJ) vildi segja, að jeg hefði lýst mannvonsku minni, er jeg dró upp dálitla mynd af því, hvernig færi, ef kosningaregla hans yrði tekin upp. Það er alveg skökk ályktun hjá hæstv. ráðherra. Jeg var að gera till. hans að athlægi. Vænti jeg þess, að honum skiljist, að ef hún nær fram að ganga, þá eru engin tök að halda uppi rjettlæti í landinu.

Þá komu sneiðar þær, er hæstv. dómsmrh. valdi mjer og áttu að færa mjer heim sanninn um það, hversu hann sýndi ávalt „fair play“. Reyndi hann þar að fara í kringum kjarna málsins með því að breiða sig sem mest yfir óskyldar hliðar þess. Hann hafði mörg orð um það, hæstv. dómsmrh., að fyrverandi fjármálaráðherra (JÞ) hefði ætlað sjer að lauma inn heimild fyrir Landsbankann um lántökur án þess í hvert einstakt skifti kæmi til kasta Alþingis að veita til þess leyfi. Nú vil jeg spyrja hæstv. dómsmrh., hvort það sje fjarri lagi eða jeg fari skakt með, að hann sjálfur hafi barist fyrir því, að seðlabanki ríkisins yrði rekinn á ríkissjóðs ábyrgð, svo að þau lán, er til hans yrðu tekin, væru vegna lagafyrirmæla gerð á ábyrgð ríkisins. Þá, ef svo er sem jeg segi, er það fullkomlega hlægilegt hjá hæstv. ráðherra að vera að tala um sviksamlega laumu í þessu sambandi. Jeg bjóst við, að hæstv. ráðh. mundi reyna að sýna fram á, að blaðagreinar hans í sambandi við ábyrgðarheimild ríkisstjórnarinnar fyrir reikningsláni Landsbankans væru samrýmanlegar við „fair play“ regluna. En í stað þess spyr hæstv. ráðh.: Voru það ekki 9 milj.? Jú, það voru 9 milj. En það er ekki það, sem um er deilt, heldur hitt, hvort þessi lántökuheimild væri sama sem það, að Jón Þorlákson og Magnús Guðmundsson hefðu bundið hverju mannsbarni í landinu svo og svo þungan skuldabagga. Um þetta vill hæstv. ráðherra ekki tala, en því meir um óskyld efni. Það er þessi venjulega aðferð hæstv. dómsmrh. til þess að smjúga úr klípunni og fara undan á flótta, þegar saumað er að honum með rökum.

Jeg ætla að reyna að taka ekki of hörðum tökum á hæstv. ráðh. Hann vill halda því fram, að jeg hafi dregið sorann úr götustrákatalinu inn á háttv. Alþingi. En hann aðgætir ekki, að þessi heiður getur ekki tilheyrt mjer, þar sem hann sjálfur, hæstv. dómsmrh. (JJ), átti sæti á þingi á undan mjer, — og hver er sá, að hann treysti sjálfum sjer eða öðrum til að bera af ráðherranum um dylgjur, óhróður og fúkyrði? En hitt má engan furða, þótt slíkt orðbragð, er hann hefir frá fyrstu tíð látið sjer um munn fara hjer á þingi, verði til þess að lokka fram á varir annara orð, sem betur væru komin annarsstaðar en í sölum Alþingis. Því læra börnin málið, að það er fyrir þeim haft, og jeg hefi hjer hæstv. dómsmrh. fyrir sessunaut, eða svo til.

Þessi háttsetti maður er stimplaður þeim dómi, er jeg vil ekki hafa eftir. Hann hlaut þann dóm fyrir „fair play“ í stjórnmálabaráttunni íslensku, og flokksbræður hans staðfestu dóminn, er þeir komu saman í sumar til þess að mynda stjórn. Hvað sem annars um hæstv. dómsmrh. má segja, verður því ekki neitað, að hann hefir sýnt, að hann er um margt mestur áhugamaður síns flokks. Það er hans verk frekar en nokkurs manns annars, að flokkurinn er það, sem hann er, og fer nú með stjórn, enda er það fullvíst, að hann mun sjálfur hafa talið sig standa næstan æðstu tign flokksins, er til stjórnarmyndunar kom. En það furðulega skeður, þá er flokksbræður hans fara að líta í kringum sig eftir manni, sem sómi sjer sem höfuð stjórnarinnar, þá lætur enginn þeirra sjer til hugar koma, að hann megi skipa þann sess.

Hvers vegna? Vegna þess, að gervallur þingheimur veit, að það er hann, sem dregið hefir sorann inn á Alþingi; það er hann, sem ber á enni sjer smánarstimpil óráðvandasta og ósannsöglasta stjórnmálamannsins, er þessi kynslóð hefir kynst.

Þetta er dómur alþjóðar, staðfestur af þeim hæstarjetti, sem ráðherrann verður að hlíta, sjálfum flokksbræðrum hans á þingi. Dómurinn er þungur, en jeg ann ráðherra hans, því að hann er rjettur.