27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (4091)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) var með ákúrur til okkar samnefndarmanna sinna í kjörbrjefanefnd, aðallega fyrir það, að við skyldum ekki hafa látið hann vita, þegar við fórum að sjá lögreglurjettarbókina hjá rannsóknardómaranum, og sömuleiðis fyrir það, að send skyldu vera skeyti til útlanda án þess að hann vissi, með fyrirspurnum um venjur þar um þessi mál. Þessu er því að svara, að þeim stallbræðrum, hv. þm. Dal. (SE) og hv. 1. þm. Skagf. (MG), þarf ekkert að þykja þetta undarlegt, því að þeir sögðu þegar á fyrsta fundinum, að þetta mál þyrfti engrar rannsóknar við, heldur bæri að setja Jón A. Jónsson tafarlaust inn í þingsætið. Þeir þurfa því ekkert að vera undrandi yfir því, þó að ekki hafi verið farið til þeirra og þeim tilkynt um nánari rannsókn. Annars fórum við meiri hluti nefndarmannanna sinn í hvoru lagi til rannsóknardómarans, án þess að við vissum hver af öðrum, og þangað hefðu hinir nefndarmennirnir getað farið á sama hátt, ef þeir hefðu álitið þess þörf.

Jeg get ekki annað en verið þakklátur þessum hv. þm. fyrir, að hann skyldi taka undir það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að nauðsynlegt væri að láta fara fram rannsókn út af kosningunum á Ísafirði 1923, því að það er krafa, sem við jafnaðarmenn munum gera. En hv. þm. hefði átt að styðja þessa kröfu 1924, því að á þessari kosningu flaut hann sem ráðherra í mörg ár, og má vel vera, að hag landsins væri betur komið nú, ef hann hefði þá horfst í augu við sannleikann.

Þá talaði þessi hv . þm. um, að það væri hefnd, bæði á Jón A. Jónsson og kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu; ef kosið yrði upp. Þessa röksemdafærslu skil jeg alls ekki, því að jeg fæ ekki sjeð, að það geti verið hefnd á kjósendur, þó að þeim sje gefinn kostur á að kjósa upp að nýju. Og hvað snertir frambjóðandann, JAJ, þá er það hrein og bein uppreisn fyrir hann, ef fylgi hans í kjördæminu er eins mikið og af er látið. Annars er jeg fyrir mitt leyti ósammála þeim háttv. þm., sem haldið hafa því fram, að JAJ myndi ná þarna kosningu aftur með miklum meiri hluta, því að jeg trúi því ekki, að kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu færu nú, eftir alt, sem á undan er gengið, og þó sjerstaklega aðferðina í þessu má]i, að fylkja sjer undir merki Íhaldsins. Jeg get varla gert ráð fyrir, að þeir yrðu miklu fleiri en þessir 24 kjósendur, sem sendu skeyti það, sem hjer var lesið upp í fundarbyrjun, og voru svo fyndnir að kalla sig fulltrúa hreppa úr Norður-Ísafjarðarsýslu, en hafa ekki verið kosnir á almennum hreppsfundum þar í sýslunni, heldur á fámennum klíkufundum fylgismanna frambjóðandans Jóns Auðuns Jónssonar.

Háttv. 3. landsk. (JÞ) notaði tækifærið til þess að reyna að smeygja inn grun um það, að rannsóknardómarinn hefði misbeitt valdi sínu. Sýnir það ljóslega, að foringjar íhaldsmanna halda enn, að þeim sje óhætt að halda áfram að ala á þeim grun, sem blöð þeirra hafa altaf verið að magna á móti rannsóknardómaranum, frá því að hann hóf rannsókn þessa máls.

Þá hafa þeir báðir, hv. 3. landsk. (JÞ) og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), haldið því fram, að við andstæðingar þeirra kendum Íhaldsflokknum um misfellur þær, sem orðið hafa á kosningunum þar vestra, og hv. 3. landsk. kvaðst ekki vita, hvort við ættum þar við Íhaldsflokkinn á þingi, eða yfirleitt íhaldskjósendur alla í landinu, og þá væri hvorki meira eða minna en um helming þjóðarinnar að ræða. En við höfum tekið það skýrt fram, að þar eigum við aðeins við kosningavjel íhaldsins vestra, og eru því auðvitað kjósendur Íhaldsflokksins víðsvegar um landið, sem engu ráða um stjórn flokksins eða bardagaaðferðir hans, alsaklausir, en þeir ættu að hugfesta aðferðir íhaldsforingjanna.

Hv. 2. þm. G.-K. kom með dæmi, er sýndi ljóslega, hversu lítið sumir ráðandi menn í Íhaldsflokknum hafa á móti slíkum atkvæðafölsunum. Hann taldi fölsunina í Hnífsdalsmálinu miklu betri en þó að menn afli sjer atkvæða með því að skrifa blaðagreinar frá sjónarmiði Framsóknarflokksins. En þessi afstaða hv. þm. kemur ekki flatt upp á mig, því að það er kunnugt, að hann hefir rekið menn úr vinnu hjá sjer fyrir þær sakir einar, að þeir hafa haft aðra pólitíska skoðun en hann. (ÓTh: Þetta eru vísvitandi ósannindi). Og jafnframt hefir hann og fjelagar hans, togaraeigendur, lagt svo fyrir skipstjóra, að setja á svartan lista hjá sjer og ráða ekki ýmsa sjómenn, sem staðið hafa framarlega í verkalýðssamtökunum.

Aðra eins skoðanakúgun og þessa í einkafyrirtækjum er þó hægt að hugsa sjer að þola, en þegar á að fara að verja atkvæðafalsanir frekar heldur en að andstæðingar vinni atkvæði, þá er tími til kominn fyrir Alþingi að segja hingað og ekki lengra á þessari braut, ógilda kosninguna vestra og heimta heiðarlega kosningu um þetta þingsæti.