14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

6. mál, laun embættismanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi borið fram brtt. á þskj. 159, um að sú eina breyting verði gerð á launalögunum, að þeir embættismenn, sem búsettir eru í sveitum, fái sömu dýrtíðaruppbót og aðrir. Hjer er sem kunnugt er um að ræða sveitaprestana. Þegar dýrtíðaruppbótin var lögleidd í fyrstu, fengu þeir 2/3 hluta þeirrar dýrtíðaruppbótar, er aðrir fengu. Þegar lögin um dýrtíðaruppbót voru endurskoðuð síðast, var þessu breytt, en þó vantaði 1/6 hluta til þess, að prestar í sveit fengju sömu dýrtíðaruppbót og aðrir. Jeg gerði þá tilraun til þess að fá þetta lagað, en tókst aðeins að hálfu. Jeg hygg, að sú hugsun, er liggur því til grundvallar, að þessir embættismenn fá lægri dýrtíðaruppbót en aðrir, sje algerlega röng. Þessir embættismenn eru langlægst launaðir og hafa minstar aukatekjur, og er það þeim mun ranglátara að láta þá fá minni dýrtíðaruppbót en aðra.

Þessari lægri dýrtíðaruppbót til stuðnings hefir verið bent á það, hve miklu ódýrara sje að lifa í sveit en í kaupstað. Því er þar til að svara fyrst, að sveitaprestar hafa bæði erfiðari prestaköll og lægri laun yfirleitt en prestar í kaupstöðum, sem vanalega hafa fjölmennari prestaköll og meiri aukatekjur af embætti sínu en sveitaprestar. Jeg álít því alls ekki rjett, að prestar í sveitum sjeu settir skör lægra en aðrir embættismenn.

Það kann að vera rjett, að það sje dýrara að lifa í kaupstað, en þó sækjast allir eftir því að komast þangað. Annarsvegar er ásóknin að komast í kaupstaðina, og hinsvegar er dregið úr launum sveitaprestanna; árangurinn hlýtur að verða sá, þegar stundir líða, að í sveitirnar fæst ekki annað en úrkast þessara embættismanna. Það er búið að rýja sveitirnar svo að mentamönnum, að mjer finst ekki mega fara lengra á þeirri braut.

Loks má á það minna, að sveitaembættismennirnir fara á mis við fjölmörg þau þægindi, sem embættismenn í kaupstöðum njóta; en það er þá líka ekki sanngjarnt að refsa þeim fyrir það að fara á mis við þægindi.

Jeg veit ekki fyrir víst, hve mikil gjöld það yrðu fyrir ríkissjóð, ef það yrði að lögum, að embættismenn í sveitum nytu sömu dýrtíðaruppbótar og aðrir, en mikil gætu þau ekki verið. Eftir því, sem jeg hefi komist næst, geri jeg ráð fyrir, að það yrðu ca. 10 þús. kr. á ári.