31.01.1928
Sameinað þing: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (4122)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Einar Jónsson:

Jeg vonast til þess, að hæstv. forseti leyfi mjer að tala frá öðru sæti en mínu eigin, með því að jeg er hjer staddur á annars manns stað, en mitt sæti er upptekið í bili.

Jeg skal ekki vera langorður. En það verð jeg að segja, að, þær hafa þreytt mig, þessar umræður, hið fyrra sinn langt fram á nótt og nú í annað sinn virðist alt útlit fyrir litlu betra.

Og jeg get ekki komist hjá að láta í ljós óánægju mína yfir því, hve hæstv. forseti hefir leyft umr. á víð og dreif hjer í kvöld. (Forseti hringir). Jeg er með þessu alls ekki að víta hæstv. forseta. Honum ber frekar að víta mig en mjer hann.

Það eru tvö atriði í þessu máli, sem ekki hafa verið athuguð í þessi tvö sinn, sem umræður hafa um það staðið. Jeg vil því gerast til þess að draga þau fram.

Annað er það, hver háski getur af því stafað, ef Alþingi fyrirskipaði kosningar að nýju í fjallasveit eins og Norður-Ísafjarðarsýsla er nú um þetta leyti árs. Því hefir verið haldið fram, að það gerði í raun og veru viðkomandi þingmanni ekkert til, og kjósendum heldur ekki, þótt kosningin yrði dæmd ógild, þv í að úrslit nýrra kosninga myndu verða hin sömu og geta fengist afgerð innan hálfs mánaðar hjer frá. En vilja menn þá ekki athuga, hver mismunur er á því að sækja kjörfund langar leiðir um hávetur í óveðri og illri færð eða sitja hjer í stofum þingsins hreinn og þur og þurfa ekki lengra að fara en milli húsa í bænum, og kvarta þó yfir, ef nokkuð er að veðri.

Jeg fæ ekki betur sjeð en það sje beinlínis að stofna mannslífum í voða að fyrirskipa nýjar kosningar nú í annari eins vetrarríkis- og harðindasýslu sem hjer um ræðir. Að vísu er það út af fyrir sig, en þó vert að athuga áður en flanað er að nýrri kosning, jafnóþarft og órjettlátt sem það er.

Jeg ætla alls ekki að fara að tala um kosningarnar á Ísafirði 1919 og 1923, því að þær koma þessari kosningu ekkert við. Það mætti alveg eins minnast á allar aðrar kosningar, sem fram hafa farið víðsvegar um land á liðnum árum og allir sjá, að ekki eru í neinu sambandi hver við aðra. En jeg vil aðeins beina því til þeirra góðu manna, sem bera fram þá alvarlegu kröfu, að ákveða vissan svefntíma og hvíldartíma fyrir menn, hvort þeir geti nú verið vissir um, að kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu fái sinn 8 tíma svefn, ef þeir verða neyddir til að fara að kjósa upp aftur. Jeg hefi ekki komið vestur á þessar slóðir og er ekki heldur svo góður í landafræði, að jeg geti farið í gegnum þau hjeruð í huganum, en mig minnir þó, að helstu kauptún þar sjeu Bolungavík og Hnífsdalur. Má hví vera, að jafnaðarmenn hugsi sjer að sigra á því, að þeirra menn sjeu í kauptúnunum, og eins og nú standa sakir, verði það aðeins íbúar þeirra, sem gætu sótt kjörfund, ef efnt yrði til kosninga þar vestra nú þegar.

Ef hv. forráðamönnum Framsóknarflokksins hefir tekist það á milli fundanna að fá það samþykt í flokknum, að flokksmenn lýsi yfir hlutleysi sínu við atkvæðagreiðsluna, eins og hv. 1. þm. Árn. (JörB) gerði, eftir að hafa lýst kosninguna gerræði og lögleysu, þá öfunda jeg þá ekki af verkum sínum. Og mjer þykir leitt, að minn góði vinur, hv. 1. þm. Árn., skyldi gera þetta, því að það hefði verið miklu betra fyrir hann að segja hreint „nei“, og það hefði hann og þeir, sem honum fylgja, átt að gera við þingsetninguna strax.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að samkvæmt fyrri þingvenjum í þessum efnum, þá virðist það liggja í augum uppi, að það væri hreinasta gerræði að ógilda kosningu þessa.