14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

6. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Mig skal ekki undra, þótt háttv. 2. þm. G.-K. vilji fá brtt. til nefndar. Jeg býst við, að hann vilji leika sama skollaleikinn í meðferð till. sem í málinu sjálfu við 2. umr. Þessi hv. þm. hefir tekið sjer fyrir hendur að gerast lærifaðir minn. En hv. þm. verður að sætta sig við það, að jeg tek ekki meira tillit til hans en þótt karlinn Gossari vildi fara að kenna mjer siðfræði. En ef hv. þm. vill gerast lærimeistari, ætti hann að kenna skipstjórum sínum að lesa dulmál úr mæltu máli. Það gæti haft talsverða þýðingu fyrir hann, ekki síst ef „amma gamla yrði lasin“.

Út af brtt. hv. þm. vil jeg taka það fram, að jeg fæ ekki sjeð, að hún verði til annars en að undirbúningur launalaganna verði verri en vera þarf. Og ekki veit jeg heldur, hvaðan hann hefir þann vísdóm, að nú sje sá rjetti tími til að ráða því stórmáli til lykta. Jeg held, að hann ætti að ganga í skóla til flokksforingja síns, sem gæti sýnt honum fram á, að nú er ekki tímabært að ljúka málinu.

Ekki held jeg, að það sje rjett hjá hv. þm., að hann vilji fá till. til nefndar svo að hann geti athugað hana sjálfur, heldur til hins, að geta hlaupið með hana út í bæ og fengið að vita, hvað hann eigi að segja um málið hjer á þingi.

Jeg mun greiða atkv. á móti brtt. 157, en með brtt. 159, af því að þessir embættismenn hafa hingað til verið beittir ranglæti og ekkert tillit tekið til þess hagræðis, sem er að búa hjer í Rvík. Margir embættismenn vilja heldur búa hjer, vegna þess að þá verður þeim ódýrara að kosta börn sín í skóla. Og embættismenn úti um land vilja engu síður en embættismenn í Rvík láta börn sín njóta sömu mentunar sem þeir hafa sjálfir hlotið.