28.01.1928
Neðri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

27. mál, bændaskóli

Jón Sigurðsson:

Jeg var ekki inni, er hæstv. atvmrh. hóf ræðu sína, og misti því af nokkrum hluta hennar. En niðurlag ræðunnar gaf minna tilefni til að gera þær aths., er jeg hafði hugsað mjer að gera við frv., einkum vegna þess, að hæstv. ráðh. sagði, að form frv. væri sjer ekki fast í hendi og hann væri fús til samvinnu. samt sem áður tel jeg það skyldu mína að segja nokkur orð um þetta mál.

Í frv. er gert ráð fyrir því að stofna unglingaskóla í sambandi við skólann á Hólum. Jeg verð að segja, að mjer finst þetta vera spor aftur á bak. Áður voru 4 búnaðarskólar á landinu, nú eru þeir aðeins tveir eftir, og ef þessi breyting kemst í framkvæmd, mætti segja, að þá væri aðeins eftir 1½ búnaðarskóli. Nú er það kunnugt, að meira en helmingur landsmanna stundar landbúnað, en þessir tveir skólar geta aðeins rúmað 40–50 nemendur. Sá fjöldi er aðeins lítið brot þeirra manna, sem gera má ráð fyrir, að árlega bætist í hóp landbúnaðarmanna. Það er því síst ástæða til að þrengja enn meir að þessu námi. Jeg veit, að Hólaskóli hefir verið lítið sóttur undanfarin ár, en ástæðan fyrir því er sú í fyrsta lagi, að skólinn hefir vegna brunans legið að nokkru í rústum nú í 2 vetur. Í öðru lagi af því, að hann er ekki lengur í samræmi við kröfur þær, er bændur gera til búnaðarskóla nú. Fyrir 20 árum var þörf á vakningu eftir dauðamók það, er landbúnaðurinn hafði legið í þá um margar aldir, og var full þörf á að vekja bændur til þess að hefjast handa. En þegar sú vakning var fengin, vantaði þekkingu til framkvæmda. Þess vegna hafa komið fram kröfur um verklega kenslu, og sú er orsökin til þess, að Hólaskóli hefir verið miður sóttur en skyldi. — Ef hæstv. forsrh. er sannfærður um, að breytingar hans við verklega námið geti orðið til verulegra bóta fyrir skólann, verða þær um leið til þess að efla aðsókn að skólanum. Afleiðingin hlyti að verða sú, að þá yrði ekkert rúm fyrir unglingaskóla, og er þetta því að mínu áliti hvað upp á móti öðru. Jeg hallast því að því, að þessi unglingadeild verði látin bíða fyrst um sinn, þar til sjeð er, hvernig hin fyrirhugaða breyting gefst og hver áhrif hún hefir á aðsókn að skólanum. Af því, sem eg hefi nú sagt, veit eg, að öllum er ljóst, að jeg er fylgjandi verklegu námi. Bændur gera yfirleitt þær kröfur til þeirra, sem frá búnaðarskólum koma, að þeir kunni til verklegra framkvæmda í búskap.

En úr því að farið er að hrófla við bændaskólunum á annað borð, vil jeg skjóta því til hv. landbn., hvort ekki er fleira, sem þarf að athuga í þessu máli. Jeg held, að t. d. væri athugamál, hvort hin bóklega kensla gæti ekki tekið verulegum breytingum til bóta. Jeg hefi það í huga, hvort ekki mætti breyta Hólaskóla allverulega, t. d. í eins árs skóla. Jeg veit, að sumir menn segja, að í slíkum skóla verði kenslan aldrei annað en kák, samt er það svo, að í Noregi eru allmargir slíkir skólar. Og þeir hafa gefist svo, að þar er næstfjölmennasti hluti búfræðinga þjóðarinnar útskrifaður frá slíkum skólum. Fyrirkomulagið er þannig, að á veturna er stundað bóklegt nám, en verklegt yfir sumarið. Norðmenn hafa nú nýlega fjölgað þessari tegund búnaðarskó]a hjá sjer. Og úr því að nánustu frændþjóð okkar hefir gefist þetta fyrirkomulag svo vel, þá eru líkurnar fyrir því, að það gæti einnig reynst vel hjer, þar sem staðhættir eru að mörgu svipaðir. — Mín hugmynd er sú, að bóklega kenslan verði höfð með lýðskólasniði. Fyrst og fremst verði valið það hagnýtasta, en jafnframt verði kostað kapps um að vekja áhuga nemendanna, ekki aðeins fyrir námsgreinunum, heldur og fyrir landbúnaðarmálum yfirleitt. Og hvað sem segja má nú um Hólaskóla og ófullkomleika hans hvað snertir verklegt nám, þá var það svo, þegar jeg þekti hann best og var þar lærisveinn, að hann vakti áhuga hjá nemendum sínum. Jeg leyfi mjer að fullyrða, að hver nemandi hafi farið þaðan fullur af brennandi áhuga fyrir því að gera gagn og verða nýtur bóndi, þegar aðstaða hans leyfði.

Þá er enn eitt atriði, sem frv. fjallar um, að reka skólabúið fyrir reikning hins opinbera. Jeg hefi ekki hugsað það mál til hlítar, en þó er í mjer talsverður uggur við að taka upp þá aðferð. Sú reynsla, sem fjekst meðan amtið kostaði rekstur Hólaskóla, hvetur engan veginn til þessa. Og hvort sem það er sambærilegt eða ekki, þá er það víst, að slíkt skólafyrirtæki, sem rekið er fyrir opinberan reikning, þarf strangt eftirlit og sjerlega vandaður maður verður að veita því forstöðu, ef það á ekki að verða ríkissjóði til stórkostlegrar útgjaldabyrði. Ef landbn. áliti hægt að koma því fyrir, þá hefði jeg frekar kosið, að þessu hefði verið komið svo fyrir, að bústjóri ræki búið á eiginn reikning, með svo hagstæðum kjörum, sem hann getur frekast átt kröfu á.

Loks langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., á hvern hátt hann hafi hugsað sjer þær breytingar, sem nauðsynlegar verða á kennaraliði skólans eftir frv. Mjer skilst, að einn eða tveir kennarar eigi að víkja á einhvern hátt, og þætti fróðlegt að heyra skýringu hæstv. ráðh. á því og hverja á að reka, ef einhverjir eiga að fara.